Verjum það nauðsynlega – skerum niður munaðinn

Stjórnvöld á Íslandi standa nú frammi fyrir því að þurfa að skera umtalsvert niður af fjárlögum ríkisins. Sama verkefni blasir við sveitarstjórnum um allt land. Hingað til hafa fáar gagnlegar hugmyndir komið fram nema hvað allir virðast nokkurn veginn sammála um að það þurfi að finna lausnir. Það er hins vegar sjaldgæfara að finna fyrir nokkurn mann sem þorir að leggja þessar lausnir til, enda er það ljóst að allar breytingar í ríkisrekstrinum munu vekja upp hörð viðbrögð.

Stjórnvöld á Íslandi standa nú frammi fyrir því að þurfa að skera umtalsvert niður af fjárlögum ríkisins. Sama verkefni blasir við sveitarstjórnum um allt land. Hingað til hafa fáar gagnlegar hugmyndir komið fram nema hvað allir virðast nokkurn veginn sammála um að það þurfi að finna lausnir. Það er hins vegar sjaldgæfara að finna fyrir nokkurn mann sem þorir að leggja þessar lausnir til, enda er það ljóst að allar breytingar í ríkisrekstrinum munu vekja upp hörð viðbrögð.

Sú lexía hefur verið margtuggin ofan í stjórnmálamenn að gagnvart öllum hugmyndum sem fela í sér minni ríkisútgjöld munu spretta kröftug mótmæli þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum er undantekningarlítið túlkaður sem árás á veik börn, í félagsmálakerfinu má ekki hrófla við neinu án þess að fjölmiðlar finni eitthvað jaðardæmi sem kemur átakanlega illa út úr fyrirhugaðri breytingu og allt sem snertir breytingar á hinni fjölbreyttu styrkjaflóru í atvinnulífi landsbyggðarinnar er líklegt til þess að leggja byggðir í eyði á mettíma. Það vantar sjaldnast talsmenn fyrir þá hópa sem verða fyrir barðinu á niðurskurði og að sumu leyti gengur starfsemi ýmissa ríkisstofnana út á að réttlæta eigin tilvist.

Ríkisútgjöld hafa vaxið ótrúlega hröðum skrefum á Íslandi á síðustu árum. Stjórnmálamenn hafa ekki haft ístöðu til þess að spyrna fótum við þeirri þróun enda óþægilegt að taka slíka slagi þegar svo virðist sem bæði almenningur og ríkissjóður geti hæglega staðið undir öllum þeim nýmælum sem menn finna upp á í ríkisrekstri. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir nú er að ríkið hefur, á sama hátt og margir einstaklingar, komið sér upp „lífsstíl“ sem ekki er hægt að standa undir eða réttlæta. En það er vandinn með á meðan peningar og góðæri koma og fara þá er erfiðara að venja sig af þeim lúxus og þægindalífi sem menn koma sér upp í góðæri.

Undanfarin ár og áratugi hefur hið opinbera tekið að sér og búið til sífellt fleiri verkefni. Í skólum fjölgar ýmis konar ráðgjöfum (sem meðal annars eru í sumum tilvikum hafa tekið að sér að stjórna skemmtanalífi nemenda), í heilbrigðisstofnunum er fjöldinn allur af starfsmönnum sem ekki sinnir sjúklingum og í ráðuneytum, og stofnunum þeirra, er að finna fjölda manna sem sinna ýmis konar ráðgjöf, eftirliti og þar fram eftir götunum. Sveitarfélög ráða sér kynningarfulltrúa, tómstundaráðgjafa, menningarfulltrúa og þar fram eftir götunum. Á sama tíma er sífelldur skortur á hæfum kennurum, lögregluþjónar fá slæm laun og aðbúnað og hjúkrunarfólk og læknar starfar undir gríðarlegu álagi. Í Bretlandi hefur þróunin verið sú að fjölgun opinberra starfsmanna hefur fyrst og fremst verið í hópi þeirra sem ekki sinna beinni þjónustu við almenning, heldur í ýmis konar nýsköpun í opinberum rekstri – hjá fólki sem fer á ráðstefnur, gerir skýrslur og leggur fram tillögur. Á meðan versnar sú opinbera þjónusta sem fólk þarf helst að nýta sér. Þar eru ráðnir fjórir nýir opinberir starfsmenn í stjórnsýslu og ráðgjöf fyrir hvern einn sem fer í kennslu, löggæslu, heilbrigðisþjónustu og þess háttar.

Ekki er gott að átta sig á því hversu mikill vöxtur hefur orðið í svona störfum á Íslandi. Það er hins vegar hægt að slá því föstu að á undanförnum árum og áratugum hefur ýmis konar gæluverkefnum fjölgað – hvort sem þau eru innt að hendi innan gamalla stofnana eða nýjar verið settar á laggirnar. Fyrir vikið er torsótt að átta sig á kostnaði við alla þessa starsfemi bara með því að skoða fjárlögin. Það er ljóst að mikilvægasta starfið í skólum er það sem kennarinn sinnir og minni skaði felst í því ef frístundaráðgjafimissir verkefni sitt heldur en ef góður kennari hættir, svo dæmi sé tekið – þótt það sé vissulega gagnlegt að hafa frístundaráðgjafann til staðar. Á sama hátt geta heimili þurft að velja á milli þess að segja upp áskrif af sjónvarpsstöðvum eða geta ekki borgað húsnæðislán – þá þarf lúxusinn auðvitað að víkja fyrir skyldunni.

Ríkið hefur þanist út í góðærinu og það lítur ekki út fyrir að verða auðvelt verk að koma böndum á útgjöld þess. Við þá vinnu er þó mikilvægt að skilja fyrst á milli þess hvaða verkefni eru nauðsynleg, hver eru mikilvæg, hverjum er þægilegt að viðhalda, og hver eru munaður sem hið opinbera hefði aldrei átt að leyfa sér. Þannig kann að reynast mögulegt að skera niður mikinn kostnað án þess að það bitni á mikilvægustu þáttum þeirrar þjónustu sem ríkið veitir.

Vandinn er hins vegar sá að raddir hagsmunahópa eru sterkar í öfugu hlutfalli við mikilvægi þeirra verkefna sem þeir sinna. Við núverandi aðstæður mega stjórnvöld hins vegar ekki við því að láta stjórnast að moldviðrum sem þyrlað er upp í hvert sinn sem gera þarf breytingar á rekstri ríkisstofnana.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.