Ekki fleiri stígvélastörf takk

Það er raunverulegt vandamál og mun líklegra en margir telja að ungt vinnufúst fólk flytji úr landi á næstu árum og áratugum. Samkvæmt nýlegum tölum er einn af hverjum átta einstaklingum á mínum aldri atvinnulaus og stór hluti þeirra er með háskólamenntun. Í mínum huga liggur í augum uppi að fleiri störf í stóriðju, fiski eða landbúnaði munu ekki halda þessum hópi á landinu.

Það er raunverulegt vandamál og mun líklegra en margir telja að ungt vinnufúst fólk flytji úr landi á næstu árum og áratugum. Samkvæmt nýlegum tölum er einn af hverjum átta einstaklingum á mínum aldri atvinnulaus og stór hluti þeirra er með háskólamenntun. Í mínum huga liggur í augum uppi að fleiri stígvélastörf munu ekki halda þessum hópi á landinu, þ.e. störf í stóriðju, fiski eða landbúnaði. Störf sem eiga það sameiginlegt að vera iðulega unnin í stígvélum!

Finnska fyrirtækið Nokia tók U-beyju fyrir tuttugu árum með góðum árangri og hætti að framleiða stígvél. Við Íslendingar þurfum að taka U-beygju og hætta að nota stígvélin.

Nú er ég alls ekki að gera lítið úr þessum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, þvert á móti eru þetta mikilvægar atvinnugreinar og þeim þarf að halda við og efla verðmætasköpun þeim tengdum. Það verður samt einfaldlega að viðurkenna þá bláköldu óvinsælu staðreynd, að mín kynslóð hefur mestan áhuga á að nota álið í umbúðir og borða fiskinn, kjötið og grænmetið. Mín kynslóð hefur afar takmarkaðan áhuga á að sækja sér framtíðarstörf í þessar atvinnugreinar, því miður er það staðreynd sem flestir í kringum mig hugsa en fáir segja kannski upphátt. Sú framtíð sem mín kynslóð sér í þessum greinum tengist því að finna upp nýja tækni, aðferðir og leiðir til að auka verðmætasköpun þeim tengdum, sem í öllum tilvikum þýðir meiri sjálfvirkni og fækkun almennra starfa í greinunum.

Að sjálfsögðu eigum við að nýta auðlindir landsins, orkuna, fiskinn og önnur landsins gæði – annað væri fásinna. Við þurfum að nýta auðlindirnar á ábyrgan og sjálfbæran hátt til að skapa innlend verðmæti og atvinnu. En að treysta einungis á náttúruaðlindirnar og benda á tímabundnar patentlausnir til atvinnusköpunar á landinu í þessum geirum er, þegar til lengri tíma er litið, jafn mikil fásinna og að nýta ekki auðlindirnar.

Ef við ætlum að skapa hér samkeppnishæft land í alþjóðasamanburði á næstu áratugum, þegar horft er til almennra lífsgæða og atvinnutækifæra, þurfum við fyrst og fremst að virkja og nýta þær auðlindir sem búa í okkur sjálfum, hugum okkar, menntun og þekkingu. Danir búa ekki yfir auðugum náttúruauðlindum en hafa það bara skrambi gott, sama er að segja um Finna, Ísraela og íbúa í kringum Boston og San Fransisco. Þessi landsvæði eiga það sameiginlegt að byggja samkeppnishæfni sína fyrst og fremst á hátækni- og þekkingarfyrirtækjum á heimsmælikvarða. Ekki virkjun náttúruauðlinda, heldur virkjun mannauðs og menntunar. Mín framtíð á samleið með síðarnefndu leiðinni.

Menntunarstig á Íslandi hefur stóraukist undanfarna tvo áratugi með mikilli fjárfestingu í fjölbreyttu og öflugu menntakerfi. Það er því lykilatriði að atvinnusköpunin sem hér þarf að eiga sér stað verði í takt við þetta hækkandi menntunarstig. Við þurfum að hækka atvinnustigið í vel launuðum þekkingarfyrirtækjum og lækka hlutfall láglaunaðra starfa. Það er eina lausnin til að koma í veg fyrir fólksflótta ungs fólks á næstu áratugum. Það er raunveruleg hætta á að hér hætti fólk að tala um byggðastefnu í samhenginu frá höfuðborg til landsbyggðarinnar, heldur tali hér í framtíðinni um byggðastefnuna „frá alþjóðasamfélaginu og heim til Íslands“.

Aftur á móti verður einnig að hafa í huga að það er ekki hlutverk stjórnvalda að búa til störf eins og oft er látið í veðri vaka. Það er hlutverk þeirra að skapa mér og minni kynslóð góða umgjörð sem byggir á sanngjörnum og spennandi tækifærum. Umhverfi þar sem frelsi og framtaksemi einstklingsins fær að njóta sín og auðvelt er að stofna ný fyrirtæki og skapa störf.

Þannig er það í mínum höndum, og minnar kynslóðar, að búa okkur sjálf til þessi störf í stað þess að treysta á hið opinbera að sjá okkur fyrir vinnu. Við þurfum hins vegar að treysta á að stjórnvöld og stjórnmálamenn allra flokka styðji okkur í þessari viðleitni og átti sig á því hvað skiptir okkur raunverulega máli og vinni ekki á móti okkur með tímabundnum mannaflsfrekum og kostnaðarsömum framkvæmdum, hvort sem er í stóriðju, auknum kvóta eða garðyrkjubúskap. Allt hin ágætustu mál, en skapa engu að síður afar fá spennandi framtíðarstörf.

Eyðum frekar sama fjármagni í að lækka reiknað endurgjald atvinnurekenda í eigin fyrirtækjum, búum til hvata fyrir fjárfestingar einkaaðila í litlum fyrirtækjum, gerum tapað hlutafé einstaklinga í óskráðum fyrirtækjum frádráttarbært frá skatti til jafns við lögaðila, skoðum smálánaábyrgðir nýrra fyrirtækja sambærilegt við Bandaríkjamenn og Breta og svo mætti áfram telja. Þá mun mín kynslóð lækna stjórnmálamenn af hausverknum og við munum sjálf skapa þau störf sem við viljum vinna við, í stað allra þeirra sem flokkarnir hafa keppst við að lofa að búa til síðustu vikur.

Það vill nefnilega svo til að það er margfalt ódýrara að skapa þúsund störf í hundrað litlum fyrirtækjum, en að skapa sömu þúsund störfin í örfáum stórum fyrirtækjum eða með stórtækum miðstýrðum ríkisaðgerðum.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)