Að taka slaginn en forðast stríðið

Við upplifum örlagatíma í sögu þjóðarinnar. Ástandið er ekki litað of dramatískum litum með slíku orðavali –síður en svo. Hvernig til tekst við þau verkefni sem brýnust eru í dag ræður nokkuð miklu um hag og lífskjör þjóðarinnar til framtíðar litið.

Við upplifum örlagatíma í sögu þjóðarinnar. Ástandið er ekki litað of dramatískum litum með slíku orðavali –síður en svo. Hvernig til tekst við þau verkefni sem brýnust eru í dag ræður nokkuð miklu um hag og lífskjör þjóðarinnar til framtíðar litið.

Ábyrgðafull stjórnvöld eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr á lýðveldistímanum. Þeim verður að vera treystandi til þess að draga skýrar meginlínur í stefnumörkun sinni og einbeita sér að þeim verkefnum sem þar falla undir en leggja önnur viðfangsefni til hliðar um stundarsakir. Draga víglínurnar þar sem bardaganna er þörf og láta af smáskærum gegn vindmyllum

Þessu átta sig allir á.

Þegar litið er yfir feril minnihlutastjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar er hins vegar augljóst að þau hafa misst sjónar á þessum meginlínum og dunda sér þess í stað við aukaatriði og gæluverkefni. Skjaldborgin hefur verið slegin um áframhaldandi stjórnarsamstarf og stóru verkefnin eru geymd um stund vegna aðsteðjandi kosninga.

Að þessu urðum við vitni þegar víglínan var dregin við Kalkofnsveg. Að þessu urðum við vitni þegar víglínan var dregin við strípibúllur. Að þessu urðum við vitni þegar víglínan var dregin gagnvart embættismönnum víða um stjórnkerfið og að þessu urðum við vitni þegar víglínan var dregin gagnvart sjálfri stjórnarskránni.

Af þessu má ljóst vera að ríkisstjórnin tekur slaginn víða. Það vantar ekki. Þar á bæ eru hinir mestu slagsmálahundar sem munu standa móðir og másandi gagnvart kjósendum innan fárra vikna og biðja um stuðning til áframhaldandi verka.

Gallinn er hins vegar sá að mæðin stafar ekki af frækilegri framgöngu í stríðinu sjálfu heldur harla hjákátlegum bardögum við vindmyllurnar í íslensku samfélagi. Barist er við vindmyllur og vonast til þess að augu þjóðarinnar beinist að þeim í stað þeirrar óværu sem nauðsynlegt er að taka taka slaginn við.