Vinna sjálfstæðismenn varnarsigur í Norðvesturkjördæmi?

Á næstu dögum mun Deiglan fjalla um stöðu mála í hverju kjördæmi í aðdraganda kosninga til alþingis þann 25. apríl næstkomandi. Í dag er sjónum beint að Norðvesturkjördæmi.

Á næstu dögum mun Deiglan fjalla um stöðu mála í hverju kjördæmi í aðdraganda kosninga til alþingis þann 25. apríl næstkomandi. Í dag er sjónum beint að Norðvesturkjördæmi.

Sérstaða kjördæmisins er ekki bara lengsta strandlengja allra kjördæmanna sex heldur er NV-kjördæmi hið fámennasta; með átta kjördæmakjörna þingmenn. Fyrir síðustu kosningar færðist 9. kjördæmakjörni maðurinn yfir til Suðvesturkjördæmis sem státar nú af flestum þingmönnum.

Í síðustu kosningum vorið 2007 vann Sjálfstæðisflokkkurinn ágætan sigur í NV-kjördæmi, fékkk 29,1% atkvæða og þrjá þingmenn kjörna; þá Sturlu Böðvarsson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Einar Odd Kristjánsson. Einar Oddur féll frá þá um sumarið og tók Herdís Þórðardóttir sæti á þingi í hans stað.

Samfylkingin fékk 21,2% atkvæða og náðu þeir Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson kjöri. Magnús Stefánsson var kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn með 18,8% atkvæða og Jón Magnússon fyrir VG með 16% atkvæða. Hins vegar náðu þeir Guðjón Arnar Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson báðir inn á þing fyrir Frjálslynda flokkinn, þótt þeir hefðu einungis 13,6% atkvæða á bakvið sig, en Kristinn fór inn sem uppbótarmaður, 9. þingmaður kjördæmisins.

Miklar breytingar hafa orðið á listum flokkanna frá síðustu kosningum. Ásbjörn Óttarsson leiðir lista sjálfstæðismanna og Einar Kristinn Guðfinnsson er áfram í 2. sæti þar. Á eftir þeim koma tvær öflugar konur af Vestfjörðum, þær Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og Birna Lárusdóttir. Veikleiki listans hjá sjálfstæðismönnum er sá að enginn frambjóðandi úr stærsta bæjarfélaginu, Akranesi, á möguleika á þingsæti. Deiglan hefur heimildir fyrir því að stuðningsmenn Bergþórs Ólasonar, sem skipar 5. sætið á listanum, hafi krafist þess að skipt yrði á honum og Eyrúnu í 3. sætinu. Sömu aðilar munu hafa hótað því að Skagamenn standi að sérframboði. Þetta þykir mjög ósennilegt enda hafa þeir Ásbjörn og Einar Kristinn sterka stöðu á Akranesi.

Það vegur upp á móti vandræðum sjálfstæðismanna á Akranesi að Samfylkingin og VG hafa skapað sér óvinsældir meðal bæjarbúa með andstöðu sinni við hvalveiðar en ótvírætt er að umsvif vegna veiðanna og vinnsla afurðanna yrði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á Skaganum. Guðbjartur Hannesson leiðir lista Samfylkingarinnar eins og síðast en í öðru sæti er Ólína Þorvarðardóttir á Ísafirði. Ísfirðingur er jafnframt í þriðja sætinu þar, Anna Lára Jónsdóttir, og Borgfirðingurinn Þórður Már Jónsson skipar fjórða sætið. Staðan er því sú að sex frambjóðendur af átta efstu á listum tveggja stærstu flokkanna í kjördæminu eru Vestfirðingar.

Frá því að ný kjördæmaskipan tók gildi fyrir kosningarnar 2003 hafa fylgisveiflur í Norðvesturkjördæmi ekki sveiflast alfarið í takt við sveiflur á landsvísu. Þannig vann Sjálfstæðisflokkurinn góðan varnarsigur í kosningunum 2003, fékk 30% atkvæða, á meðan flokkurinn beið ósigur á landsvísu. Í síðustu kosningum þegar Sjálfstæðisflokkurinn bætti verulega við fylgi sitt á landsvísu, dalaði fylgið lítið eitt í Norðvesturkjördæmi. Þótt flesti bendi til að Sjálfstæðsflokkurinn á landsvísu muni tapa verulegu fylgi þar slíkt ekki að vera uppi á teningnum í NV-kjördæmi. Annað sem styrkir flokkinn þar er sú staðreynd að stöðugt fjarar nú undan Frjálslyndum en víst er að margir stuðningsmenn þeirra í síðustu kosnignum eiga meiri samleið með Sjálfstæðisflokknum en hinum flokkunum. Ósennilegt verður að teljast að Frjálslyndi haldi tveimur þingmönnum í Norðvesturkjördæmi og hugsanlega kæmi 9. þingmaðurinn, uppbótarmaðurinn, í hlut Sjálfstæðisflokksins ef flokkurinn tapar ekki miklu frá því í síðustu kosningum.

Norðvesturkjördæmi er mjög fjölbreytt og áherslur ólíkar eftir einstökum landssvæðum. Sjávarútvegur vegur þungt í þessu kjördæmi og víst er að þar standa sjálfstæðismenn ágætlega að vígi með Ásbjörn og Einar í forystu. En kjördæmið er jafnframt stærsta sauðfjárræktarsvæði landsins og víst er að framsóknarmenn með Skagfirðinginn Gunnar Braga Sveinsson í broddi fylkingar munu reyna að endurheimta fylgi sitt meðal bænda í kjördæminu.

Það mun hins vegar ráða miklu um úrslitin í kjördæminu hvernig íbúar á þéttbýlustu svæðunum syðst í kjördæminu ráðstafa sínu atkvæði. Guðbjartur Hannesson er eini Akurnesingurinn sem er með öruggt sæti og í raun eini Akurnesingurinn sem á raunhæfa möguleika á þingsæti. Sem oddviti Samfylkingarinnar er hins vegar öruggur inn og ekki þörf á sérstöku átaki til að ná honum inn á þing. Þetta kann að vinna gegn Samfylkingunni á Akranesi.

Líklegt er að málefnin munu skipta meira máli þegar kemur að fylgi flokkanna í syðri hluta kjördæmisins. Þar stendur Sjálfstæðisflokkurinn nokkuð vel að vígi með stuðning við hvalveiðar og áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu. Sömu sögu er að segja af Framsóknarflokknum. Vinstriflokkarnir munu eiga erfiðara uppdráttar ef kosningar snúast um slík mál á því svæði.

Spá Deiglunnar um þingmenn kjördæmisins að loknum kosningum:

B-listi:
Gunnar Bragi Sveinsson

D-listi:
Ásbjörn Óttarsson
Einar Kristinn Guðfinnsson
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir

F-listi:
Guðjón Arnar Kristjánsson

S-listi:
Guðbjartur Hannesson
Ólína Þorvarðardóttir
Anna Lára Jónsdóttir

V-listi:
Jón Bjarnason