Markaður fyrir Ríkið?

Sú mikla heimskreppa sem nú ríður yfir af miklum krafti – ekki hvað síst á hinu fagra landi ísa – hefur leitt af sér einhverja mestu ídeólógísku stjórnkerfislegu naflaskoðun í áraraðir. Sú viðleitni undanfarinna áratuga, að takmarka umsvif ríkisins á sem flestum sviðum og leyfa frjálsum markaðsöflum að finna bestu og hagkvæmustu lausnirnar, virðist í miklu uppnámi. Ekki síst á Íslandi. Er svo komið að markaðssinnaðir einstaklingar þurfi að viðurkenna að ef til vill sé – eins mótsagnakennt og það kann að hljóma – markaður fyrir Ríkið?

„Don’t worry dear. We’re like British Rail you see. We may be late, but we’ll get you there“ segir flugfreyja Windsor Airlines við eldri dömu þegar flugvélin er látin hringsóla yfir Dulles flugvellinum í Washingtong DC í bíómyndinni Die Hard 2. Þessi litla setning úr ekki merkilegri bíómynd segir kannski allt sem segja þarf. Stirða opinbera kerfið er kannski óskilvirkt og svifaseint, en kemur okkur nokkuð örugglega á áfangastað. Kaldhæðnin er reyndar sú að flugfreyjan sem mælir þessi ágætlega fleygu orð ferst í lendingu með öllum innanborðs, sem sýnir e.t.v. svart á hvítu að jafnvel British Rail kemur okkur ekki alltaf alveg örugglega á áfangastað.

En hvað sem því líður felst í þessari ágætlega fleygu setningu það sem margir hugsa í dag. Með bankakerfi í köldum kolum, skuldsettu atvinnulífi og brostnum vonum á mörgum sviðum er ekki nema von að almenningur vilji sjá pilsfald Ríkisins út breiddan á sem flestum sviðum. Óskilvirkt? Já. Svifaseint? Já. En sem virkar (nokkurn veginn) og kemur okkur á áfangastað á endanum. Og eftir mikla rússíbanareið síðustu missera er ekki að undra að fólk skuli gjarnan vilja stíga út úr vögnunum og staulast hálfvankað og ringlað inn í bílana sína sem það ræsir ofurvarlega, stynur lítillega, lagfærir hárgreiðsluna og keyrir ofurvarlega af stað út í umferðina. Engan æsing aftur. Ekki alveg strax a.m.k.

Eins og öll vestræn hagkerfi færðist íslenska hagkerfið statt og stöðugt í áttina að frjálsu markaðshagkerfi á síðustu árum og áratugum. Og flestir virtust ánægðir með þá þróun. Aukin umsvif einkageirans skiluðu þjóðinni auknum tekjum og kaupmætti, rétt eins og hagfræðivísindin spáðu um. Allir högnuðust, þó sumir meira að aðrir að sjálfsögðu, en þó ekki meira en svo að jöfnuður var meiri í íslensku þjóðfélagi en almennt gerðist í slíkum hagkerfum. Allir frekar sáttir. En síðan fór eitthvað úrskeiðis.

Frjáls markaðshagkerfi eru vandmeðfarin fyrirbæri. Frelsið sem í þeim felst setur meiri fjárhagslega ábyrgð á herðar einstaklinganna og fyrirtækja en önnur þjóðfélagskerfi. Og þegar umheimurinn fór að dæla ódýru fjármagni inn í fjárhagslega óábyrgt markaðskerfi var kannski ekki von á góðu. Ekki síst þegar stórar mikilvægar fjármálastofnanur voru einkavæddar á sama tíma og það á sér stað. Í dag er ljóst að íslenskir bankar, fyrirtæki og fjöldamargir einstaklingar hafa fallið á prófinu. Prófinu sem sker úr um fjárhagslega ábyrgð og skynsemi. Íslenska ríkið er rödd þjóðarinnar, og hún hlaut því að falla á þessu sama prófi á einn eða annan hátt.

Það er hægt að taka undir með sjónarmiðum frjálshyggjumanna sem benda bæði á þetta, sem og þá slæmu neikvæðu hvata sem bankarnir höfðu með ríkisábyrgð á innlánsreikningum auk yfirráða ríkisisins á fjármálakerfinu, peningaútgáfu og reglugerðum þar að lútandi. Frjáls markaðskerfi verða í raun aldrei fyllilega frjáls fyrr en búið er að aðskilja ríki og efnahag. En í núverandi umhverfi eru frjálshyggjumenn, í augum annarra, eins og forfallnir rússíbanafarþegar sem geta ekki hætt og vilja ekki hætta, sama hversu hátt ælan er komin í kokið á meðreinarsveinum þeirra. Þótt finna megi annmarka og ástæður efnahagslegra kreppna í ríkisumsjón peningamála er engan veginn raunhæft að ætla að hin litla íslenska eyjaþjóð norður í Ballarhafi fari að stíga fyrstu skrefin í þá átt, fyrst vestrænna þjóða, með þeirri áhættu og óvissu sem því fylgir, burtséð frá því hvort finna megi teoretískar leiðir.

Þvert á móti er líklega runninn upp tími þar sem eftirspurnin meðal þjóðarinnar er stöðugleiki, öryggi og ábyrgð. Og það er ekki ólíklegt að flestir sjái Ríkið þar í hyllingum, í öllum sínum dýrðarljóma. Geysiöflug markaðsvara með sterkara brand en nokkur frjálshyggjusjoppa getur nokkurn tímann kokkað upp. Það eru nefnilega fáir hlutir með jafn sterkt brand og Ríkið, nema e.t.v. Jesú og Guð. Enda hvoru tveggja vara sem uppfyllir eftirspurn eftir sáluhjálp og öryggistilfinningu meðal þorra fólks. Nú er runnin upp stund Ríkisins í öllu þess veldi.

Tíminn einn mun skera úr um það hve lengi ást fólksins á Ríkinu mun vara. Hugsanlega nógu lengi til þess að við Íslendingar eignumst okkar fyrsta „Skatteskrapan“ eða Skattaháhýsið, eins og það sem frændur vorir Svíar byggðu af stórhug í miðborg Stokkhólms á hátindi sænskrar skattpíningar (og varð, eðlilega, hið eina þar í borg í fjöldamörg ár). Í því samhengi má benda á nýbyggt autt skrifstofuháhýsi við Borgartúnið í Reykjavík sem bíður eftir hlutverki.

En á endanum eru líkur til þess að fólki fari að leiðast að dóla um í doða skattpíningar og með hinn kalda hramm Ríkisins yfir lífi sínu og örlögum. Það mun á ný horfa með glýju til rússíbanans. Kannski ekki þess stóra, sem fékk það til að æla, heldur þess minni og aðeins vægari. Og þá vill það kannski fara aftur og aftur.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.