40 dagar til kosninga

Prófkjörsúrslit benda til að um helmingur þingmanna komi nýjir inn í næstu kosningum sem er metfjöldi. Þrátt fyrir litla endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík felst ákveðin endurnýjun hjá flokknum í því að framvarðasveitin dregur sig í hlé meðan þingmenn halda velli. En burtséð frá endurnýjun þá er helsta hlutverk allra flokka nú að kynna fyrir kjósendum skýrar leiðir til uppbyggingar.

Að aflokinni mikilli prófkjörshelgi eru línur farnar að skýrast um hvaða þingmannakostur verður í boði í komandi kosningum 25. apríl. Allt útlit er fyrir að endurnýjun á þingi nái áður óþekktum hæðum þegar allt að helmingur þingmanna kemur nýr inn. Hæst hefur hlutfall nýrra þingmanna verið 39,7 prósent í kosningunum árið 1991. Þetta á þó ekki að koma á óvart miðað við þá háværu kröfu sem verið hefur undanfarið um breytingar. Íslenska þjóðin er brennd eftir efnahagshrunið og traust á stjórnmálamönnum í sögulegri lægð.

Endurnýjun hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík eru ákveðin vonbrigði þar sem fjöldi frambærilegra nýrra frambjóðenda gaf kost á sér en enduðu á að raða sér í neðstu sætin. Efst þessara nýju frambjóðenda urðu Deiglupennarnir Erla Ósk Ásgeirsdóttir og Þórlindur Kjartansson í 8. og 9. sæti. Óskandi hefði verið að endurnýjunin hefði náð ofar á listann en þó verður um ákveðna endurnýjun að ræða þar sem þrír af þeim efstu fjórum mönnum sem skipuðu listann í Reykjavík 2007 hafa dregið sig í hlé. Ennfremur má nefna að nýjir oddvitar verða á listum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi. Deiglupenninn Unnur Brá Konráðsdóttir bauð sig fram í Suðurkjördæmi og hlaut þriðja sætið sem er frábær árangur og á hún eftir að sýna það í störfum sínum sem þingmaður að það var farsælt val hjá kjósendum í Suðurkjördæmi.

Í dag eru 40 dagar til kosninga. Á þessum stutta tíma þurfa flokkarnir að kynna kjósendum skýra kosti. Hvað þeir ætli að gera til að leiða þjóðina í gegnum þrengingar sem efnahagshrunið hefur orskakað og hvernig þeir ætli að byggja upp á ný. Burtséð frá því hvort listar verði skipaðir nýju fólki eða sitjandi þingmönnum þá snýst allt um hvernig unnið verður héðan í frá. Meðal þess sem kjósendur eiga kröfu á að liggi fyrir áður en gengið er að kjörborðinu er hvernig unnið verður gegn atvinnuleysi, hvernig brugðist verði við lækkun fasteignaverðs, hvað verði gert í gjaldeyrismálum, hvernig kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði mætt og hvernig gert verður upp við hrunið. Allt þetta og meira til þurfa kjósendur að vita til að geta greitt þeim flokki atkvæði sem sýnt þykir að vinni best að þeirra hagsmunum.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.