Skapar ríkið störf?

Eftir mikið áfall hefur umræðan á Íslandi tekið að stefna í átt að því hvernig verði staðið að endurreisn landsins. Eitt stærsta vandamálið sem við horfumst í augu við er atvinnuleysi og stjórnmálamenn í kosningabaráttu berjast við að lýsa því yfir hversu mörg störf þeir ætla að skapa. En skapar ríkið í alvörunni störf?

Eftir mikið áfall hefur umræðan á Íslandi tekið að stefna í átt að því hvernig verði staðið að endurreisn landsins. Eitt stærsta vandamálið sem við horfumst í augu við er atvinnuleysi og stjórnmálamenn í kosningabaráttu berjast við að lýsa því yfir hversu mörg störf þeir ætla að skapa. En skapar ríkið í alvörunni störf?

Íslenska orðið hagkerfi er skemmtilega lýsandi þar sem það fjallar um kerfi sem hefur áhrif á hag og velsæld allra innan kerfisins. Kerfi er samansafn eininga sem hafa áhrif hver á aðra og eiga samskipti eftir ákveðnum reglum. Þannig getur líkaminn talist vera kerfi og knattspyrnulið getur talist vera kerfi.

Með gríðarlega mikilli einföldun má því skipta íslenska hagkerfinu niður í þrjár einingar: útflytjendur, þjónustuveitendur og opinbera þjónustuveitendur. Útflytjendur eru þeir sem afla gjaldeyris fyrir kerfið sem er eins og súrefni fyrir líkama. Frá útflytjendum fer gjaldeyrinn í að greiða opinbera þjónustu (í gegnum skatta) og svo kaupir hann sér þjónustu innanlands (sem greiðir einnig skatta) og skapast þannig hringrás innan kerfisins á milli þessara þriggja aðila.

Lykilatriðið er að kerfið hefur einungis eina góða leið til þess að fá nýtt súrefni, það er í gegnum útflutning. Hin leiðin er í gegnum lán, sem þarf alltaf að skila aftur.

Að halda því fram að það sé hægt að endurreisa Ísland með því að efla opinbera þjónustu og veikja útflutning og þjónustu er ekki raunhæft. Ef það kemur ekkert súrefni inn í kerfið þá er enginn gjaldeyrir til þess að skattleggja. Þetta þarf að vera á hreinu.

Mikilvægustu atriði til endurreisnar Íslands eru þau að lækka vexti eins skjótt og auðið er. Það verður að krefjast þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn útskýri af hverju hann vilji að vextir séu hærri en uppsöfnuð verðbólga undanfarinna 12 mánaða. Verðbólgan hefur þegar átt sér stað og verðbólguþrýstingur er enginn en vextirnir greiðast mánaðarlega.

Í öðru lagi þarf að koma starfsemi bankanna af stað. Í dag fær atvinnulífið enga fyrirgreiðslu þar sem pólitísk óvissa er alger. Þetta þarf alþingi að koma sér saman um að afgreiða sem fyrst.

Menn mega ekki gleyma því að í stórum heimi þá þarf ekki mjög mörg verkefni og tækifæri til þess að það geti verið full atvinna á litla Íslandi. Atvinnulífið þarf hinsvegar að fá tækifæri til þess að skapa störf. Það fæst ekki með núverandi vaxtaálagi og bankastofnunum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.