Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil

Það er að mörgu að huga í þeirri endurreisn og uppbyggingu sem framundan er í íslensku samfélagi. Við þurfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar en ábyrgð stjórnmálamanna er þó langmest.

Það er að mörgu að huga í þeirri endurreisn og uppbyggingu sem framundan er í íslensku samfélagi. Við þurfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálarnar en ábyrgð stjórnmálamanna er þó langmest.

Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að koma hér á pólitískum stöðugleika. Pólitískur stöðugleiki er forsenda þess að vel takist til með áætlun alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hægt verði að lækka vexti sem fyrst og hér komist á efnahagslegur stöðugleiki. Þetta markmið verður að nást eigi síðar en á komandi sumri. Pólitískur stöðugleiki þýðir ekki að allir stjórnmálamenn eigi að vera sammála um alla skapaða hluti – heldur að ríkisstjórnin á hverjum tíma hafi traust þjóðarinnar á bakvið sig og að á Alþingi ríki gagnkvæmt traust og virðing milli þingmanna og stjórnmálaflokka. Menn verði sammála um að vera ósammála um þau atriði sem skilja flokkana að, en vinni að heilindum saman að þeim verkefnum sem brýnust eru.

Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að upplýsa almenning á mannamáli um stöðu mála og hvers er að vænta á næstu árum. Án slíkra upplýsinga geta fjölskyldur og fyrirtæki ekki gert raunhæfar áætlanir um framtíðina. Án áætlana, vonar og framtíðarsýnar verður lítil framþróun á næstu misserum. Hér þýðir ekkert skrúðmælgi um að það verði engin þjónustuskerðing hjá ríkinu. Ef fjárlög eiga að vera hallalaus á næsta á ári þá mun það þýða þjónustskerðingu. Almenningur á heimtingu á að vita í hverju slík þjónustuskerðing mun felast. Það þurfa allir stjórnmálaflokkar að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað þetta varðar fyrir komandi kosningar.

Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að endurvekja traust almennings á lýðræðinu og stofnunum þess. Allar grunnstoðir lýðræðisins, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, verða að vera jafnsterkar, geta veitt hver annarri aðhald og sýna hver annarri fullnægjandi virðingu. Á þetta hefur skort. Það þarf að styrkja löggjafarvaldið auk þess sem hlutleysi dómsvaldsins þarf að vera tryggt sérstaklega með tilliti til skipunar dómara. Hægt er að ná báðum þessum markmiðum án þess að gera veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Þetta er hins vegar það mikilvægt mál að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi verða að koma þeirri vinnu. Verði það niðurstaða slíkrar skoðunar að fara í breytingar á grundvallarskipun íslenska lýðveldisins þarf til þess tíma og ráðrúm. Við þessa vinnu er nauðsynlegt að allir stjórnmálaflokkar hafi í huga mikilvægi þess að sátt ríki um leikreglurnar hvort sem að flokkarnir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð sem það ríki sem er hvað best að búa í og að Íslendingar verði áfram meðal hamingjusömustu þjóða í heimi. Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.