Í engum stígvélum – en ég stend alltaf upp!

Ísland rann á rassinn síðasta haust, og við höfum staðið í erfiðri (en nauðsynlegri) naflaskoðun síðan. Nú hækkar sól, vorið kemur og Íslendingar fá brátt tækifæri til að velja sér nýja ríkisstjórn. Nú þurfum við að snúa bökum saman og byggja upp nýtt atvinnulíf.

Ísland rann á rassinn síðasta haust, og við höfum staðið í erfiðri (en nauðsynlegri) naflaskoðun síðan. Það er ljóst að við spiluðum rassinn úr buxunum, vorum gripin undan landhelgi, og létum draga okkur á asnaeyrunum. Bömmer.

En nú hækkar sól, við erum búin að þreyja þorrann, og bráðum kemur vorið. Það er ákall á endurnýjun í öllum stjórnmálaflokkum og vonandi verða sem flestir við því kalli. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins verður nú um helgina, þar sem flokksmenn fá tækifæri til að tjá hug sinn í spennandi kosningum. Þar ættu kjósendur að leggja áherslu á að styðja þá frambjóðendur sem vilja horfa fram á við, í stað þess að líta til baka.

Það sama á við í kosningabaráttunni sem fer í hönd. Íslendingar fá tækifæri til að velja sér nýja ríkisstjórn, og nýtt fólk sem getur hjálpað til við að draga Ísland á fætur. Nú þurfum við að snúa bökum saman og byggja upp nýtt atvinnulíf.

Íslendingar horfast í augu við nýja tíma, og breytt þjóðfélag. En það er gott þjóðfélag, og því má ekki gleyma. Út um allan heim berjast fyrirtæki og launþegar við niðursveifluna, flestir í samfélögum sem standa mun verr við bakið á þeim sem hrasa heldur en Ísland gerir.

En stjórnmálamennirnir geta þetta ekki einir. Það eru Íslendingar sjálfir sem munu rífa sig upp úr lægðinni – það gerir það enginn fyrir okkur. Við gerum það ekki með álverum og skuldsettum yfirtökum, heldur með litlu hlutunum – með dugnaði og með nýsköpum. Tilboð á fiski, endursmíði á notuðum tölvum, húfur sem hlæja, fatamarkaður HR-inga í Morgunblaðshúsinu, að ganga til góðs, henda tyggjóbréfinu í ruslið, og brosa framan í náungann niðri í miðbæ. Og síðast en ekki síst, að bíta á jaxlinn, standa upp og halda áfram. Eins og Jónsi syngur í Sigurrósarlaginu Hoppípolla:

Hoppípolla – Í engum stígvélum
Allur rennvotur (Rennblautur) – Í engum stígvélum

Og ég fæ blóðnasir
En ég stend alltaf upp …

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)