Veljum besta fólkið í Suðurkjördæmi

Prófkjör sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fer fram á laugardaginn, þann 14. mars. Það skiptir miklu máli að þar veljist kraftmikið hugsjónafólk sem hefur kjark til að takast á við þau vandamál sem við okkur blasa. Þess vegna hvet ég sunnlendinga til að kjósa Unni Brá Konráðsdóttur í 2. sæti listans.

Prófkjör sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fer fram á laugardaginn, þann 14. mars. Það skiptir miklu máli að þar veljist kraftmikið hugsjónafólk sem hefur kjark til að takast á við þau vandamál sem við okkur blasa. Slíkt fólk er ekki á hverju strái og þess vegna hvet ég sunnlendinga til að kjósa Unni Brá Konráðsdóttur í 2. sæti listans. Unnur Brá er lögfræðingur og sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, en hún leiddi lista Sjálfstæðisflokksins til sigurs þar í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Ég kynntist Unni Brá fyrir um 10 árum síðan þegar við störfuðum bæði fyrir Vöku, félag lýðræðissinnaðra stúdenta í Háskóla Íslands. Hún var m.a. oddviti félagsins í Stúdentaráði, enda gjarnan valin í forystustörf hvar sem hún kemur. Unnur er málefnaleg og staðföst og á gott með að vinna sínum málum brautargengi, jafnvel þegar á brattann er að sækja. Hún hefur þrautseigjuna og dugnaðinn í þau verkefni sem framundan eru á Alþingi.

Unnur Brá hefur sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi í framboði sínu. Hún trúir staðfastlega á að að hið opinbera eigi að veita hverjum og einum tækifæri til að leggja sitt af mörkum og njóta afrakstursins, það sé besta leiðin til að auka verðmætasköpun og fjölga störfum. Að í samfélaginu ríki umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsháttum enda fari saman frelsi fólks til athafna og ábyrgð á eigin gerðum.

Unnur Brá er glæsilegur stjórnmálamaður og á ekki einungis fullt erindi á þing, heldur yrði það mikill missir fyrir okkur íbúa í Suðurkjördæmi ef hún næði ekki kjöri.

Krafa fólks, sjálfstæðismanna sem annarra er að besta fólkið verði valið til forystu. Unnur Brá Konráðsdóttir er án nokkurs vafa í þeim hópi.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)