Ljós í myrkrinu

Á hverju ári fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Alla jafna eru það tvær fylkingar sem takast þar á, Vaka og Röskva. Það er engin tilviljun að í nýafstöðnum kosningum fyrr í þessum mánuði hafi Vöku verið falið á nýjan leik umboð til að stýra starfi Stúdentaráðs.

Á hverju ári fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Alla jafna eru það tvær fylkingar sem takast þar á, Vaka og Röskva. Þegar litið er yfir atkvæðatölur úr kosningum á þessari öld má sjá yfirburði Vöku. Það er því engin tilviljun að í nýafstöðnum kosningum fyrr í þessum mánuði hafi Vöku verið falið á nýjan leik umboð til að stýra starfi Stúdentaráðs.

Mestallan 10. áratug síðustu aldar stýrði Röskva starfi Stúdentaráðs og mátti Vaka þola marga ósigra. Síðan frá aldamótum hefur hins vegar fylgi Vöku farið stigvaxandi sem varð til þess að félaginu tókst að knýja fram langþráðan sigur árið 2002, sem náðist með aðeins fjórum atkvæðum. Margir töldu þetta einskæra heppni og andstæðingar Vöku töluðu um þetta sem hreina tilviljun. Sigurinn var þó Vöku og fékk félagið eitt ár í Stúdentaráði til að sanna sig. Það var svo sannarlega gert því í kosningunum 2003 bar félagið sigur úr býtum með yfir 500 atkvæða forskoti á Röskvu. Meirihlutinn hélst svo einnig árið 2004. Árið 2005 gerðist það svo að þriðja framboðið, Háskólalistinn, náði að koma inn manni svo upp kom oddastaða í Stúdentaráði þar sem engin fylking fékk hreinan meirihluta. Úr varð að fulltrúi Háskólalistann varð formaður Stúdentaráðs en það starfsár var mikil lágdeyða yfir öllu starfi ráðsins. Upp frá því varð það mikið kappsmál Vöku að koma í veg fyrir slíka lágdeyðu aftur og markið var sett á að ná aftur meirihlutanum til að tryggja stúdentum við Háskóla Íslands öfluga og trausta hagsmunabaráttu.

Vaka var hársbreidd frá því að ná þessu markmiði sínu árið 2006, en aðeins vantaði fjögur atkvæði upp á að Vaka næði inn fimmta manninum og þannig hreinum meirihluta. Vaka hafði samt algjöra yfirburðastöðu með 49,38% prósent atkvæða, samanborið við Röskvu sem hafði 39,59%. Úrslitin stóðu samt sem áður og annað árið í röð kom upp oddastaða. Til að koma í veg fyrir algjört aðgerðarleysi mynduðu Vaka og Röskva með sér meirihluta þar sem formaður Stúdentaráðs kom úr herbúðum Vöku. Segja má að Röskva hafi vægast sagt grætt mikið á framtakssemi samstarfsmanna sinna úr Vöku þar sem fylkingin bætti við sig verulegu fylgi í kosningum 2007. Röskva sigldi þá fram úr Vöku, þó ekki nema rétt svo því tuttugu atkvæði skildu fylkingarnar að. Háskólalistinn kom ekki manni inn en Röskva náði hreinum meirihluta í staðinn.

Röskva hafði því náð að knýja fram sigur með örfáum atkvæðum líkt og Vaka 2002. Þeim gafst því á sama hátt eitt ár til að sanna sig og vinna sannfærandi og afgerandi sigur árið eftir. Ef einhver hélt á þeim tímapunkti að runnin væri upp ný gullöld Röskvu, skjátlaðist honum. Árið 2008 marði Röskva sigur með aðeins sex atkvæðum en aðeins tvær fylkingar voru í framboði það árið og fimmti maður Röskvu rétt slapp inn með þeim sex atkvæðum sem skildu fylkingarnar að. Óhætt er að fullyrða að sá sigur hafi verið afar ósannfærandi og í raun heppni. En eins og áður stóðu úrslitin: Röskva stýrði Stúdentaráði og fékk annað ár til að sanna sig. Ekki tókst það betur en svo að í kosningunum sem fram fóru fyrr í þessum mánuði vann Vaka yfirburðarsigur með 202 atkvæða forskoti á Röskvu. Það er því augljós vilji þeirra sem kusu að Vaka stýri starfi Stúdentaráðs.

Þeir sem þekkja til Vöku og þeirra sem þar starfa vita að hugmyndafræði félagsins er til þess fallin að skila árangri. Vaka hefur að leiðarljósi framkvæmdagleði og frumkvæði, hugsar í lausnum og nýtir kraft stúdenta. Félagið telur jafnframt að krafti og tíma þeirra sem starfa í þágu stúdenta sé best varið í þau málefni sem varða stúdenta beint en ekki í pólitísk þrætuepli, enda er af nógu að taka í málefnum Háskólans, hvort sem litið er inn á við eða út á við. Slíkt er nauðsynlegt nú þegar miklar þrengingar steðja að íslensku þjóðinni, og þar með talið að Háskóla Íslands. Skólinn mun þurfa að hagræða í rekstri sínum og takast á við skert fjárframlög. Á sama tíma hefur nemendum við skólann fjölgað gríðarlega, ekki aðeins vegna þess að Kennaraháskóli Íslands hefur sameinast HÍ, heldur einnig vegna þess að fólk sem misst hefur vinnuna flykkist nú í nám.

Því mætti halda fram að það sé ekkert sérlega öfundsvert hlutskipti að stjórna hagsmunabaráttu á slíkum tímum. Það er því ljós í myrkrinu að Vöku hafi verið falin stjórn hagsmunabaráttunnar. Mikið mun reyna á Vökufólk að standa undir þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin og er það einlæg trú höfundar að fylkingin muni ekki bregðast því trausti sem henni hefur verið sýnt.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.