Hvað kosta tillögur Framsóknarmanna?

Framsóknarmenn eru aftur að reyna að slá sig til riddara með glæfralegum tillögum í húsnæðismálum. Tillögur þeirra fyrir kosningarnar 2003 áttu stóran þátt í því að búa til núverandi húsnæðisvanda. Nú vilja þeir einfaldlega færa húsnæðislán niður hlutfallslega alveg án tillits til greiðslugetu hvers og eins. Tillögur þeirra munu kosta skattgreiðendur mikið fé. Þeir sem vilja hærri skatta ættu að kjósa Framsókn.

Fyrir nokkrum dögum kynntu Framsóknarmenn tillögur sínar í efnahagsmálum. Ein tillaga þeirra er hlutfallsleg niðurfelling húsnæðislána um 20%. Það er athyglisvert að Framsóknarmenn reyni enn á ný að slá sig til riddara með glæfralegum tillögum í húsnæðismálum. Fyrir kosningarnar 2003 lofuðu þeir að hækka lánshlutfall á húsnæðislánum úr 70% í 90% og hækka hámarkslán verulega. Þetta kosningaloforð efndu þeir eftir kosningar og markaði það upphafið af gríðarlegri hækkun húsnæðisverðs. Húsnæðisvandinn í dag á að miklu leyti rætur sínar að rekja til þessa kosningaloforðs Framsóknarmanna og stefnu þeirra varðandi Íbúðalánasjóð eftir að bankarnir tóku að veita húsnæðislán.

Nú þegar allt er komið í óefni eru þeir aftur með patentlausn á fylgisleysi flokksins: niðurfelling skulda. Maður ljáir þeim ekki að þeir skuli reyna þetta aftur. Þessi taktík virkaði mjög vel fyrir þá árið 2003. En vonandi hafa kjósendur lært eitthvað í millitíðinni.

Framsóknarmenn halda því fram að skuldaniðurfellingin muni ekki kosta skattgreiðendur neitt. Þeir vísa í það að lánasafn nýju bankanna hafi verið fært úr gömlu bönkunum með um 50% afslætti. Af þessum sökum telja þeir að svigrúm sé til staðar til þess að fella niður húsnæðislán um 20%. En þessi 50% afsláttur var veittur til þess að mæta fyrirséðu útlánatapi á lánasafninu sem fært var yfir í nýju bankana. Og þótt afslátturinn hafi verið 50% að meðaltali þýðir það ekki að gert sé ráð fyrir því að afföll af hverju og einu láni verði 50%. Afföll af fyrirtækjalánum og lánum til eignarhaldsfélaga verða líklega mun meiri. Ef stórum hluta af „afslættinum“ er eytt í að niðurgreiða húsnæðislán verður ekki nóg eftir til þess að mæta tapi á fyrirtækjalánum og það tap mun þá lenda á ríkisbönkunum og þar með ríkissjóði og þar með skattgreiðendum.

En það sem meira er, Framsóknarmenn ætla að nota „afsláttinn“ til þess að niðurgreiða lán sem ekki tilheyra lánasafninu sem afslátturinn var veittur vegna. Þeir ætla að fella niður 20% af húsnæðislánum inni í Íbúðalánasjóði. Þar er klárlega verið að nota krónur sem áttu að mæta tapi á einum stað til þess að niðurgreiða lán annars staðar. Og þá er ekki hægt að nota þessar sömu krónur til þess að mæta tapinu sem þær áttu að mæta. Það tap mun því lenda á skattgreiðendum.

Framsóknarmenn tala um jafnræðissjónarmið. En er túlkun þeirra á jafnræði sú eina rétta? Önnur túlkun á jafnræði er að allir sem eru jafn illa settir fái sömu meðferð. Með öðrum orðum að settar verði almennar reglur. Þessi túlkun felur ekki í sér að skuldaniðurfellingin verði hlutfallslega og alveg án tillits til greiðslugetu. Að allir fari í nýtt greiðslumat og fái skuldir sínar færðar niður í það greiðslumat samrýmist slíkri jafnræðistúlkun. Sú leið hefur einnig þann kost að ekki er verið að veita fólki styrki úr ríkissjóði sem ekki þurfa á þeim að halda.

Það er afskaplega bagalegt í aðdraganda kosninga að Þjóðhagsstofunun hafi verið lögð niður. Það vantar tilfinnanlega stofnun sem getur reiknað út væntan kostnað ríkisins af tillögum hvers stjórnmálaflokks fyrir sig og áhrif þeirra á mismunandi tekjuhópa. Eins og staðan er í dag byggist öll umræða á heimatilbúnum útreikningum hinna og þessa og því er allt of auðvelt að komast upp með villandi málflutning.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.