Endalok kvikmyndaskoðunnar II

Deiglan fjallar um frumvarp menntamálaráðherra þar sem lagt er til að Kvikmyndaskoðun Ríkisins verði lögð niður og þær jákvæðu breytingar sem það mun hafa í för með sér.

Síðastliðið sumar birtist pistill eftir undirritaðan undir nafninu „Endalok kvikmyndaskoðunnar“ þar sem fjallað var Kvikmyndaskoðun ríkisins. Tilefni greinarinnar var hin umdeilda, klám- og hrottafengna franska mynd Baise-moi en Kvikmyndaeftirlitið vakti athygli á eigin tilgangsleysi með því að samþykkja sýningu á þeirri mynd.

Nú liggur fyrir frumvarp menntamálaráðherra, þskj. 1049-650 mál, þar sem lagt er til að Kvikmyndaskoðun Ríkisins verði lögð niður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hagsmunaðilar sjái um að merkja kvikmyndir í stað kvikmyndaskoðunar en hins vegar verði það refsivert að sýna börnum ofbeldiskvikmyndir.

Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að verði frumvarpið að lögum feli það m.a. í sér að:

1. Opinber ritskoðun er afnumin.

2. Engar kvikmyndir eru fyrir fram bannaðar.

3. Fullorðið fólk má horfa á þær kvikmyndir sem það sjálft kýs.

Það er gífurlegt gleðiefni að heyra þetta frá löggjafanum. Hann ætlar að afnema opinbera ritskoðun, ekki að banna hluti fyrirfram og fullorðnu fólki er treyst til að ráða sér sjálft. Svona kveðjum hefur maður ekki vanist frá Alþingi. Ekki nóg með það heldur ætlar löggjafinn einnig að minnka umfang framkvæmdarvaldsins sem er fáheyrt.

Það verður bara að viðurkennast að á heildina litið er þetta eitt glæsilegasta frumvarp til laga sem undirritaður hefur séð í háa Herrans tíð. Hið opinbera bákn er minnkað, dregið er úr forræðishyggju, almenningi er gefið aukið frelsi í eigin málum og grundvallarmannréttindi einstaklingsins í lýðræðisþjóðfélagi eru virt. Maður getur ekki farið fram á mikið meira í einu frumvarpi. Það er því góð ástæða til þess að óska menntamálaráðherra til hamingju með þetta frumvarp og raunar þjóðinni allri. Vonandi er meira slíkt væntanlegt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.