Geðveikin heldur áfram í Ísrael – Sharon kominn langt yfir strikið

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísreals, byrjaði föstudaginn langa á því tilkynna þjóð sinni að nú væri samstaða mikilvægari en nokkru sinni fyrr og að ísraelska ríkisstjórnin hefði ákveðið að ráðast inn í höfuðstöðvar palestínsku heimastjórnarinnar í Ramallah, enda væri Arafat óvinur sem þyrfti að einangra.

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísreals, byrjaði föstudaginn langa á því tilkynna þjóð sinni að nú væri samstaða mikilvægari en nokkru sinni fyrr og að ísraelska ríkisstjórnin hefði ákveðið að ráðast inn í höfuðstöðvar palestínsku heimastjórnarinnar í Ramallah, enda væri Arafat óvinur sem þyrfti að einangra.

Aðgerðir Ísraelshers í dag eru hefndaraðgerðir vegna ítrekaðra sjálfsmorðsárása á ísraelska borgara. Sharon heldur því fram að Ísraelsmenn hafi haldið útréttri sáttahönd að palestínumönnum en ekkert uppskorið annað en hryðjuverk í staðinn og að Arafat sé ótrúverðugur þegar hann haldi því fram að hann vilji frið. Benjamin Netanyahu, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, sagði á CNN fyrr í dag að Arafat héldi einu fram fyrir framan vestrænar sjónvarpsvélar og allt öðru gagnvart sínu eigin fólki. “Markmið Arafats er ekki stofnun palestínsks ríkis við hlið ísraelsks. Markmið hans er gjöreyðing Ísraels,” sagði Netanyahu.

Talsmenn Palestínumanna, og aðrir, hafa lengi bent á þann furðulega tvískinnung sem er gegnumgangandi í málflutningi Ísraelsmanna. Annars vegar hefur Sharon ítrekað haldið því fram að áhrif Arafat séu hverfandi – að hann skipti ekki máli – og hins vegar heimta þeir að hann stöðvi hryðjuverkaárásir hinna ýmsu samtaka. Þessar kröfur eru settar fram á sama tíma og innviðir heimastjórnarinnar eru eyðilagðar á skipulegan hátt. Talsmaður Arafat greip til þeirrar samlíkingar á CNN í dag að það væri líkt og Ísraelsmenn hentu Arafat fjötruðum út í sjó og heimtuðu að hann synti – en refsuðu honum ella.

Í vikunni var haldinn fundur Arabaríkja í Beirút. Til stóð að Arafat mætti til leiks en honum var ráðið frá því á þeim forsendum að líklega fengi hann ekki að snúa aftur til Ísreals. Hvort þessar áhyggjur hafi verið á rökum reistar er engin leið að vita en miðað við annað sem komið hefur frá stjórn Ariel Sharon þá er ekki ólíklegt að slík brögð hafi verið í tafli en skilyrðin sem Sharon setti fyrir því að Arafat fengi leyfi til fararinnar voru þau að hann gæfi út, á arabísku, yfirlýsingu um vopnahlé og jafnframt áskildi Sharon sér rétt til að meina honum endurkomu ef slíkt vopnahlé yrði rofið á meðan á ferðinni stæði.

Á fundinum í Beirút var friðaráætlun Saudi – Araba samþykkt. Í henni felst að Arabaríkin viðurkenni tilvist Ísraels gegn því að Ísraelar skili aftur landsvæðum sem þeir hafa unnið í stríðum frá 1967 og að sjálfstætt palestínskt ríki yrði stofnsett. Reyndar hefur óvíða verið vakin athygli á því að samhliða þessari yfirlýsingu fylgdi áskorun til Palestínumanna um að halda áfram að berjast gegn Ísraelum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ljóst að aðkoma Ariel Sharon að stjórn Ísraels hefur haft í för með sér mikla afturför í samskiptum ríkja á þessum slóðum. Sharon hefur ekkert upp á bjóða til lausn mála annað en gegndarlaust ofbeldi og hörkulega orðræðu. Í dag lýsti Sharon því yfir að Arafat væri “óvinur Ísraels” og skriðdrekar og hermenn ríkisins ráðast nú inn í vistarverur Arafat með tilheyrandi sprengingum og byssuskotum.

Öfgarnir í Sharon bjóða ekki upp á annað en að Arafat herðist í afstöðu sinni gegn Ísrael. Talsmenn Arafat fullyrða að markmið Sharon sé að drepa Arafat og fyrr í dag lýsti Arafat því yfir í sjónvarpsviðtali að hann óskaði þess að verða píslarvottur. Það skyldi þó ekki gerast í dag – á föstudaginn langa – að Palestínumenn og Arabar eignist píslarvott í baráttunni við Ísraelsmenn.

Sharon er misheppnaður misyndismaður. Skaðinn sem hann hefur valdið nú þegar gæti orsakað þjáningar um margra áratuga skeið. Því fyrr sem þeim manni verður steypt úr embætti, þeim mun betra. Vonandi það verði ekki of seint.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)