Að fá réttlæti fullnægt

Þeir sem eitt seinn gengu undir nöfnum á borð við útrásarvíkingar og hetjur ganga nú undir nöfnum eins og fjárglæframenn og óreiðumenn. Reiði og gremja hefur aukist í garð þeirra og þeim er kennt um það sem miður fór, en til hvers ætlast fólk af þeim?

Á stuttum tíma hefur það gerst að þeir sem eitt seinn gengu undir nöfnum á borð við útrásarvíkingar og hetjur ganga nú undir nöfnum eins og fjárglæframenn og óreiðumenn.

Reiði í garð þessara manna hefur magnast upp undanfarnar vikur og mánuði. Einhverjum finnst sem svo að kenna megi þessum mönnum um þá stöðu sem Ísland stendur nú frammi fyrir. En til hvers ætlumst við af þeim? Hvenær er réttlætinu fullnægt og eftir hvaða réttlæti er verið að sækjast?

Höfundur getur fyllilega tekið undir gagnrýni á þessa menn sem hafa með glæfralegri starfsemi sinni átt sinn þátt í að koma þjóðfélaginu á annan endann. Oft er kallað eftir að ábyrgð þeirra, en í hverju felst slík ábyrgð? Þeir bera ekki pólitíska ábyrgð enda ekki kjörnir fulltrúar. Rannsaka þarf frekar hvort þeir hafi gerst brotlegir við lög og eru þeir saklausir þangað til sekt er sönnuð. Er þetta kannski fyrst og fremst siðferðisleg ábyrgð sem þeir bera gagnvart okkur hinum? Erfitt er að henda reiður á hvað þeir þurfa að gera til að öðlast fyrirgefningu okkar hinna.

Líður okkur ef til vill betur þegar við heyrum fréttir af því að Bjarni Ármanns hafi setið einn út í horni á balli eða ef Jón Ásgeir myndi neyðast til að byrja að vinna á lyftara. Eflaust líður einhverjum betur við að það að vita af þeim niðurlægðum á einhvern hátt eða að veldi þeirra fari dvínandi.

En hvað með þegar við heyrum af því að kastað hafi verið grjóti að þeim eða óbeinar morðhótanir hafi birst utan á húsveggjum þeirra? Líður okkur betur þá? Höfundur leyfir sér að efast um að svo sé hjá langflestu fólki. Við hljótum að velta vöngum yfir því hvort þetta sé það réttlæti sem við sækjumst eftir. Er reiðin virkilega svona sterk eða er það eitthvað allt annað, jafnvel öfund, sem drífur fólk áfram?

Óhætt er að segja að hegðun svokallaðra útrásarvíkinga var í mörgum tilvikum hreinusta ósvífni. Þeir sýndu verðmætum sem þeim var treyst fyrir mikla vanvirðingu. Í þeirri rússíbanaferð sem þeir voru í, misstu þeir sjónar á eðlilegum viðmiðum, en höfðu í staðinn tröllatrú á eigin ágæti og verðlaunuðu sjálfa sig með ofurlaunum sem venjulegu fólki ofbauð. Slík vinnubrögð gera lítið úr vinnandi fólki og urðu að lokum þjóðarbúinu ofviða.

Því verður hins vegar að halda til haga að sú hegðun og þau vinnubrögð sem útrásarvíkingarnir beittu einskorðast ekki við þá. Slíkt var að gerast út um allan heim og fleiri þjóðir en Íslendingar súpa seyðið af því núna. Svo virðist sem aðstæður hafi því miður á einhvern hátt boðið upp á þetta þar sem regluverk það, sem ætlað var til að halda utan um slíka starfsemi, var einfaldlega of veikt. Því má ekki gleyma að starfsemin var innan EES löggjafinnar og við megum ekki ætla útrásarvíkingunum það markmið að ætla að keyra Ísland í kaf.

Hvað er það þá sem við viljum? Viljum við sjá þá þjást fyrir framan alþjóð í kjánalegum viðtölum, sem eru varla meira en stórukarlakeppni milli spyrla? Viljum við að þeir viðurkenni að þeir hafi gert mistök eða að þeir séu óhæfir og jafnvel vitlausir? Viljum við sjá kreppuna bitna harðar á þeim en öðrum? Eða viljum við að þeir skili auðæfum sínum aftur, og þá til hverra?

Nýlega kom Bjarni Ármannsson fram og lýsti því yfir að hann hefði gengið frá endurgreiðslu á 370 milljónum króna við skilanefnd Glitnis. Upphæð þessi var hluti af starfslokasamningi sem hann gerði við bankann. Við þetta vakna margar spurningar. Var það samviskubit sem fékk Bjarna í þetta eða til að kaupa sér frið? Eða var það hugsanlega af góðmennsku og gjafmildi? Því skal ekki svarað hér, en þessi gjörningur Bjarna mæltist misvel fyrir.

Einhverjum kann þó að finnast að tilraun á borð við Bjarna sé það sem við ætlumst til af þeim. Deila má um upphæðir og aðferðir en ef við viljum sjá fleiri fylgja fordæmi Bjarna verðum við að gefa þeim tækifæri til þess, án þess að þeir verði úthrópaðir fyrir. Segja má samt að upphæð Bjarna hefði ef til vill verið betur varið í innlend góðgerðarsamtök ef tilgangurinn var að koma Íslendingum til hjálpar. Aðrir í hans sporum gætu valið þá leið.

Við þurfum að gera það upp við okkur hvort sé samfélaginu meira til gagns, að útrásarvíkingarnir komi að endurreisn efnahagslífsins eða við gerum þá að auðmýktum útlögum. Sjá má samt í hendi sér að síðari valkosturinn þjónar aðeins þeim tilgangi að svala eigin hefndarþorsta.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)