Endurnýjun lífdaga

Fyrsti vísir að „nýja framsóknarflokknum“ leit dagsins ljós í gær. Framsóknarmenn höfnuðu með sannfærandi hætti núverandi forsvarsmönnum flokksins og þeim sem verið hafa í fyrirsvari fyrir flokkinn undanfarin ár. Nýja Ísland þarf nýtt fólk.

Fyrsti vísir að „nýja framsóknarflokknum“ leit dagsins ljós í gær. Framsóknarmenn höfnuðu með sannfærandi hætti núverandi forsvarsmönnum flokksins og þeim sem verið hafa í fyrirsvari fyrir flokkinn undanfarin ár. Nýja Ísland þarf nýtt fólk.

Framsóknarmenn eru ekki einir um þessa viðhorfsbreytingu. Í síðustu viku var ákveðið að auglýsa störf bankastjóra í ríkisbönkunum tveimur þar sem fyrrum yfirmenn höfðu verið ráðnir í bankastjórastöður. Í Kaupþingi var stórum hluta af efsta lagi yfirmanna sagt upp störfum fyrir um hálfum mánuði. Jafnvel þó viðkomandi starfsmenn hafi ekki gert neitt rangt er erfitt að ætlast til þess að þeir geti á einni nóttu horfið frá því að gæta hagsmuna stórs alþjóðlegs fjármálafyrirtækis sem skilaði gríðarlegum hagnaði og voru allir vegir færir í það að stýra nánast gjaldþrota fyrirtæki í eigu ríkisins. Auk þess sem gera má ráð fyrir að hagsmunir þeirra og nýja bankans fari ekki endilega saman í öllum tilvikum. Nýr banki krefst nýs fólks.

Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn eru stofnanir sem gegna nýju hlutverki í dag líkt og svo margir aðrir. Fjármálaeftirlitið hefur nú fyrst og fremst eftirlit með ríkisbönkum, auk þess að hafa til skoðunar fjölda mála sem eru að koma í dagsljósið í kjölfar bankahrunsins. Jafnvel þó við lítum algjörlega framhjá því hvort fjármálaeftirlitið hafi brugðist hlutverki sínu á undanförnum árum, þá má vera ljóst að óæskileg staða kann að vera í fjármálaeftirlitinu í dag, þar sem menn þurfa að skoða fyrri verk og ákvarðanir í nýju ljósi. Krefst það ekki nýs fólks?

Sama má segja um Seðlabankann, að því undanskildu að vald hans er nú að einhverju leyti hjá alþjóða gjaldeyrissjóðnum en ekki bankastjórunum. Hverjir þeir eru skiptir því kannski ekki öllu máli.

Þá stendur eftir spurninginn um Sjálfstæðisflokkinn; stærstu og valdamestu stjórnmálahreyfingu landsins undanfarna áratugi. Hans bíður það örðuga verkefni að sannfæra almenning um að grundvallarstefna hans um afskiptaleysi ríkisins og sterkt atvinnulíf sé það sem muni hjálpa okkur úr þeim vandræðum sem að steðja. En hans bíður líka að byggja aftur upp trúverðugleika. Jafnvel þó við lítum algjörlega framhjá því hvort og hversu mikið er við Sjálfstæðisflokkinn að sakast vegna þeirra vandræða sem við erum í er ljóst að sá trúverðugleiki verður ekki fenginn nema með nýju fólki.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.