Munurinn á mótmælum

Er nú loks að skapast skýr aðgreining á mótmælendum og glæpamönnum í hugum
fólks?

Á gamlársdag þurfti að rjúfa útsendingu Kryddsíldarinnar, sem í hugum marga
er fastur punktur í áramótagleðinni, vegna árása glæpamanna á tæknimenn og
–búnað Stöðvar 2 undir yfirskini mótmælaaðgerða. Þessar aðgerðir
grímuklæddra ofbeldismanna eiga hins vegar ekkert skylt við eðlileg mótmæli
í lýðræðissamfélagi. Frekar var um aðför að lýðræðinu að ræða, enda ráðist
gegn starfi sjálfstæðs fjölmiðils sem ekki hafði unnið sér annað til saka en
krefja ráðamenn þjóðarinnar svara í beinni útsendingu.

Það sem vakti þó helst athygli mína við þessa furðulegu atburðarás á
gamlársdag var sú gagnrýni sem kom fram á lögreglu í kjölfarið. Í fyrsta
sinn frá því átök lögreglu og „mótmælenda“ urðu regluleg var lögregla
gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nógu hratt og hart við ólöglegum
mótmælaaðgerðum. Hingað til hafa lögregluyfirvöld yfirleitt þurft að þola
harða gagnrýni fyrir hið þveröfuga – jafnvel þegar þau bregðast við með
vægustu valdbeitingarúrræðum við erfiðar aðstæður.

Þetta ber þess vitni að í hug almennings sé loks að verða til aðgreining á
málefnalegum mótmælum sem veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald, og
glæpsamlegum aðgerðum ofbeldissinna. Því ber að fagna. Það er vonandi að
lögregla fái að njóta sannmælis í samskiptum sínum við lögbrjóta í
framtíðinni. Glæpamenn verða nefnilega áfram glæpamenn þótt þeir feli sig á
bak við málstað.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)