Blessuð áramótaheitin

Hver kannast ekki við það að standa úti á nýársnótt, horfa upp á flugeldana og heita því að leggja gamla ósiði á hilluna og taka upp nýjan og heilbrigðan lífsstíl.

Senn líður að tíma áramótaheitanna. Við upphaf nýs árs setja margir sér háleit markmið um sigra á hinum ýmsu sviðum. Hver kannast ekki við það að standa úti á nýársnótt, horfa upp á flugeldana og heita því að leggja gamla ósiði á hilluna og taka upp nýjan og heilbrigðan lífsstíl. Hversu margir ætli standi í sömu sporum, ánægðir með að hafa staðið við áramótaheitin frá árinu áður? Líklega ekki alveg eins margir.

Langflestir hafa einhvern tímann strengt áramótaheit. Við upphaf nýs árs er kjörið að gleyma því sem miður fór á liðnu ári og horfa fram á veginn með bjartsýnina að vopni. Þá er eitthvað nýtt að hefjast og á vissan hátt er hægt að byrja með hreint blað. Þó að auðvelt sé að fara fram úr sér í heitunum og ætla sér um of, þá er það ekki fráleit hugmynd að setja sér markmið um áramót um að bæta sig á einhvern hátt á komandi ári.

Einhverjir strengja hugsanlega áramótaheit til þess eins að friða eigin samvisku. Að sjálfsögðu er mun betra fyrir samviskuna að hafa ætlað sér að mæta í ræktina og geta svo talið upp langan lista af atriðum sem komu í veg fyrir það, heldur en að viðurkenna einfaldlega að maður nenni ekki í ræktina og ætli sér það ekki.

Aðrir strengja áramótaheit og ætla sér að fara eftir þeim. Fara vel af stað og gengur vel til að byrja með en smám saman fjarar það út. Vandamálið virðist oft vera að markmiðin eru of háleit og óraunhæf. Margir kannast eflaust við að ætla að hætta að reykja eða byrja að fara í ræktina á nýju ári. Einhvern veginn gefst fólk samt upp og áramótaheitin gleymast eftir því sem vikurnar og mánuðirnir líða.

Vænlegast er að setja sér skýr og afmörkuð markmið og ætla sér ekki um of. Langtímamarkmið er gott að greina niður í minni markmið og þannig vinna mikilvæga áfangasigra í leið sinni að lokamarkmiðinu. Í rauninni er skynsamlegra að setja sér markmið fyrir mánuðinn eða fyrir vikuna. Hver áfangi sem vinnst verður því hvatning til að halda áfram. Einnig gæti verið gott að segja einhverjum frá áramótaheitunum, þannig verður erfiðara að skvíkjast undan þeim

Undanfarin ár hefur pistlahöfundur alfarið sleppt því að strengja áramótaheit af þeirri einföldu ástæðu að illa hefur gengið að standa við þau. Nú þegar líður að áramótum hefur samt sem áður kviknað von í brjósti höfundar um að árið 2009 verði árið sem takist að standa við gefin loforð.

Nú er því lag að fara að eigin ráðum og setja sér það markmið fyrir næstu áramót að gleðjast yfir því að hafa náð að standa við áramótaheitin þetta árið. Í versta falli gæti það þá orðið efni í nýjan pistil hversu illa gekk að standa við áramótaheitin.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.