Öl gerir völvu fölva

Völvuspá ársins 2009

Ritstjórn Deiglunnar hitti að vanda spámiðilinn óskeikula Völu Koskinkorvu nú rétt fyrir áramótin til að leita upplýsinga um hvaða myndi hæst bera á nýju ári.

Ritstjórn Deiglunnar hitti að vanda spámiðilinn óskeikula Völu Koskinkorvu nú rétt fyrir áramótin til að leita upplýsinga um hvaða myndi hæst bera á nýju ári. Það reyndist þó þrautin þyngri að ná fundi með henni enda hún þéttbókuð fyrir þessi áramót. Virðist vera sem Íslendingar séu sérlega áhugasamir um völvuspár að þessu sinni enda óvenju margir sem vilja rýna í framtíðina í þeirri von að þar sé að finna upplýsingar sem munu hjálpa þeim að rétta úr kútnum eftir afhroð ársins 2008.

Ritstjórn náði þó í skottið á Völu þar sem hún var stödd á Ölstofunni milli jóla og nýárs. „Ég er svo fuuuull.“ Sagði hún og rauk að barnum. „Stóran bjór góurinn. „ Barþjónninn brást skjótt við enda vont að vera ekki innundir hjá konu sem sér milli tveggja heima og alla leið inn í framtíðina. „Komiði svo, setjumst niður hérna í horninu og spjöllum aðeins saman. Ég tók kristalkúluna með mér, sem betur fer.“ Bætti Vala við og riðaði að eina auða borðinu á staðnum. „Ég er fastakúnni, þeir halda þessu alltaf auðu fyrir mig. Veriði ekki feimin, setjist hjá mér.“ Ritstjórn settist hljóðlega og angurvært niður en óneitanlega spennt því að Vala hefur sjaldan stigið feilspor, eða sagt feilspá réttara sagt.

„Sannast hið fornkveðna: Öl gerir völvu fölva.“ Ropaði Vala út úr sér og hélt áfram: „R.I.P. 2008 er það fyrsta sem ég vil segja. Það er ekki ofsögum sagt að þetta ár hafi verið hrikalegt, alveg hrikalegt. En ég spái því að það muni koma nýtt ár. Ár sem boðar nýtt upphaf. Oddatöluár eru alltaf góð, þó ekki eins góð og prímtölu ár. Verst að næsta ár verður það ekki. 7 sinnum 7 sinnum 41, sjáiði til.“

Vala tók upp græna kúlu úr svartri leðurtuðru með grænu kögri sem lak niður hliðarnar á töskunni. Hún setti hana varlega á borðið og tók gúlsopa af bjórnum. „Ég sé, ég sé …. já bara ekki neitt. Komiði með þurrkur, það er kám á kúlunni.“ Vala þurrkaði kúluna vandlega en varlega og þéttingsfast. Síðan hélt hún áfram:

„Ég sé að árið 2009 fer alveg að koma. Ár breytinga. Ár byltinga. Ár Breta. Ár bitlinga. Ár bésins. Já þetta verður gott ár fyrir alla sem byrja á B. X-B kannski? Nei, fjandakornið – þetta verður ekki árið þeirra frekar en áður. Ég sé þó breytingar hjá Framsókn. Þeir munu fá nýjan formann. Mann sem hefur aldrei setið á þingi. Frjálslyndir sem eru alls ekki frjálslyndir munu missa þingmann og Vinstri-Græn munu fá meðbyr í skoðanakönnunum en ekki geta nýtt sér hann á nokkurn hátt. Ég sé þó að einn þingmaður Vinstri-grænna mun krefjast þess eftir heitar umræður um Evrópusambandsaðild, að hann muni styðja aðildarviðræður ef þær verði sjálfbærar.

Á hinu pólitíska sviði verða líka hrókeringar m.a. í ríkisstjórn þar sem sumir ráðherrar munu ekki verða ráðherrar lengur og aðrir sem eru ekki ráðherrar munu verða ráðherrar. Stór stjórnmálaflokkur mun álykta um Evrópumál og hugsanlega, en jafnvel ekki og gettu nú, leggja fram tillögur um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ég sé enn fremur að fyrrverandi formaður þessa afls mun ekki láta velta sér úr sessi, þaðan sem hann situr hæst núna, án þess að bíta frá sér. Það munu verða átök og breytingar. Þessi tiltekni maður mun verða ákaflega umdeildur, um það verður ekki deilt. Þó má deila um það hvor deilenda í deilunni sem kemur upp hjá Samfylkingunni á árinu hafi rétt fyrir sér. Það verður umdeilt. Ég sé þó ekki alveg um hvað deilan muni snúast enda verður hún snúin.

Varðandi viðskiptalífið á nýju ári þá sé ég fram á mikið atvinnuleysi og slæma stöðu á fasteignamarkaði. Á árinu 2009 mun þó hlutabréfamarkaður taka við sér og það verða fleiri en fimm viðskipti á dag í kauphöllinni. Ég sé að úrvalsvísitalan mun ekki lækka um 95% eins og á þessu ári. Ekki ber heldur á öðru en að síðhærður maður muni láta mikið á sér bera á árinu en Bera Nordal ku ekki tengjast þessum manni á neinn hátt, allavega ekki með áberandi hætti. Þessi síðhærði maður birtist mér með víkingahjálm á höfði og spjót í hægri hendi. Hann mun slá frá sér og það verður sláandi hvað hann mun uppljóstra um á árinu. Gott ef þessi maður muni ekki munnhöggvast að víkingasið við Seðlabankastjóra. Sé ég fram á uppgjör þeirra á milli þar sem þeir munu í beinni sjónvarpsútsendingu yrkja níð um hvor annan og munu áhorfendur geta kosið sigurvegarann með SMS-skeytum.

Að öðru leyti verður árið dæmigert. Það mun hafa 12 mánuði, 365 daga og 24 klukkustundur í hverjum sólarhring. Það verða tækifæri og það verða vonbrigði. Tækifæri þarf að nýta til að byggja upp en vonbrigðin þarf að yfirstíga hratt. Íslendingar þurfa umfram allt að varast vonleysi og framtaksleysi, það gæti komið þeim í koll. Að lokum vil bið ég fyrir hugheilum áramótakveðjum til allra landsmanna“.

Að því sögðu féll Vala í öngvit enda ákaflega orkufrekt að horfa inn í óliðna tíð. Það skal þó ekki útilokað að Vala hafi einfaldlega verið lögð af Bakkusi með hælkrók þetta dularfulla laugardagskvöld. Ritstjórn þakkaði Völu fyrir sig þó svo að kveðjan hafi örugglega ekki komist til skila, og skundaði út í myrkrið viss um, þó ekki væri annað, að það væri framtíð.

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)