Ósýnilegur skaðvaldur

Ofan á kreppu þar sem fjárhagsáhyggjur aukast, lán hækka og greiðslubyrgði eykst er fátt verra en að fá þær fréttir að húsið sé ónýtt, heilsan léleg og að tryggingarnar bæti ekki tjónið. Það er því ekki úr vegi að varpa ljósi á þá ömurlegu staðreynd að þeir sem uppgötva myglusvepp í húsakynnum sínum eiga sér enga von um að fá tjón sitt bætt.

Ofan á kreppu þar sem fjárhagsáhyggjur aukast, lán hækka og greiðslubyrgði eykst er fátt verra en að fá þær fréttir að húsið sé ónýtt, heilsan léleg og að tryggingarnar bæti ekki tjónið. Það er því ekki úr vegi að varpa ljósi á þá ömurlegu staðreynd að þeir sem uppgötva myglusvepp í húsakynnum sínum eiga sér enga von um að fá tjón sitt bætt. Ólíkt öðrum Norðurlöndum bjóða íslensk tryggingarfyrirtæki ekki upp á tryggingu við þessum vágesti sem sífellt fleiri virðast verða fyrir barðinu á.

Þrátt fyrir nokkur mjög alvarleg dæmi myglusvepps hér á landi virðist enn lítil vakning vera meðal yfirvalda og tryggingarfélaga. Dæmi er um að rífa hafi þurft hús vegna sveppasýkingar en slíkt getur haft mjög alvarlegar afleiðingar á heilsu fólks. Ástæðan eru eiturgufur sem sveppurinn myndar. Þessi efni kallast einu nafni sveppaeiturefni (e. myctoxin) og eru sum þeirra mjög krabbameinsvaldandi. Það fer þó allt eftir aðstæðum og magni myglusveppsins hversu skaðleg eiturefnin eru. Dæmi eru þó til erlendis þar sem fólk hefur látið lífið vegna slíkrar eitrunar.

Ung börn, gamalt fólk og sjúklingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu en sumar algengar tegundir innanhússsveppaflórunnar geta valdið ofnæmi og astma. Því lengur sem fólk dvelur í húsinu því verri verða áhrifin.

Pistlahöfundur þekkir nýlegt dæmi þar sem myglusveppur kom upp. Húsið er timburhús, byggt árið 1973. Íbúarnir hafa verið í framkvæmdum í húsinu í átta ár og haldið því vel við, bæði að utan og innan. Þrátt fyrir vöxt myglusveppsins undir veggklæðningu grunaði þau ekki neitt fyrr en fjölskyldumeðlimir fóru að veikjast. Yngsta barnið var öll síðustu jól á spítala með lungnabólgu sem tók sig aftur upp síðar, annað barn svaf ekki fyrir astma og enn annað fékk útbrot sem enginn hafði skýringu á.

Það sem vekur furðu pistlahöfundar er að þrátt fyrir að fólk borgi sínar tryggingar og telji sig vel tryggt fyrir tjóni á húsum sínum þá gengur það á vegg þegar upp kemur myglusveppur. Annars staðar á Norðurlöndunum er boðið upp á viðbótartryggingu við slíku tjóni. Pistlahöfundi lék forvitni á að vita hvers vegna almenningur getur ekki fengið viðbótartryggingu hér á landi við þessu vaxandi vandamáli. Skýringar eins tryggingafélagsins voru meðal annars þær að „vandamálið væri nýtilkomið“ og „að trygginarfélögin þurfi að bíða og sjá hvort markaður sé fyrir slíkri tryggingu“. Það á sum sé að bíða eftir því að enn fleiri fjölskyldur endi á götunni áður en hægt verður að bjóða upp á tryggingu við þessu. Slíkt er með öllu óásættanlegt.

Það er synd ef bæði yfirvöld og tryggingafélög ætla að bíða eftir að svo verði. Þegar um er að ræða jafn alvarleg mál og heilsu fólks og húsakynni skiptir tíminn öllu máli. Hér er ekki eingöngu verið að kalla eftir ábyrgð yfirvalda og tryggingarfélaga heldur þurfa húseigendur einnig að vera vakandi fyrir þessu. Auðvelt er að nálgast ferkari upplýsingar um myglusveppinn á vef Náttúrufræðistofnunar og á vefnum Hús og heilsa.

Heimildir:
Af vef Náttúrufræðistofnunar – slóðin er http://www.ni.is/grodur/Flora/Sveppir/sveppatidindi/greinar//nr/458
www.husogheilsa.is

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.