Af dauðum kanínum úr böggluðum pípuhatti

Miðað við atburðarásina undanfarið er ekki ólíklegt að innan skamms komi fram bók eða kvikmynd sem fjalli um hetjudáðir og snilli hagfræðingsins sem bjargaði heiminum. Lögfræðingar og njósnarar verða hvíldir um stund. En hverjar gætu hetjudáðir hagfræðingsins mögulega verið í ljósi þess að hagfræðilíkönin falla hvert af öðru eins og spilaborgir og hagfræðikenningarnar nothæfar alls staðar nema í raunveruleikanum?

Hagfræðingar virðast um þessar mundir vera réttu mennirnir á röngum tíma. Þeir segja hvað fór úrskeiðis, horfa inn í framtíðina og ráðleggja hvað skuli gera mitt á milli fortíðar og framtíðar. Stjórnmálamönnunum er gert að hlusta og hlýða. Lögfræðingunum er falið er sveigja og beygja grundvallarréttindi eins og eignarétt, stjórnsýslureglur og alþjóðlegar skuldbindingar svo áætlanir hagfræðinganna nái fram að ganga á meðan almenningi er ætlað að borga.

Á bakvið allar þjóðhagsspár, greiningar, hagskýrslur og matskýrslu fjármálasérfræðinga liggja tiltölulega einfaldar kenningar um samspil þjóðhagfræðinnar og rekstarhagfræðinnar. Á grundvelli kenninganna hafa svo verið byggð og þróuð æ stærri og flóknari reiknilíkön sem ætlað er að segja til um framþróun stórra hagkerfa og hegðun einstaklinganna í þeim. Ekki það að hagfræðin sé einföld og auðvelt sé að reikna út og spá fyrir um framvindu markaðarins. Heldur hitt að flækjustig verkefnisins jafnast á við að reikna út og segja til um á hverjum tíma hvert allir fiskarnir í sjónum eru að synda, hversu hratt og afhverju.

Ein grundvallarkenning hefðbundinnar hagfræði gerir ráð fyrir að hagkerfið leiti alltaf jafnvægis. Framboð og eftirspurn mynda á endanum jafnvægi um hið eina rétta verð þar til einhver ytri öfl raska jafnvæginu tímabundið, t.d. framboð vöru minnkar vegna náttúruhamfara, og varir það ástand þar til jafnvægi er aftur náð, t.d. með hærra verði vörunnar. Kenningin er mjög fín svo lengi sem ályktað er sem svo að hagkerfið sé lokað kerfi og hinn hagsýni maður taki yfirvegaðar og skynsamar ákvarðanir um kaup og sölu með allar upplýsingar fyrir framan sig í ótrúlega einföldum heimi. Skiljanlega freistast hagfræðingar til þess að álykta sem svo að hagkerfið sé einangrað kerfi sem leiti stöðugt að jafnvægi. Því þannig hefur þeim verið gert kleift að búa til fín reiknilíkön um hegðun markaðarins sem ganga upp og eru í samræmi við kenninguna.

Með þessi tæki og tól að vopni reikna sérfræðingar út af mikilli nákvæmni hvert rétt vaxtastig sé miðað við verðbólguspár, hver landsframleiðslan muni verða næstu misseri með hliðsjón af væntanlegri framleiðniaukningu og þá hvernig fjárlög ríkisins skulu líta út. Fundið er út eðlilegt peningamagn sem ætti að vera í umferð, hvað peningar ættu að kosta og hvernig gengi gjaldmiðla mun sveiflast í takt við væntingar markaðarins innanlands miða við horfur á alþjóðamarkaði. Skemmst er frá því að segja að erfiðlega gengur að láta þessi spálíkön falla að raunveruleikanum og helsta skýring hagfræðinga á því er eftiráskýring. Og séu tveir hagfræðingar beðnir um skýringu koma fjórar skýringar. En verst er þegar reynt er eftir fremsta megni að nauðbeygja raunveruleikann að tilbúna reiknilíkaninu með boðum og bönnum eins og efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar hljóðar upp á. Þá fyrst má fara pakka saman.

Sennilegast skýringin á því afhverju hagfræðilíkönin ganga ekki upp og passa ekki við raunveruleikan er sú að rangar ályktanir eru dregnar um eðli og hegðun hagkerfa. Með öðrum orðum líkönin hafa ekkert með raunveruleikann að gera þar sem það virðist ekki vera lögmál að hagkerfin, þ.e.a.s. hegðun einstaklinga, leiti stöðugt eftir einhverju ímynduðu fullkomnu jafnvægi. Hagkerfið er ekki lokað kerfi heldur síbreytilegt og látlaust í ójafnvægi þar sem einstaklingar taka óyfirvegaðar ákvarðanir með ótrúlega litlar upplýsingar fyrir framan sig í ótrúlega flóknum heimi. Kreppa hagfræðinganna felst í því að leita að stöðuleika í ímynduðum heimi óstöðugs raunveruleika. Því miður er alltof freistandi að trúa því að hægt sé að gera flókin heim mjög einfaldan. Eðlilega felst mikil huggun í því að treysta sérfræðingum fyrir því að hægt sé segja til um hvað framtíðin beri í skauti sér og hvernig beri að haga sér í samræmi við það. Fari eitthvað úrskeiðis í efnahagslífinu er jafnframt eðlilegt að leitað sé að einföldum skýringum og öllum öðrum kennt um.

Um hagfræðinga mætti segja í kaldhæðni að engin stétt fræðinga hefur tekist að valda jafn miklu tjóni á jafn skömmum tíma og notið á sama tíma jafn mikið traust til að ráðleggja hvernig best væri að leysa vandamálið. Stjórnmálamennirnir eru margir hverjir í gálganum. Embættismennirnir eiga hvort eð er ekki að vera spurðir og fjárfestarnir eru farnir ásamt peningunum. Eftir standa hagfræðingarnir sjálfir, sem fjölmiðlar draga núna fram úr sínum fílabeinsturnum, og töfra fram úr böggluðum pípuhatti dauðar kanínur á meðan almenningur situr gjaldþrota með sveittan skallann og fyrirtækin á hausunum.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.