Njótum vafans

Nú þegar þrengir að í þjóðarbúinu, hagvöxtur hverfur og fé liggur ekki lengur á lausu eru góðar fréttir vel þegnar. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hver á að njóta vafans og hver á að borða hvern.

Nú þegar þrengir að í þjóðarbúinu, hagvöxtur hverfur og fé liggur ekki lengur á lausu eru góðar fréttir vel þegnar. Sem betur fer berast þær af og til þó oftar en ekki fari lítið fyrir þeim hjá fjölmiðlum sem eru kappsfullir af að flytja dómsdagsspár af ýmsu tagi. Nú berast hagfelldar fréttir úr hafinu þrátt fyrir sýkta síld.

Í nýlegri stofnmælingu Hafrannsóknarstofnunar á botnfiski kom fram mun meira magn af þorski en menn áttu von á. Í raun meira en nokkru sinni í sambærilegri mælingu frá því þær hófust árið 1996. Aukningin milli ára er 70% en þó ljóst að stofninn hefur ekki vaxið svo mjög á milli ára. Forstjóri Hafró sagði í viðtali við RÚV að hann vildi bíða stóra togararallsins í mars áður en hann mælti með aukningu þorskkvóta.

Þrýstingur hefur aukist á sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann en hann hefur sagst vilja láta þorskinn njóta vafans. Það er þó hæpið að hann njóti mjög núverandi fiskveiðistefnu því hlutfallslega hár ýsukvóti leiðir til veiða á smærri og yngri þorskum. Niðurstaða mælingarinnar er vissulega ekki heldur lóð á vogarskálar þorksins en bendir til þess að óhætt sé að auka kvótann.

Aðrar góðar fréttir voru veiting Japana á innflutningsleyfi vegna hvalkjöts. Leyfið er forsenda þess að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni aftur af alvöru og vonandi að tekin verði ákvörðun um það fljótlega. Þeir sem hafa lýst sig andvíga veiðunum skiptast í tvennt. Annars vegar erlenda atvinnuþrýstihópa og hins vegar þá sem óttast illt umtal þeirra. Veiðarnar á þeim dýrum sem nú var leyft að selja í Japan urðu ekki til að skaða íslenska hagsmuni svo neinu næmi. Einu rökin sem eftir standa gegn hvalveiðum eru að láta hvalina njóta vafans.

Meðal þess sem horfa þarf til á næstu misserum er að nýta sem best þær auðlindir sem við höfum. Meta þarf hagsmuni til lengri og skemmri tíma og láta frasa lönd og leið. Ef einhver á að njóta vafans þá eru það þeir sem byggja landið. Enn sem komið er hafa hvorki þorskur né hvalir kosningarétt og því á okkar ábyrgð að meta hvernig við hámörkum nýtingu auðlindanna til lengri og skemmri tíma. Við þurfum á jákvæðum fréttum að halda. Aukin tækifæri til atvinnu og verðmætasköpunar eru bestu fréttir sem ríkisstjórnin getur boðið okkur upp á.

Njótum vafans sjálf og borðum þorskinn.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)