Framtíð íslensku krónunnar

Í gær var krónan set á flot á ný eftir að gjaldeyrismarkaðnum var lokað í kjölfar hruns bankakerfisins. Öllum ætti að verða orðið ljóst hversu mikilvægt það er fyrir Íslendinga að tilraun Seðlabankans til að koma af stað heilbrigðum gjaldeyrismarkaði takist. Hjá stórum hluta fyrirtækja landsins er það hreinlega spurning um líf eða dauða og gjaldþrot fjölda einstaklinga blasir við ef krónan styrkist ekki bráðlega.

Í gær var krónan set á flot á ný eftir að gjaldeyrismarkaðnum var lokað í kjölfar hruns bankakerfisins. Öllum ætti að verða orðið ljóst hversu mikilvægt það er fyrir Íslendinga að tilraun Seðlabankans til að koma af stað heilbrigðum gjaldeyrismarkaði takist. Hjá stórum hluta fyrirtækja landsins er það hreinlega spurning um líf eða dauða og gjaldþrot fjölda einstaklinga blasir við ef krónan styrkist ekki bráðlega.

Þó að stórar sveiflur krónunnar séu nánast orðnar daglegt brauð verður seint hægt að segja að óvægnar hreyfingar gengisins venjist. Á Íslandi fylgist þjóðin með genginu með hjartað í buxunum enda hangir margt á spýtunni hvort sem það birtist í erlendum skuldum eða verðbólgu. Víðast hvar í öðrum löndum fylgjast einungis einstaklingar í fjármálatengdum störfum svo náið með gjaldeyrissveiflum enda búa íbúar flestra vestrænna ríkja við mun stöðugra markaðsgengi en við.

Bankakreppan er alþjóðlegt fyrirbrigði. Þó að hún sé á misslæmu stigi eftir því hvaða lönd eiga í hlut eru blikur á lofti um að önnur ríki eigi eftir að lenda í svipuðum erfiðleikum með sína banka og við berjumst við þessa dagana. En það sem skilur okkur frá öðrum löndum er að því miður einskorðast erfiðleikar okkar ekki einungis við erfiðleika bankanna heldur þurfum við einnig að kljást við gjaldeyriskreppu. Svo lengi sem það ástand varir eru önnur vandamál, sem eru engu að síður mjög aðkallandi, næstum óleysanleg.

Því er eðlilegt að hugmyndir um nýjan gjaldmiðil verði sífellt háværari.

Krafan um að Íslendingar fái notið sömu vaxtakjara og nágrannaþjóðir okkar er ekki ný af nálinni en fær nýtt og aukið vægi í því ástandi sem nú ríkir. Vextir eru í hæstu hæðum og hvort sem lögaðilar hafa tekið erlend, vístölutryggð eða lán á markaðskjörum, finna allir fyrir kæfandi vaxtabyrðinni. Fólk krefst þess beinlínis að þessu verði komið í betra horf.

Krafan um annan gjaldmiðil og lægra vaxtastig er á margan hátt sú sama. Þegar góðærið var sem mest trúðu menn því að Íslendingar gætu haldið sínum eigin gjaldmiðli, vægri verðbólgu og vaxtastigi lágu. Segja má að það hafi verið forsenda peningamálastefnu Seðlabanka Íslands og var vonast til að nógu mikill stöðugleiki næðist til að erlendir fjárfestar litu áhættuna sem í krónunni fælist þolanlega.

Kannski var það aldrei raunhæft markmið og þurfa þeir sem bera ábyrgð á peningamálastefnunni að horfast í augu við að ólíklegt er að það náist nokkurn tíman – og allra síst eftir atburði undangenginna mánaða.

Ísland var í þeirri sérstöku stöðu að vera talið eitt þróaðast ríki heims þegar kom að bankastarfssemi og innviðum samfélagsins, en með íslensku krónuna, sem var og verður líklega alltaf flokkuð með gjaldmiðlum vanþróaðra ríkja. Þetta viðhorf til krónunnar gerir það að verkum að vaxtastig verður að haldast hátt til að vega á móti áhættunni sem fylgir litlu hagkerfi, gengisáhættu og verðbólgu.

Háir vextir á Íslandi lýsa þessu viðhorfi fjárfesta til íslensku krónunnar og verða ekki lækkaðir án þess að vissa sé fyrir því að ofangreindir áhættuþættir séu takmarkaðir. Ef það tekst ekki verður mjög erfitt að fá erlent fjármagn til innlendrar starfsemi án þess að halda áfram að bjóða himinháa vexti, forgang að náttúruauðlyndum eða samkeppnishamlandi viðskiptaumhverfi. Slík undirboð myndu virka sem spennitreyja á íslenskt atvinnulíf og koma í veg fyrir nauðsynlega viðreisn íslenska bankakerfisins sem er ein af forsendunum fyrir nýsköpun og enduruppbyggingu atvinnulífsins.

Nokkur umræða hefur verið um upptöku evrunnar með eða án inngöngu í Evrópusambandið. Þó að einhliða upptaka evrunnar væri tæknilega auðveld hefur ekki verið sýnt fram á að okkur standi til boða lánveitandi til þrautavara sem af gefinni reynslu er æskileg forsenda ef ekki nauðsynleg. Innganga í Evrópusambandið og myntbandalagið með stuðningi evrópska seðlabankans hefði vissulega í för með sér nokkra kosti, en framhjá því verður þó ekki litið að viðbrögð ESB við áfalli okkar Íslendinga voru mikil vonbrigði. Sú staðreynd að ríki sambandsins voru ekki fáanleg til að leita til dómstóla vegna brota Breta á eignaréttarákvæði Mannréttindasáttmálans og að ESB hafi tekið þátt í því að knýja fram nauðasamninga við AGS vekur ekki beint traust á því að hagsmunir okkar séu settir á sama stall og stærri þjóða.

En kannski eru ekki margir aðrir kostir í stöðunni. Engin vissa er fyrir því að önnur ríki vilji eða geti veitt íslensku bankakerfi þann stuðning sem nauðsynlegur er ef við tækjum upp annan gjaldmiðil en evruna. Eins eru það hagsmunir okkar að við komumst inn á myntsvæði sem innihalda ríki sem við stundum viðskipti við og hafa hagsveiflur sem ganga í takt við okkar eigin.

Heimurinn hefur breyst mikið á síðustu 20 árum og fjölgun fjárfesta sem virða landamæri að vettugi í leit sinni að tækifærum hefur flækt verkefni seðlabanka heimsins í viðleitni þeirra til að hafa áhrif á sína eigin heimamarkaði. Þetta kom glögglega í ljós í árangurlausri tilraun Seðlabanka Íslands til að hafa hemil á innlendri þenslu og sannaði betur en margt annað hversu vonlaust það er að halda úti eigin gjaldmiðli. Þessar nýju aðstæður kalla á að íslenska hagkerfið sameinist stærra myntsvæði sem stuðlar að vexti innlendra fyrirtækja og kemur í veg fyrir þá óbærilegu gengisáhættu sem íslenskir frumkvöðlar hafa hingað til búið við.

Því miður er engin töfralausn á gjaldaeyrisvandamálum Íslendinga, en þó er víst að flestar þeirra tillagna sem hingað til hafa verið nefndar eru betri en óbreytt ástand. Þó liggur fyrir að annar gjaldmiðill en krónan myndi binda hendur okkar þegar kæmi að hagstjórn. Hagsveiflum yrði að mæta með mjög óvinsælum aðgerðum eins og launalækkunum eða uppsögnum.

Þrátt fyrir þessa ókosti hefur reynsla síðustu mánaða sýnt að kostnaðurinn við þann sveigjanleika sem fæst með íslenskri krónu er of hár og of þvingandi.

Verkefni stjórnvalda við að endurreisa íslenska bankakerfið og traust þjóðarinnar erlendis verður vandasamt. Ljóst er að endurskoða þarf þann ramma og þær aðferðir sem við höfum notað hingað til og mikið er undir því komið að vel takist til. Í þeirri yfirferð er nauðsynlegt að skoða það alvarlega hvort að íslensk króna þjóni hagsmunum okkar í framtíðinni.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.