Tækifæri til að móta framtíðina

Framundan eru spennandi og ögrandi tímar í starfi Sjálfstæðisflokksins. Nær allar stórar ákvarðanir í sögu íslensku þjóðarinnar hafa verið teknar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ef einhvern tímann hefur verið tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina, þá er það núna.

Á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins sl. föstudag var samþykkt einróma tillaga Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, um að flýta fyrirhuguðum landsfundi flokksins til 29. janúar 2009 og skipa sérstaka nefnd um Evrópumál innan Sjálfstæðisflokksins. Er nefndinni ætlað að skila tillögum sínum fyrir landsfund í formi ítarlegrar skýrslu. Í kjölfarið mun landsfundur skera úr um hvaða stefnu Sjálfstæðisflokkurinn tekur í Evrópumálum.

Nær allar stórar ákvarðanir í sögu íslensku þjóðarinnar hafa verið teknar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og því er ekki að undra að fjölmiðlar sýni fundinum og ákvörðunum tengdum honum áhuga. Þeir vita sem víst að þar verða teknar ákvarðanir sem varða munu framtíð íslensku þjóðarinnar. Ákvörðunin um að ganga inn í NATO var á sínum tíma tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og ákvörðun um að ganga inn í EES sömuleiðis. Ef íslenska þjóðin gengur inn í Evrópusambandið verður sú ákvörðun einnig tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Mikil vinna er nú fyrir höndum fyrir sjálfstæðismenn því skammur tími er til stefnu. Málefnanefndir flokksins hafa verið starfandi á fullum krafti í allan vetur en nú þurfa þær að hafa hraðari hendur en ella til þess að ljúka ályktunum í tæka tíð fyrir fundinn. Málefnanefndirnar funda því stíft næstu vikur, rökræða sína málaflokka, halda opna fundi og fá til sín sérfræðinga í viðkomandi málaflokkum. Niðurstöður nefndanna verða síðan ræddar og bornar upp til atkvæða á landsfundi.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins vinna eftir þessum ályktunum hvort sem það er á vettvangi sveitastjórna eða Alþingis þar sem þeir vinna þessum hugmyndum brautargengi. Þeir hafa umboð Sjálfstæðisflokksins til þess að vinna að þeim hugmyndum sem teknar eru á landsfundinum en aðrar veigamiklar ákvarðanir hafa þeir ekki umboð flokksins til þess að taka.

Það er þess vegna sem forsætisráðherra leggur nú til að fundinum verði flýtt og sérstök Evrópunefnd skipuð. Staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur gjörbreyst frá síðasta landsfuni og nauðsynlegt er að Sjálfstæðisflokkurinn endurmeti stöðuna út frá málefnalegum forsendum. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að Evrópusambandinu var mótuð við aðstæður sem voru allt aðrar. Hvort nýtt hagsmunamat leiði til breyttrar afstöðu flokksins á eftir að koma ljós.

Þrátt fyrir síbylju annarra stjórnmálaflokka um hið gagnstæða, þá er það staðreynd að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi tekur ákvarðanir á eins lýðræðislegan hátt og Sjálfstæðisflokkurinn. Það getur hvaða flokksmaður sem er komið hugmynd sinni að í málefnanefnd, rökstutt hana og reynt að afla henni stuðnings svo hún verði samþykkt á landsfundinum sjálfum. Flokksmenn sjálfir móta stefnuna í málefnanefndum og greiða atkvæði um hana á landsfundi þar sem allir hafa sama atkvæðavægi, hvort sem þeir eru ráðherrar eða ungliðar á sínum fyrsta landsfundi. Þetta lýðræðislega fyrirkomulag er ein af ástæðum þess að ég styð Sjálfstæðisflokkinn.

Framundan eru spennandi og ögrandi tímar í starfi Sjálfstæðisflokksins. Landsfundur flokksins í lok janúar verður sögulegur og þar verða teknar afdrifaríkar ákvarðanir. Skoðanaskipti og hagsmunamat sem fram mun fara á víðtækum grundvelli með atbeina hundruða og jafnvel þúsunda sjálfstæðismanna undir forystu Evrópunefndarinnar mun styrkja mjög þær ákvarðanir sem teknar verða á landsfundi. Ef einhvern tímann hefur verið tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina, þá er það núna.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)