Að breyta leikreglum

Peningamarkaðssjóður er eitt af þeim hugtökum sem allir virðast vita hvað er í dag en enginn vissi hvað var fyrir ári síðan, nema þeir fáu sem lögðu þá sparnaðinn sinn í einn slíkan.

Peningamarkaðssjóður er eitt af þeim hugtökum sem allir virðast vita hvað er í dag en enginn vissi hvað var fyrir ári síðan, nema þeir fáu sem lögðu þá sparnaðinn sinn í einn slíkan.

Margt má segja um það hvernig bankarnir hafa markaðssett vörur sínar undanfarin ár; auglýst gjaldeyrislán fyrir sumarbústaðaframkvæmdum og bílakaupum og fjárfestingu í peningarmarkaðssjóði sem þá öruggustu sem til er. En dokum aðeins við!

Ef við skoðum þær sparnaðarleiðir sem til voru fyrir einu ári síðan; hvaða leið var þá öruggust? Vissulega var hægt að leggja pening inn á bankabók með ágætisvöxtum, en sú leið var þeim takmörkunum bundin að ef bankinn þinn færi á hausinn þá ættirðu bara eftir fjárhæð sem jafngilti innistæðutryggingunni, sem er í dag um þrjár milljónir. Ef þú áttir kannski 15 milljónir var það ekkert sérstaklega góð tilhugsun. Peningamarkaðssjóður sem fjárfesti í ríkisskuldabréfum, skuldabréfum útgefnum af sveitarfélögum, innlánum og skammtímaskuldabréfum fyrirtækja var þá hugsanlega betri kostur. Jafnvel þó bankinn þinn færi á hausinn og um leið yrði hluti af fjárfestingu sjóðsins í skuldabréfum fyrirtækja verðlaus þá væri sennilega meira eftir en þrjár milljónir. Ríkisskuldabréfin ættu að vera sæmilega trygg og svo væru ekki öll fyrirtækjaskuldabréfin orðin verðlaus.

Það sem hins vegar gerist nú á haustdögum og breytir þessari mynd töluvert er að ríkið ákveður að tryggja að fullu innistæður landsmanna. Eftir á kemur í ljós að miklu betra var að hafa lagt pening inn á bankabók – það var hins vegar ekki rétt fyrir ári síðan eða hálfu ári síðan.

Það er óneitanlega ósanngjarnt fyrir marga þegar leikreglunum er breytt eftir á. Fólk tekur ákvarðanir á hverjum tíma miðað við þau lög og reglur sem þá eru í gildi í trausti þess að leikreglurnar séu stöðugar og þeim verði ekki breytt í grundvallaratriðum á miðri leið.

Vissulega voru góðar og gildar ástæður fyrir því að tryggja innlán að fullu og þar með stóran hluta af sparifé landsmanna. En eins og sannast með þessu einfalda dæmi þá verður að fara varlega í það að breyta leikreglum eftir á.

Allt tal um frystingu erlendra lána, niðurfellingu verðtryggingarinnar og fleira slíkt verður því að taka með mikilli varúð. Á endanum borgar einhver og með slíkum breytingum er verið að flytja ábyrgðina frá einum til annars – hversu sanngjarnt er það?

Eins og bent var á hér á Deiglunni þann 23. október í greininni „Að axla ábyrgð“ þá er það grundvöllur hagkerfis og velferðar að leikreglurnar séu skýrar og eignarréturinn virtur.

Óhjákvæmlega verður mikil uppstokkun á næstu mánuðum og árum í hagkerfi okkar. En það verður að fara varlega í það að breyta leikreglunum eftir á þar sem slíkt er mun líklegra að leiða til ósanngjarnari niðurstöðu en ella auk þess að grafa til langs tíma undan trausti á hagkerfinu.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.