Bókadómur: Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið

Nýverið leit bókin Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið eftir Eirík Bergmann, dósent í Evrópufræðum við Háskólann á Bifröst, dagsins ljós. Einn umsagnaraðila bókarinar, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, tekur svo til orða að svo skemmtilega sé haldið á penna að honum hafi fundist bókin minna á spennusögu. Í pistli dagsins er að finna álit pistlahöfundar á spennufræðum evrópusinnans.

Nýverið leit bókin Frá Evróvision til evru – allt um Evrópusambandið eftir Eirík Bergmann, dósent í Evrópufræðum við Háskólann á Bifröst, dagsins ljós. Í tveimur umsögnum um bókina, sem birtar eru á bókarkápu, er bókinni lýst sem lipurlega ritaðri og góðu yfirlitsriti um Evrópusambandsmál. Einn umsagnaraðilanna, Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, tekur meira segja svo til orða að svo skemmtilega sé haldið á penna að honum hafi fundist bókin minna á spennusögu.

Þessi bók Eiríks Bergmanns er sú fjórða sem hann ritar um Ísland og Evrópusambandið auk doktorsritgerðar hans sem einnig fjallar um sama efni. Eru fyrri bækur Eiríks oft á tíðum fróðleg yfirlitsrit um þróun Evrópusambandsins og aðkomu Íslands að því og reynir Eiríkur að nálgast viðfangsefni sitt sem hinn hlutlausi fræðimaður; er sama uppi á teningnum nú.

Í bók sinni reynir Eiríkur að varpa skýru ljósi á ástæður sem liggja Evrópusambandinu til grundvallar, þróun þess í sögulegu ljósi, stofnanauppbyggingu og samstarfssvið sambandsins auk þess sem fjallað er sérstaklega um aðkomu Norðurlandanna að samstarfinu. Er fjallað um þessi atriði í köflum eitt til ellefu og verður að taka undir með álitsgjöfum á bókarkápu að þessir kaflar eru auðlesnir og fróðlegir auk þess sem hinn gagnrýni fræðimaður vandar sem mest hann má sig við skrifin.

Þegar kemur hins vegar að kafla tólf og þrettán heltist fræðimaðurinn úr lestinni og við tekur málpípa Evrópusinna á Íslandi. Þar fer Eiríkur Bergmann yfir þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu og helzta muninn á evrópska efnahagssvæðinu og Evrópusambandinu. Teiknar hann upp margvíslegar myndir í huga lesandans sem lausnir við mörgum af þeim álitaefnum sem komið hafa upp varðandi aðild Íslands. Býður Eiríkur okkur upp á hugmyndir um að Ísland leysi fiskveiðimálin með því að Evrópusambandið byði okkur sérstakt sjálfsstjórnarsvæði í fiskveiðum. Ekki minnist Eiríkur einu orði á að þessi lausn myndi ekki ná yfir deili- og flökkustofna sem veiddir eru hér við land auk þess sem hann er nú ekki mjög fræðilegur í því að draga fram rök sem ESB ríki kynnu hugsanlega (og það er eiginlega alveg öruggt að mínu mati) að setja við þessa hugmynd hans. Ennfremur fer hann orðum um áhrifin á landbúnaðinn og nefnir svo í framhjálhlaupi að svína og kjúklingabændur myndu ekki lifa inngöngu í ESB af. Hann telur þó að sauða- og kúabændur myndu hafa það af, ef okkur tækist að fá enn frekari undanþágur varðandi niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum en dæmi eru um innan ESB.

Í bók sinni fer Eiríkur engum orðum um áhrif inngöngu á íslenzka lýðræðishefð og nálægð við kjörna fulltrúa, né leggur hann mat á áhrifin (ef einhver eru) á fullveldi landsins. Það er þó ljóst að innganga í ESB krefst stjórnarskrárbreytingar um aukið framsal valds.

Það sem ég sakna þó mest í bók Eiríks – sem eins og segir í bókartitlinum – hefur að geyma allt um Evrópusambandið, er einmitt meira um Evrópusambandið. Nú vitum við hvernig Evrópusambandið er uppbyggt og um sögulega þróun þess (en Eiríkur hefur fjallað um þau mál áður í fyrri bókum sínum) en við erum engu nær um hvert það stefnir eða fyrir hvað það stendur. Hvaða ályktanir má draga af sögulegri þróun þess varðandi framtíðina, hvað breytist þegar og ef Lissabonnsáttmálinn tekur gildi og síðast en ekki sízt lýsir sagan Evrópusambandsþjóðum sem raunverulegum vinum eins og í Dýrunum í Hálsaskógi eða eru kannski þjóðir ESB allar að skara eld að eigin köku?

Í stuttu máli má segja að bók Eiríks sé fróðleg og lipurlega rituð en þó skorti töluvert á að hún beri nafn með rentu.

Latest posts by Páll Heimisson (see all)