Róum mannskapinn

Fjármálakreppa um allan heim er staðreynd og er Ísland engin undantekning. Fréttir síðustu daga hafa ekki gefið tilefni til bjartsýni og virðist botninum aldrei ætla að ná. Mikilvægt er þó að fólk haldi ró sinni.

Fjármálakreppa um allan heim er staðreynd og er Ísland engin undantekning. Fréttir síðustu daga hafa ekki gefið tilefni til bjartsýni og virðist botninum aldrei ætla að ná. Mikilvægt er þó að fólk haldi ró sinni.

Fjölmiðlar hafa linnulaust flutt fréttir af fundarhöldum ríkisstjórnarinnar og áhrifamanna atvinnulífsins og gengið hart fram í að draga upp úr þeim upplýsingar. Þá hafa þeir gagnrýnt stjórnvöld fyrir þögn og aðgerðarleysi. Atburðir síðustu daga hafa þó sýnt að óvissuástand ríkir og ábyrgðarlaust væri að stíga fram með vanhugsaðar aðgerðir eða skammtímalausnir, yfirlýsingar eða svartsýni.

Nútíma fréttamennska, þar sem fréttirnar þurfa að berast helst áður en atburðirnir gerast, á illa við þegar fjallað er um jafnviðkvæmt fyrirbæri og fjármálamarkaðurinn er, sem skelfur þessa dagana við minnsta hvísl. Þannig hlýtur það að vera hlutverk fjölmiðla á tímum sem þessum að reyna að eyða óvissu meðal almennings án þess að ýta undir ótta og múgæsingu. Þá þarf vart að taka það fram að nú er ekki tími til að leita sökudólga, til þess gefst tími þegar hættunni er afstýrt.

Stjórnvöld hafa gripið til yfirvegaðra aðgerða til þess að lægja öldurnar. Með setningu neyðarlaganna hafa þau gert það ljóst að hagsmunir almennings í landinu verða í fyrirrúmi í öllum viðbrögðum stjórnvalda. Þá hafa verið boðaðar aðgerðir til að hjálpa skuldsettum heimilum og tryggja innistæður landsmanna í bönkunum. Öllum er ljóst að erfiðir tímar eru framundan. Tímar sem munu koma til með að reyna á íslensku þjóðina. Tímar sem við munum sigrast á.