Íslandskí kapút?

Íslendingar fengu lánaðan pening hjá Pútín. Örn Árnason getur enn eina ferðina dustað rykið af slavnesku eftirhermunni. Spaugstofan og höfundar skaupsins geta nú sett á sjálfstýringu til áramóta.

Íslendingar fengu lánaðan pening hjá Pútín. Örn Árnason getur enn eina ferðina dustað rykið af slavnesku eftirhermunni. Spaugstofan og höfundar skaupsins geta nú sett á sjálfstýringu til áramóta.

Það er auðvitað ögn undarleg utanríkislógík að vilja standa utan við bandalag á þriðja tug vestrænna ríkja í Evrópu af ótta við fullveldisskerðingu en þiggja síðan lán frá Rússum. Rússar eru nefnilega þekktir fyrir fremur nýstárlega nálgun á fullveldi nágranna sinna. Þar á meðal ber að nefna nýlega innrás þeirra í Georgíu, líklegan vefhernað gegn Eistlandi í fyrra og flug sprengjuflugvéla yfir Íslandi.

Þessi mikla þjóð í austri hefur töluverða reynslu af því að tryggja hagsmuni sína með þeim auðæfum sem land þeirra elur. Rússland hefur þannig ítrekað notað bæði olíu og gas í pólitískum tilgangi. Fyrir tveimur árum var til dæmis skrúfað fyrir gasflutninga til Úkraínu í kjölfar þess að þar tók við ríkisstjórn sem var Rússum síður þóknanleg. Ráðamenn í Moskvu gáfu það reyndar út að þeir hefðu verið að niðurgreiða gasið stórlega fram að því en kröfðust nú að fá greitt samkvæmt heimsmarkaðsverði, sem þýddi margföldun gjaldskrár. Rússneski björninn elskar svo sannarlega ekki án skilyrða.

Vitanlega hafa Íslendingar fengið lánað frá ólíkum þjóðum nú og áður svo að í sjálfu sér þurfa slík lán ekki að vera neitt meira en lán. En óneitanlega hefði verið þægilegra að sleppa því að eiga inni greiða hjá ríki sem er nýlega byrjað að rjúfa lofthelgi Íslands með reglulegu millibili. Og ríki sem fyrir einungis tveimur mánuðum síðan réðst inn í annað Evrópuríki með hervaldi.

Sú ákvörðun Íslands að biðja Ríkisstjórn Rússlands um risagjaldeyrislán hlýtur að lykta af ákveðinni örvæntingu. Vonum að við munum greiða þetta lán upp hratt og örugglega og getum að því loknu leitað annarra leiða til að tryggja stöðugleikann, blessunina. Vinsamleg samskipti við Rússa eru vitanlega bæði æskileg og nauðsynleg. En það eru til ríki sem ég mundi vilja skulda pening frekar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.