Gull og grænir skógar

Í þessari viku gekk Real Madrid frá kaupum á franska sóknarmanninum Karim Benzema sem gerir fjárhæð sumareyðslu þeirra að rúmlega 200 milljónum punda. Er þessi eyðsla Real merki um nýja tíma í knattspyrnunni eða einfaldlega endurvakning galactico stefnunnar svokölluðu?

Í þessari viku gekk Real Madrid frá kaupum á franska sóknarmanninum Karim Benzema sem gerir fjárhæð sumareyðslu þeirra að rúmlega 200 milljónum punda. Er þessi eyðsla Real merki um nýja tíma í knattspyrnunni eða einfaldlega endurvakning galactico stefnunnar svokölluðu?

Galactico stefna Real Madrid lýsti sér þannig að forseti félagsins, Florentino Perez, gaf það út að hjá Real Madrid spiluðu stærstu nöfnin í boltanum hverju sinni og stefnt væri að því að kaupa nýja stórstjörnu á hverju tímabili. Figo var fenginn frá erkifjendunum í Barcelona og Zidane frá Juventus fyrir metfé. Seinna bættust svo við brasilíski sóknarmaðurinn Ronaldo og loks David Beckham. Stefna þessi skilaði árangri, titlarnir urðu þó nokkrir og velgengnin skilaði svo mikilum hagnaði fyrir félagið með markaðssetningu sem henni fylgdi.

Fljótlega fór að halla undan fæti og titlunum að fækka. Perez hætti sem forseti og hefur Real Madrid verið í talsverðri lægð síðan. Nú er Perez hins vegar tekinn aftur við og er enn við sama heygarðshornið. Kaka, Ronaldo, Benzema og Albiol hafa allir verið fengnir fyrir háar fjárhæðir og líklegt er talið að menn eins og David Villa eða Frank Ribery bætist við. Ljóst er að aftur á að byggja á sömu hugmyndafræði, kaupa stærstu nöfnin og byggja upp markaðssetningu í kringum þau til að standa undir kaupverði og launakröfum leikmanna.

Þær fjárhæðir sem hér um ræðir eru hins vegar svakalegar. Ljóst er að það er á færi fárra liða að borga slíkar fjárhæðir. Eignarhald á knattspyrnuliðum hefur verið að breytast hægt og rólega og eru milljarðamæringar í auknum mæli að kaupa liðin. Þetta veldur því að þau félög, sem eru í eigu milljarðamæringanna, eru í allt annarri stöðu en önnur lið sem spila í sömu deild. Lið í eigu milljarðamæringa geta leyft sér að kaupa leikmenn fyrir svo ótrúlegar fjárhæðir en önnur ekki.

Stórlið á borð við Real Madrid, hafa alltaf borið höfuð og herðar yfir önnur lið Evrópu og því er ekkert nýtt að þau séu í betri samningsstöðu en önnur minni lið. En munurinn milli liðanna hefur líklega aldrei verið meiri en nú, eins og tölurnar sýna. Kaupverð leikmanna og launakostnaður stærstu liðanna eru komnar gjörsamlega upp úr öllu valdi og lítið jafnræði milli liðanna.

Lausn Bandaríkjamanna á þessu vandamáli er einföld. Launaþak er í flestum atvinnuíþróttum Bandaríkjanna og þá er missterkur fjárhagur eigenda liðanna ekki vandamál. Einnig væri hægt að sjá fyrir sér eitthvað hámark á þær greiðslur sem greiddar eru fyrir einstaka leikmenn. Allar slíkar breytingar á reglum knattspyrnunnar eru hins vegar gríðarlega óvinsælar og því ólíklegt að slíkar reglusetningar fái nokkurn tímann að líta dagsins ljós. En hugmyndin er allavega skoðanarverð.

Peningar ráða miklu í nútímaknattspyrnu. Bent hefur verið á að það sé ef til vill ekki bara saga stórliðs Real Madrid sem lokkar alla þessa leikmenn til sín. Annað kemur til eins og lág skattaprósenta á Spáni og hagstætt gengi gjaldmiðla. Slíkt á ekkert skylt við knattspyrnu og því væri ekki vitlaust að koma málum þannig fyrir að slíkum spillandi áhrifum sé haldið utan íþróttarinnar. Vonandi væri þá hægt að leggja aftur áherslu á áhuga leikmannanna á íþróttinni í stað stöðugrar leitar að hæsta launaseðlinum.