Draumaval McCain II

Sara Palin kom sem stormsveipur í bandarísk stjórnmál þegar hún var tilnefnd sem varaforsetaefni Repúblikana. Nú eru hinsvegar vindar byrjaðir að blása á móti þessum umdeilda stjórnmálamanni.

Nú er liðinn rúmur mánuður síðan John McCain tilkynnti val sitt á Söru Palin sem varaforsetaefni sitt fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Val McCain kom bæði Demókrötum og Repúblíkönum í opna skjöldu. Palin var fyrir langflestum algjörlega óþekkt, enda ekki með mikla reynslu í stjórnmálum. Strax í byrjun kom Sara Palin fram sem öflugur frambjóðandi. Hún stóð sig frábærlega á fyrsta frambjóðaendafundi hennar með McCain og enn betur á flokksþingi Repúblikana og vildu margir meina að ný stjarna væri fædd í bandarískum stjórnmálum.

En eftir flokksþing Repúblikana hafa vinsældir Palin dvínað verulega. Reynsluleysi hennar hefur komið bersýnilega fram í viðtölum við fjölmiðla vestanhafs. Viðtal Katie Couric við Söru Palin hefur farið sem eldur í sinu á internetinu, en þar þykja mörg svör Palin kjánaleg og hafa vakið mikla kátínu. Gloria Borger sem vinnur sem álitsgjafi á bandarísku sjónvarpstöðinni CNN sagði eftir viðtalið að það hefði verið átakanlega erfitt að horfa á, en vandarmálið hafi ekki verið svörin hjá Palin heldur virtist sem að hún hafi ekki skilið spurningarnar.

Aðrir sérfræðingar í bandarískum stjórnmálum taka undir orð Borgers og vilja meina að viðtölin gefi það til kynna að hún sé ekki reiðubúin til þess að setjast í stól varaforseta Bandaríkjanna. Þessi gagnrýni hljómar kunnuglega en þetta er að hluta sú sama gagnrýni sem George W. Bush fékk á sig þegar hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hann þótti hafa allt of litla þekkingu á hinum ýmsu málefnum og þá aðallega í utanríkismálum. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hann náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Palin hefur þó greinilega ekki látið þessa gagnrýni trufla sig og stóð sig mjög vel í fyrstu kappræðum varaforsetaefna flokkanna og mun betur en menn áttu von á. Hún svaraði öllum spurningum af öryggi og ljóst að hún hefur verið dugleg að læra heima, enda mikið af upplýsingum á skömmum tíma sem hún hefur þurft að tileinka sér. Framkoma hennar er vinnur líka mjög mikið með henni, hún er ekki eins og þessi týpíski frambjóðandi. Almenningur sér sig sjálfan í henni og hún virðist ekki vera eins fjarlæg og aðrir frambjóðendur. Þetta eru sömu eiginleikar sem voru taldir hafa hjálpað Bush mjög mikið í kosningabaráttu sinni og jafnvel tryggt honum sigur á móti Al Gore.

Því er mikilvægt fyrir Palin, nú þegar rétt tæpur mánuður er til kosninga, að hún setji þessa byrjunarerfiðleika til hliðar og einbeiti sér að sínum kostum og því sem hún hefur fram að bjóða. Þvi þótt að fjölmiðlar séu búnir að skjóta hana í kaf á undanförnum vikum hefur hún ýmislegt fram að færa sem mun nýtast John McCain vel í baráttunni um forsetastól Bandaríkjanna.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)