Ekkert skjól fyrir skipulagt ofbeldi

Við Íslendingar viljum trúa því að samfélag okkar sem meðal þeirra friðsælustu og öruggustu í heiminum og víst er að sú er raunin þegar allt kemur til alls. Hitt er jafn víst að jafnvel á fegurstu eplatrjám finnast skemmd epli og í íslensku samfélagi finnast menn sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem illmennum.

Fréttaskýringarþátturinn Kompás er einn athyglisverðasti þáttur sem sýndur er í íslensku sjónvarpi. Vissulega er vinnubrögð Kompásmanna óhefðbundin og alls ekki hafin yfir gagnrýni en framhjá hinu verður ekki litið að kastljós þáttanna lýsir upp myrkustu skúmaskot samfélagsins, þar sem barnaníðingar og aðrir ofbeldismenn fá verðskuldað á baukinn.

Við Íslendingar viljum trúa því að samfélag okkar sem meðal þeirra friðsælustu og öruggustu í heiminum og víst er að sú er raunin þegar allt kemur til alls. Hitt er jafn víst að jafnvel á fegurstu eplatrjám finnast skemmd epli og í íslensku samfélagi finnast menn sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem illmennum.

Skipulögð ofbeldisstarfsemi, eins og handrukkun, á ekki að líðast í íslensku samfélagi og fullkomlega fráleitt með öllu að lögregluyfirvöld skuli ekki taka fastar á þeim málum en raun ber vitni. Allar refsiheimildir til staðar og því stoðar ekki að benda á löggjafann í þessu tilviki – lögreglan á einfaldlega að sjá um koma þessum mönnum á bakvið lás og slá.

Ritstjóri Kompáss, Jóhannes Kr. Kristjánsson, sætir nú að eigin sögn líflátshótunum í aðdraganda sýningar þáttarins í kvöld, þar sem fjallað verður um meintan handrukkara, Benjamín Þór Þorgrímsson. Í kynningu á þættinum segir að þar verði sýnt myndskeið sem sýnir Benjamín við ofangreinda iðju. Sú röksemd sem lögmaður Benjamíns hefur borið á borð í þeim tilgangi að koma veg fyrir sýningu myndbrotsins, þ.e. að hver maður eigi rétt til eigin myndar, lýsir ekki einungis fullkomnu skilningsleysi á lögunum heldur smekkleysi í áður óþekktum hæðum.

Í nóvember árið 1992 var ofangreindur Benjamín Þór dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa ásamt öðrum aðila nauðgað 13 ára telpu í húsi á Hellissandi þann 1. maí sama ár. Var Benjamín sakfelldur fyrir að hafa með ofbeldi þröngvað telpunni til samræðis við sig með aðstoð hins, en sá færði telpuna úr fötum meðan Benjamín hélt henni fastri, eins og lesa má í frétt Morgunblaðsins.

Fréttaskýringarþátturinn Kompás er ekki og má aldrei verða dómstóll götunnar. Lögreglan verður að hafa dug í sér og burði til að halda uppi lögum og reglum og dómstólar að sakfella hart þá sem tilefni er til. Réttarríkið er hins vegar ekki lokað musteri þar sem engin má segja frá neinu sem gerist. Réttarríkið er opið og gagnsætt, þar sem fjölmiðlar eiga að gegna því hlutverki að lýsa upp skúmaskotin.

Vonandi verður umfjöllun Kompáss til þess að lögreglan taki handrukkara og aðra þá sem stunda skipulagða ofbeldisstarfsemi fastari tökum en nú er gert. Sé umfjöllun Kompás um Benjamín tilefnislaus munu hann og lögmaður hans eflaust hafa ærið tilefni til málshöfðunar. Ef hins vegar fram koma í þættinum vísbendingar, að ekki sé minnst á sannanir, um skipulagða ofbeldisstarfsemi af hálfu þessa manns er ekki minnsta ástæða til að hlífa honum við saksókn og refsingu af hörðustu tegund.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)