Fjölmiðlakóngur í krafti almannafjár

Páll Magnússon er fjölmiðlakóngur Íslands. Ríkisútvarpið ber höfuð og herðar yfir aðra ljósvakamiðla á Íslandi og Páll boðaði í sínum eigin fréttum í gærkvöldi stórsókn ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Tilrauninni með frjálst útvarp á Íslandi virðist lokið eftir rúmlega 20 ára reynslutíma.

Páll Magnússon er fjölmiðlakóngur Íslands. Ríkisútvarpið ber höfuð og herðar yfir aðra ljósvakamiðla á Íslandi og Páll boðaði í sínum eigin fréttum í gærkvöldi stórsókn ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Fréttastofur hljóðvarps og útvarps hafa nú verið sameinaðar í einni fréttastofu sem auk þess fer með fréttaflutning á textavarpi, svæðisstöðvum og síðast en ekki síst á ruv.is, þar sem útvarpsstjóri boðar stórsókn.

Telja verður sennilegt að nýting almannafjár sé betri með sameinuðu fréttastofum og í raun má segja að fyrri tilhögun hafi verið fráleit. Að því leyti ber auðvitað að fagna sameiningu fréttastofanna.

Sú ákvörðun Páls að taka Óðinn Jónsson fram yfir Elínu Hirst sem fréttastjóra hinnar nýju og öflugu fréttastofu RÚV er auðvitað umdeild, eins og jafnan er raunin þegar skipað er í áhrifamiklar stöður. Meiri athygli vekur þó skipan varafréttastjóra þar sem nýir og tiltölulega reynslulitlir fréttamenn veljast til áhrifa.

Ljóst er að Páll Magnússon tekur stjórn Ríkisútvarpsins engum vettlingatökum og hann ætlar sér að styrkja og efla fyrirtækið eftir eigin höfði. Þessir eiginleikar Páls eru lofsverðir og vafalítið mun honum takast ætlunarverkið.

Vandinn er hins vegar sá að Páll Magnússon er ekki að stýra neinu venjulegu fyrirtæki. Hann er að stýra fjölmiðlarisa sem kafað getur í vasa skattgreiðenda eftir þörfum. Hann er að stýra fyrirtæki sem fjármagnað er að stórum hluta með skattfé almennings en er þó óháð þeim reglum stjórnsýslu- og upplýsingalaga sem ætlað er að tryggja hlutlægni og lögfylgni slíkra stofnana.

Ríkisútvarpið stefnir þannig í að vera ríki í ríkinu – geysilega voldug og öflug fjölmiðlasamsteypa sem hefur efni á að hlæja að þeirri veikburða samkeppni sem einkaaðilar reyna að halda uppi. Þeir sem eru fylgjandi auknum áhrifum ríkisins í samfélaginu – ríkismenningu og ríkisfréttum – hljóta að fagna því að hafa fengið slíkan atorkumann sem Páll Magnússon er í sína þjónustu.

Það er hins vegar dapurlegt til þess að hugsa að vorið á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem kviknaði með afnámi einkaréttar ríkisins á útvarpi fyrir tilstuðlan Ragnhildar Helgadóttur og fleiri sjálfstæðismanna um miðjan 9. áratug síðustu aldar virðist á enda runnið. Fjölmiðlakóngur Íslands er ríkisstarfsmaðurinn Páll Magnússon.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)