Þrifaleg, þröng og þrettán

Fyrir nokkru var töluverð umræða í þjóðfélaginu um textann við lag þeirra Baggalútsmanna “Þjóðhátíð ´93” og þótti sumum textinn ansi klúrinn. Spruttu upp deilur á milli feminista og höfunda textans. Sitt sýnist hverjum, en er það nokkuð nýmæli að textar við íslensk dægurlög séu frekar klúrnir?

Fyrir nokkru var töluverð umræða í þjóðfélaginu um textann við lag þeirra Baggalútsmanna “Þjóðhátíð ´93” og þótti sumum textinn ansi klúrinn. Spruttu upp deilur á milli feminista og höfunda textans. Sitt sýnist hverjum, en er það nokkuð nýmæli að textar við íslensk dægurlög séu frekar klúrnir?

Bjartmar Guðlaugsson söng um stelpuna sem var fimmtán ára á föstu, sextán ára í sambúð, og fríkaði svo út þegar hún var orðin sautján ára. Á næstu árum var stúlkugreyið kramin og lamin, er í lagi að syngja um slíkar ófarir unglingsstúlku? Það er ekki ólíklegt að einhver geti tengt atburði úr sínu lífi við þessa sorgarsögu.

Megas bætti heldur betur um betur á plötunni Þrír Blóðdropar. Þar söng hann um stúlkuna sem var þrifaleg, þröng og þrettán. Í því ljóði er því jafnframt líst hvernig stelpan missir meydóminn í tjaldi um verslunarmannahelgi með trukkabílstjóra. Er þetta ekki of gróft?

Meira að segja látúnsbarkinn Bjarni Arason hefur gerst sekur um klám í söngvum sínum. Hann gerðist svo kræfur að syngja að syngja textann hans Sverris Stormskers “Það stendur ekki á mér”, sem ef vel er að gáð er ekkert nema sóðalegt klám. Margur karlmaðurinn sem á við risvandamál að stríða hlýtur að hafa orðið sorgmæddur að heyra sungið um þetta vandamál. En sá hinn sami hefur kannski tekið gleði sína á ný þegar hann hefur hlustað á allt lagið því þar virðist allt fara vel að lokum og söngvarinn kemst frá laginu með reisn.

Í þessari upptalningu minni á dónalegum textum kemst ég varla hjá því að minnast á “Þórsmerkurljóð”, einhvern þann skelfilegasta sora sem saminn hefur verið á íslenska tungu. Þar er fjallað um fyllerí í Þórsmörk, en sá sem yrkir er svo yfir sig hrifinn af einhverri Maríu að hann syngur um hana í lok hvers einasta erindis, skáldið er nánast haldið þráhyggju af dömunni. Að lokum dirfist hann að skipa henni að troða sér inn í tjaldið hjá sér og tilkynnir henni að hann ætli að sofa hjá henni. Hann var ekki að hafa fyrir því að spyrja dömuna.

Það sem ég velti fyrir mér er það, eru því einhver takmörk sett um hvað má yrkja og syngja? Eru komnir svo margir hagsmunahópar í litla samfélagið okkar að skáldin geta varla samið neitt án þess að eiga það á hættu að vera dregin í viðtalsþætti og útskýra hverja línu í verkum sínum. Væri kannski bara best fyrir skáldin að halda sig við að yrkja um ástina og aldrei að snerta á neinum átakafleti sem gætu sært blygðunarkennd viðkvæmra sála?

Latest posts by Hlynur Einarsson (see all)