Berjumst fyrir bættum hag stúdenta

Í dag og á morgun gefst nemendum við Háskóla Íslands kostur á því að kjósa til Stúdentaráðs og Háskólaþings. Tvö framboð bjóða fram að þessu sinni en það eru Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.

Í dag og á morgun gefst nemendum við Háskóla Íslands kostur á því að kjósa til Stúdentaráðs og Háskólaþings. Tvö framboð bjóða fram að þessu sinni en það eru Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta og Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands. Kosningabaráttan í ár hefur verið mjög spennandi og skemmtilegt verður að sjá hvernig kjörsókn í Háskólanum verður eftir sameiningu við Kennaraháskóla Íslands.

Undanfarið ár hefur undirritaður setið sem varaformaður í stjórn Vöku. Yfir árið höfum við staðið fyrir fjölmörgum uppákomum sem hafa bætt hagsmuni stúdenta yfir árið. Félagið stóð fyrir nauðsynlegum breytingum á frumvarpi um opinbera háskóla sem var lagt fyrir síðasta vor og ítarleg skýrsla send á alla alþingismenn, sem og fundur með menntamálanefnd alþingis og ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Félagið hefur einnig rætt við fulltrúa Reykjavíkurborgar, Háskólans og haldið ýmsar uppákomur sem stuðla að því að bæta hag stúdenta við Háskóla Íslands.

Það sem einkennir félagið er sú hugsjón að berjast fyrir bættum hag stúdenta við Háskóla Íslands og eyða ekki tíma Stúdentaráðs í pólitísk þrætuepli sem tengjast ekki hagsmunabaráttu stúdenta. Að mati Vöku á Stúdentaráð að einbeita sér að málum sem varða stúdenta beint, þ.e. eiga við þá sem stúdenta.

Vaka mun aldrei álykta í nafni stúdenta um málefni sem varða þá ekki beint. Því má ekki gleyma að þegar Stúdentaráð ályktar, talar það fyrir hönd allra stúdenta. Vaka telur það ekki vera hlutverk ráðsins að tala fyrir hönd allra stúdenta í stórum þjóðfélagsmálum. Félagið mun nýta þann kraft sem býr í Stúdentaráði til að vinna að bættum hag stúdenta við Háskólann. Við höfum undirbúið okkur vel fyrir kosningarnar sem nú standa yfir og bjóðum fram 38 sterka frambjóðendur sem eru reiðubúnir að leggja sig alla fram til að vinna í þágu nemenda við Háskóla Íslands.

Nú á dögum er mikil ólga í íslensku samfélagi. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikilvægt að hafa traust, öflugt og þverpólitískt Stúdentaráð til að leiða hagsmunabaráttu Stúdenta. Við hvetjum alla kosningabæra stúdenta við Háskóla Íslands að nýta kosningaréttinn sinn og taka upplýsta ákvörðun. Því fleiri sem kjósa því sterkara er Stúdentaráð.

Latest posts by Hlynur Einarsson (see all)