Hjálpum stjórnmálamönnum að hugsa rökrétt

Síðastliðinn fimmtudag stóð Viðskiptaráð Íslands fyrir morgunverðarfundi sem bar yfirskriftina Útþensla hins opinbera. Á fundinum var rætt um og skotið á útþenslustefnu stjórnvalda, sem virðist vera á blússandi siglingu þrátt fyrir að ýmis jákvæð skref hafi verið tekin. Á fundinum kom inn skemmtilegur vinkill, sem gæti hjálpað stjórnmálamönnum að hugsa rökrétt og taka betri ákvarðanir.

Síðastliðinn fimmtudag stóð Viðskiptaráð Íslands fyrir morgunverðarfundi sem bar yfirskriftina Útþensla hins opinbera. Á fundinum var rætt um og skotið á útþenslustefnu stjórnvalda, sem virðist vera á blússandi siglingu þrátt fyrir stefnu ríkisstjórna undanfarna áratugi. Merkilegt að þrátt fyrir mörg mjög jákvæð skref, s.s. lækkun skatta á bæði fyrirtæki og einstaklinga, einkavæðingu fjölmargra fyrirtækja og ýmis önnur mál, þá hafa umsvif hins opinbera þanist út á sama tíma. Eins og réttilega var bent á á fundinum endurspeglast þetta meðal annars í mikilli fjölgun opinberra starfsmanna samanborið við almennan vinnumarkað.

Á fundinum var farið yfir ýmsar hugmyndir til aðhalds og breytinga í þá átt að minnka umsvif ríkisins. Á fundum sem þessum er ekki óvenjulegt að menn komi úr sitthvorri áttinni og bendi á andstæða póla, sem eru raunar iðulega byggðir á pólitískum skoðunum eða öðrum hagsmunum (s.s. viðskiptahagsmunum).

Á umræddum fundi kom þó einnig inn skemmtilegur vinkill, sem verður að teljast ópólitískur og það sem meira er – framkvæmanlegur og jafnvel líklegur til árangurs. Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við háskólann í Reykjavík, benti á möguleikann á því að nota eitt af tækjum og tólum verkfræðinnar (eða hagfræðinnar/fjármálafræðanna/stjórnunarfræðanna eftir því hvernig á það er litið), svokallaða ákvarðanatökugreiningu.

Staðreyndin er einfaldlega sú, að við mannlegu verurnar verðum einfaldlega að viðurkenna að rökrétt og góð ákvarðanataka er ekki okkar sterkasta hlið. Við látum alltof oft tilfinningarnar spila með okkur auk þess sem áhrif annarra (af pólitískum og hagsmunlegum toga), sálrænir þættir s.s. ofmat á eigin getu og fleiri þættir spila inn í. Að mati pistlahöfundar má einnig færa sérstök rök fyrir því að þessi áhrif spili stærri þátt, þegar eigin persónulegir hagsmunir eru ekki almennt í húfi – sem á mun oftar við ákvarðanir innan stjórnsýslunnar en innan einkageirans.

Til þess að aðstoða stjórnmálamenn og embættismenn, benti Þórður á möguleika þess að greina líkur á árangri verkefna, með því að skoða fyrri árangur sambærilegra verkefna innan opinbera geirans. Án þess að nánar verði hér farið út í aðferðafræðina, má með tölfræðilegum aðferðum fá rökræna niðurstöðu um líkur þess að tiltekið verkefni muni haldast innan fjárhags- og tímaáætlunar. Slíkar niðurstöður gætu nýst á tvennan hátt, annars vegar aðstoðað okkur mannlegu greyin til að taka betri ákvarðanir, án sálrænna og utanaðkomandi áhrifa. Hins vegar til að hjálpa Árna Matt að greina líklegar framúrkeyrslur á fjárlögum og taka á þeim í tíma.

Vissulega mun notkun slíkra aðferða aldrei útrýma lélegum ákvörðunum, en það er vissulega vel reynandi að prófa slíkar leiðir til að reyna að fjölga aðeins þeim góðu.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)