Draumaval McCain?

Mikið hefur verið rætt og ritað á undanförnum dögum um val John McCain á Söru Palin sem varaforsetaefni sitt. Útnefningin kom flestum að óvörum enda var Sara Palin aldrei talin líkleg til að hljóta stöðuna.

Sara Palin á sér ekki langa sögu í bandarískum stjórnmálum. Hún hefur verið ríkisstjóri Alaska undanfarin tvö ár og var bæjarstjóri í Wasilla frá árunum 1996-2002, en það er um 7000 manna bær í Alaska. Því kemur það ekki á óvart að hún hafi verið nánast óþekkt fyrir bandarískum almenningi þegar John McCain útnefndi hana sem varaforsetaefni sitt fyrir tæpum tveimur vikum síðan. En frá því að Sara Palin fékk útnefningu um að verða varaforsetaefni Repúblikana í komandi forsetakosningum þá hefur stjarna hennar skinið skært. Strax á fyrsta frambjóðendafundi hennar og McCain sýndi hún hversu rökfastur og frambærilegur stjórnmálamaður hún er. Frammistaða hennar á flokksþingi Repúblikana í Minnesota vakti líka mikla athygli. Hún fékk toppeinkunn fyrir ræðuna sína og vildu margir álitsgjafar bandarískra stjórnmála meina að hér væri risin ný stjarna innan Repúblikanaflokksins.

Sara Palin gefur framboði John McCain ákveðinn kraft. Repúblikanar gefa bandarískum almenningi tækifæri til þess að kjósa konu í varaforsetastól Bandaríkjanna. Mjög greinilegt er að Repúblikanaflokkurinn ætlar að keyra hart á þessu í komandi kosningabaráttu og reyna með því að höfða til þeirra kvenna sem studdu Hillary Clinton í forvali Demókrata. Strax á fyrsta frambjóðendafundi sínum þakkaði Sara Palin, Hillary Clinton, fyrir hennar framlag í þeirri baráttu að koma konu inn í æðstu stöður valdakjarnans í Washington. En jafnframt því að þakka Clinton fyrir hennar framlag, sagðist Palin ætla að taka við kyndlinum og skrá nafn sitt í sögubækurnar og verða fyrsta konan að taka við embætti varaforseta Bandaríkjanna.

Sara Palin nær einnig að styrkja framboð John McCain á fleiri vígstöðum. Hún eykur líkur framboðsins að laða að sér unga kjósendur, en það er hópur sem John McCain hefur átt einna erfiðast með að höfða til. Einnig er talið að hún muni ná að friða hinn hinn íhaldssama arm Repúblikanaflokksins en hann hefur ekki verið mjög hliðhollur John McCain til þessa.

En það er þó ýmislegt sem er ábótavant hjá Söru Palin. Hún hefur í fyrsta lagi mjög litla reynslu á sviði stjórnmála. Hennar helsta stjórnunarreynsla í gegnum tíðina er bæjarstjórastaða í bænum Wasilla sem hefur álíka marga íbúa og Mosfellsbær. Þetta gæti komið Repúblikanaflokknum illa en þeir leggja mikið upp úr því í kosningabaráttu sinni að benda á reynsluleysi Barack Obama. Einnig gætu hinar íhaldsömu skoðanir Palin í pólitískum málum fælt óákveðna kjósendur í burtu frá Repúblikanaflokknum og þá sérstaklega hjá yngri aldurshópum.

Raunin er þó hinsvegar sú að í gegnum tíðina hafa varaforsetaefni flokkanna ekki haft úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninga. Að lokum horfa kjósendur aðallega á þá tvo frambjóðendur sem bjóða sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna. Það séu einstaklingarnir sem skipti raunverulegu máli. En þótt að varaforsetaefnin hafi ekki haft mikil áhrif á úrslit kosninga í gegnum tíðina, þá verður ekki litið fram hjá því að hér eru um sögulegar kosningar að ræða. Ekki bara út af því að Barack Obama getur orðið fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna heldur getur Sara Palin orðið fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna. Því hefur aldrei verið jafn líklegt að varaforsetaefni geti haft veruleg áhrif á úrslit forsetakosninga. Sara Palin gæti verið lykilinn að sigri McCain í nóvember.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)