Smekklaus laxveiði?

Nokkuð hefur verið rætt um ferðir ýmissa ráðamanna í laxveiðiár landsins síðasta sumar. Reyndar hafa laxveiðiferðir ráðamanna og annarra áhrifamanna verið umdeildar í gegnum tíðina, einkum og sér í lagi ef viðkomandi er í boði fyrirtækis eða annarra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta.

Íslenskir fjölmiðlar hafa sagt frá því bæði í dag og í gær að menn sem tengdust eða höfðu tengst Orkuveitu Reykjavíkur hafi farið í laxveiði með fjármálastjóra Baugs í fyrrasumar. Síðar var sameining Geysis Green Energy og REI ákveðin en á þessum tíma var Baugur þriðji stærsti hluthafinn í FL Group, aðaleiganda GGE. Baugur var með viðkomandi á á leigu á umræddu tímabili en þeir OR menn héldu að fyrrverandi stjórnarformaður OR væri að greiða leyfin úr eigin vasa.

Bæði fréttamiðlar og almenningur fylgist tortryggin með og það er eðli mannsins að áætla sem svo að ákveðin brögð séu í tafli. Flestir hugsa líklega að í veiðiferðinni hafi menn setið að ráðum og ákveðið sín á milli hvernig staðið skyldi að sameiningunni og að hún þyrfti að ganga fljótt fyrir sig. Vel má vera að þarna hafi verið um saklaust boð í veiðiferð að ræða en þeir sem fóru í veiðina viðurkenndu að hafa ekki vitað að Baugur hafi borgað veiðileyfin. Einungis hefði verið um vinaferð að ræða og meira að segja endurgreiddi núverandi heilbrigðisráðherra sína ferð til þáverandi stjórnvarformanns OR (Síðar kom fram að Baugur hefði haft ána á leigu á umræddu tímabili og því ólíklegt að stjórnarformaðurinn hefði borgað veiðileyfin úr eigin vasa). Ákveðið prinsipp mál hjá honum eins og mörgum öðrum að þiggja ekki slík boð, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða vini.

Hvað sem laxveiðiferðum líður verða ráðamenn ríkisins, ráðherrar eða aðrir háttsettir ríkisstarfsmenn, að gæta að trúverðugleika sínum. Æðstu embættismenn, þar á meðal borgarstjóra, er óheimilt að þiggja boð af þeim sem borgin á í viðskiptum við. Þá segir m.a. í leiðbeiningum sem fjármálaráðuneytið gaf út í ársbyrjun 2006 að ríkisstarfsmaður skuli ekki þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi hans ef almennt má líta á það sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Sanngjarnt sé að víkja frá þessu ef um afmælisgjafir eða annars konar tækifærisgjafir er að ræða, enda séu verðmæti þeirra innan hóflegra marka. Skal hafa samráð við yfirmann ef vafi leikur á hvort starfsmanni sé heimilt að taka við gjöf.

Hér er það auðvitað undir hverjum og einum starfsmanni ríkis- og sveita að meta hvort viðeigandi sé að fara í boðsferðir. Þau viðmið sem fjármálaráðuneytið setti fram eru góð og gild og ættu allir þeir sem fara með völd í þjóðfélaginu að hafa þau á bak við eyrun. Það gæti þó reynst erfitt ef menn eru hreinlega “gabbaðir” í veiði undir fölskum formerkjum. Kannski að ráðamenn þurfi að vera jafntortryggnir og almenningur og fjölmiðlar.

Hvað sem þessu öllu líður þá er laxveiði hið besta sport og líklega erfitt að slá hendinni á móti slíku boði enda ekki fyrir hvern sem er að kaupa sér veiðileyfi í flottustu ám landsins. Það er jú með veiðina eins og aðra fíkn, hún er mjög ávanabindandi og líklega vita þeir sem í hana bjóða að erfitt er að hafna slíku boði.

Prófessor nokkur í íslenskum bókmenntum við HÍ sagði fyrir um áratug að vitað væri að laxveiði gæti orðið að þvílíkri ástríðu að líkja mætti við fíkn eða sjúkdóm. Sagði hann að kalla mætti þann sjúkdóm „veiðni“. Út frá þeim hugleiðingum setti hann saman eftirfarandi vísu:

Flestir munu óttast eyðni
enda vantar meðul ný,
en geti menn svo greinst með veiðni
gagnar ekkert móti því.

Hvort veiðiferðin hafi verið innan hóflegra verðmarka eða í formi afmælisgjafar má stórlega efast um, en það verður forvitnilegt að fylgjast með hvort Björn Ingi Hrafnsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson sem fóru í veiðina ásamt Guðlaugi Þór borgi sína ferð til baka…..og þá kannski í réttan vasa.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.