Ótrúleg afrek á Ólympíuleikunum

Við setningu Ólympíuleikana í Beijing óraði engan fyrir því að þeir yrðu jafnsögulegir og raun ber vitni. Fjöldi heimsmeta voru slegin og afrek unnin en eitt þeirra mun þó án nokkurs vafa standa upp úr.

Við setningu Ólympíuleikana í Beijing óraði engan fyrir því að þeir yrðu jafnsögulegir og raun ber vitni. Fjöldi heimsmeta voru slegin og afrek unnin en eitt þeirra mun þó án nokkurs vafa standa upp úr.

Fyrst ber að nefna frábæran árangur rússnesku stangarstökkskonunnar Jelenu Isinbajevu sem tryggði sér enn eitt gullið með því að stökkva 5,05 metra. Með því bætti hún bæði ólympíumetið og heimsmetið í þessari grein. Þess má til gamans geta að hún var með þessu að setja sitt sextánda heimsmet á ferlinum og er því nokkuð ljóst að hún ber höfuð og herðar yfir keppinauta sína.

Næst ber að nefna Jamaíkumanninn Usain Bolt sem gjörsigraði keppinauta sína í 100 metra hlaupi á 9.69 sekúndum sem einnig er heimsmet og ólympíumet og var hann einnig að bæta sitt eigið heimsmet. Yfirburðir Bolt voru slíkir að hann endaði hlaupið fagnandi löngu áður en hann kom yfir endamarkið enda var sigurinn aldrei í hættu. Í riðlakeppninni í 200 metra hlaupinu lék hann sama leik og er gert ráð fyrir að heimsmet Michael Johnson sé í hættu þegar kappinn hleypur í úrslitahlaupinu í dag.

Þá kemur að hlut Michael Phelps. Þessi 23 ára sundmaður frá Bandaríkjunum tók sig til og bætti met Mark Spitz yfir flest gull unnin á einum Ólympíuleikum, alls átta talsins. Bætast þau í safn 16 Ólympíuverðlauna sem hann hefur unnið og líklegt er talið að þau geti orðið fleiri með mögulegri þátttöku hans á næstu Ólympíuleikum. Met Phelps er einstakt og er óvíst er að það verði nokkurn tímann bætt.

Þessi afrek eru ótrúleg út af fyrir sig en þau blikna hins vegar í samanburði við hetjulega frammistöðu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum. „Strákarnir okkar“ hafa vart stígið feilspor á leikunum til þessa með stórkostlegum sigri á Þjóðverjum og Rússum, óheppnis tapi gegn Suður-Kóreu, glæsilegu jafntefli gegn Dönum og enn glæsilegra jafntefli gegn Egyptum.

Þegar þetta er skrifað eru enn nokkrir tímar í leik Íslendinga og Pólverja í 8 liða úrslitunum. Íslendingar munu án vafa valta yfir Pólverjana, sem ættu að reynast Íslendingunum lítil fyrirstaða enda verðlaunasæti á Ólympíuleikunum algjört formsatriði að þessu sinni. Annað væri á allan hátt óásættanlegt. Allir í Leifsstöð!