Af kjörum ljósmæðra og lögfræðinga

Ljósmæður hafa nú samþykkt að með yfirgnæfandi meirihluta heimild til verkfallsboðunar. Það er því ljóst að náist ekki samkomulag fyrir 4. september kemur til verkfalls hjá ljósmæðrum. Pirringur ljósmæðra er skiljanlegur ef marka má fréttaflutning og upplýsingar á heimasíðu ljósmæðrafélags Íslands. Svo virðist sem ljósmæðrum sé raðað í launaflokk hjá ríkinu miðað við að menntun þeirra sé 4 ára háskólanám. Til að hljóta starfsréttindi sem ljósmóðir þarf hins vegar samkvæmt lögum að ljúka 6 ára námi, kandídatsprófi í ljósmóðurfræðum. Slíkt nám tekur tvö ár (120 e.) eftir að hafa lokið 4 ára BS námi í hjúkrunarfræði (240 e.).

Ljósmæður hafa nú samþykkt að með yfirgnæfandi meirihluta heimild til verkfallsboðunar. Það er því ljóst að náist ekki samkomulag fyrir 4. september kemur til verkfalls hjá ljósmæðrum.

Pirringur ljósmæðra er skiljanlegur ef marka má fréttaflutning og upplýsingar á heimasíðu ljósmæðrafélags Íslands. Svo virðist sem ljósmæðrum sé raðað í launaflokk hjá ríkinu miðað við að menntun þeirra sé 4 ára háskólanám. Til að hljóta starfsréttindi sem ljósmóðir þarf hins vegar samkvæmt lögum að ljúka 6 ára námi, kandídatsprófi í ljósmóðurfræðum. Slíkt nám tekur tvö ár (120 e.) eftir að hafa lokið 4 ára BS námi í hjúkrunarfræði (240 e.).

Þá kemur fram áhugverður samanburður í grein Báru Hildar Jóhannsdóttur á heimasíðu ljósmæðrafélagsins, á kjörum ljósmæðra og lögfræðinga hjá ríkinu. Grunnlaun ljósmæðra eru samkvæmt henni 35% lægri en grunnlaun lögfræðinga; jafnvel þó lögfræðinám sé 5 ára nám (3 ára BA nám (90 e.) og 2 ára mastersnám (120 e.)) borið saman við 6 ára nám ljósmæðra. Á þessu er engin rökrétt skýring; ekki getur verið að þjóðfélagið meti störf ljósmæðra minna en störf lögfræðinga?

Þá má minna á stjórnarsáttmálann sem tekur sérstaklega á kjörum svokallaðra kvennastétta, en þar segir orðrétt: „Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta“. Þetta getur varla átt betur við en hjá ljósmæðrum, enda skilst mér að enginn karlmaður starfi sem ljósmóðir hér á landi.

Ljósmæður eiga rétt á leiðréttingu.

En það eru aðrar og fleiri leiðir til úrbóta, sem ljósmæður ættu að líta til þegar þessi orrusta hefur verið háð til enda. Ein er að ljósmæður taki sig til og hefji einkarekstur á sínu sviði. Það er ekki heilög staðreynd að fæðingar þurfi að fara fram á hátækni háskólasjúkrahúsi í opinberum rekstri, né að mæðravernd sé rekin af opinberum aðilum. Þvert á móti er hér vera um kjörin vettvang að ræða til að láta einkaframtakið njóta sín í heilbrigðisgeiranum. Verðandi foreldrar geti valið hjá hverjum þeir sæki mæðravernd og hvar og hvernig þau ala barn sitt. Það er óhætt að fullyrða að eftirspurn yrði eftir fjölbreytilegri valmöguleikum en Landspítala háskólasjúkrahúsi til að fæða barn í Reykjavík, þó ekki væri nema vegna „spítalalyktarinnar“ og „matarins“. Ljósmæður mundu þar með losna úr launaflokkafangelsi ríkisins og fá aukið forræði yfir kaupi og kjörum.

Önnur leið er kannski að breyta starfsheitinu í „ljósfaðir“ og hvetja karlmenn til starfa í faginu.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.