Grafið undan alþjóðalögum í Georgíu

Á meðan heimsbyggðin fylgdist með upphafi Ólympíuleikanna í Kína gerði rússneski herinn vel skipulagða leifturinnrás í hið fullvalda nágrannaríki sitt, Georgíu. Ásakanir um hvoru megin átökin hófust hafa gengið báða bóga og ekki er fullljóst hver fer þar með rétt mál. Virðing fyrir alþjóðalögum og úrlausn vandamála með diplómatískum samningum standa veikari eftir.

Á meðan heimsbyggðin fylgdist með upphafi Ólympíuleikanna í Kína gerði rússneski herinn vel skipulagða leifturinnrás í hið fullvalda nágrannaríki sitt, Georgíu. Ásakanir um hvoru megin átökin hófust hafa gengið báða bóga og ekki er fullljóst hver fer þar með rétt mál. Í kjölfar harðra átaka í Suður-Ossetíu réðist her Georgíu inn í héraðið, sem er hluti af landsvæði Georgíu en hefur lengi sóst eftir sjálfstæði.

Rússar halda því fram að innrás Georgíu hafi verið kveikjan að hernaðaraðgerðunum en Saakashvili, forseti Georgíu, heldur því fram að her Georgíu hafi einungis farið inn í Georgíu eftir að í ljós kom að Rússar væru á leið í gegnum Roki göngin með skriðdreka og þungavopn. Roki göngin, sem liggja í gegnum Kákasusfjöll á landamærum Rússlands og Georgíu, hafa lengi verið umdeild, og hafa yfirvöld í Georgíu sakað Rússa um að nýta þau til flutninga á hergögnum fyrir aðskilaðarsinna í Suður-Ossetíu.

En óháð því hvorir áttu upptökin á þessum tiltekna degi eru aðrir hlutir sem sem vega meira en atburðarásin klukkustundirnar upp úr miðnætti aðfaranótt 8. ágúst. Í fyrsta lagi sýnir umfang og snerpa í aðgerðum Rússa svo ekki verður um villst að aðgerðir þeirra voru fyrirfram skipulagðar. Georgía hefur lengi kvartað yfir hernaðaruppbyggingu og heræfingum Rússa á landamærunum, fyrir daufum eyrum vesturlanda. Markmið Rússa var ljóslega að ögra Georgíu og nýta aðgerðir Georgíu sem yfirskin fyrir yfirgripsmikla árás sína, þar sem þeir réðust langt út fyrir þau svæði sem um er deilt, og hafa kerfisbundið eytt herafla Georgíu. Þrátt fyrir að báðir aðilar hafi samþykkt vopnahlésskilmála á föstudaginn eru hermenn Rússa enn djúpt inni í Georgíu og sýna ekki á sér fararsnið. Þrýstingur Bandaríkjamanna og annarra ríkja kann þó að valda breytingu þar á. Það er vonandi að það gerist sem fyrst, og ekki verði úr þessu ólöglegt hernám fullvalda ríkis til lengri tíma.

Og í viðbrögðum umheimsins liggur einmitt kjarni málsins: Fyrir Rússum liggur meira undir en lítið hérað undir Kákasusfjöllum. Aðgerðirnar eru hluti af tilburðum Rússlands til að stimpla sig aftur inn sem stórveldi, eftir langan tíma þar sem þeir hafa mátt þola það sem þeir túlka sem yfirgang og einokun Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi. Rússar hika ekki við að bera aðstæðurnar í Georgíu saman sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo annars vegar, og innrás Bandaríkjamanna í Írak hins vegar, til að réttlæta aðgerðir sínar.

Hugmyndin á bak við slíkar samlíkinar virðist vera sú að þar sem Bandaríkjamenn hafi farið þá leið að fylgja alþjóðalögum aðeins þegar það hentar þeim þá ætli Rússar sér að gera slíkt hið sama. Slíkt viðhorf er auðvitað afleitt, og ber að fordæma. Því verður þó ekki neitað að þær ranghugmyndir sem Bandaríkjamenn höfðu í aðdraganda Íraksstríðsins, um að alþjóðalög og alþjóðasamstarf væri eingöngu til trafala, hafa ekki gert heimsbyggðinni auðveldara að gagnrýna Rússa.

Því verður heldur ekki neitað að framkoma Georgíu gagnvart Abkasíu og Suður-Ossetíu hefur ekki verið til fyrirmyndar. Þessi svæði lentu innan landamæra Georgíu við það að Sovétríkin liðuðust í sundur, en íbúar þeirra hafa aldrei litið á sig sem Georgíubúa. Ýmis rök hníga að því að veita eigi þessum landssvæðum sjálfsstjórn. Ákvörðun um sjálfstæði þessara svæða verður þó að byggja á grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðarbrota, en ekki á yfirgangi nágrannaríkis í stórveldaleik. Slíkt grefur undan virðingu fyrir alþjóðalögum og úrlausn vandamála með diplómatískum samningum, og er skref aftur á bak í alþjóðasamskiptum.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)