Þvílíkt og annað eins!

Þá er enn ein Þjóðhátíð í eyjum að baki. En þvílíkt og annað eins! Veltandi ungmenni um allar brekkur, spúandi galli eins og múkkar. Annar hver gestur búinn að míga á sig. Þjóðhátíðargestir ranka við sér á frídegi verslunarmanna og muna lítið sem ekkert eftir helginni en halda að það hafi verið gaman, allavega er allur landinn búinn og þá hlýtur að hafa verið gaman. Þjóðhátíðarpæjurnar drífa sig í apótekið og taka eftirápilluna. Peyjarnir biðja til guðs og allra hans lærisveina og vona að þeir fái ekki símtal í bráð sem mun breyta lífi þeirra að eilífu.

Þá er enn ein verslunarmannahelgin að baki, Þjóðhátíð í eyjum stóð fyrir sínu. En þvílíkt og annað eins, veltandi ungmenni um allar brekkur, spúandi galli eins og múkkar. Regngallinn gerir lítið gagn þar sem annar hver gestur er búinn að míga á sig. Þjóðhátíðargestir ranka við sér á frídegi verslunarmanna og muna lítið sem ekkert eftir helginni en halda að það hafi verið gaman, allavega er allur landinn búinn og þá hlýtur að hafa verið gaman. Þjóðhátíðarpæjurnar drífa sig í apótekið og taka eftirápilluna. Peyjarnir biðja til guðs og allra hans lærisveina og vona að þeir fái ekki símtal í bráð sem mun breyta lífi þeirra að eilífu.

Þessa sögu höfum við margoft heyrt af Þjóðhátíð, um þetta er skrifað á síðum blaðanna og rætt um í umræðuþáttum. Afhverju eru aðstandendur þessara hátíða að standa í þessu ár eftir ár, afhverju ekki bara að hætta að halda þessar viðbjóðslegu útihátíðir?

Ég tók Herjólf í hádeginu á fimmtudeginum fyrir glensið. Fór heim til ömmu og afa í Vestmannaeyjum og kom mér þar fyrir. Því næst var haldið inn í dal og tekið þátt í tjaldsúlukapphlaupinu, þar sem heimamenn keppast um að ná sem bestu svæði fyrir hvíta tjaldið sitt. Um kvöldið fór ég svo heim til frænku minnar og tók þátt í að smyrja samlokur og flatkökur til þess að eiga í tjaldinu yfir hátíðina, pakka inn lunda og klára að yfirfara húsgögnin fyrir tjaldið.

Á föstudeginum fór ég á fætur fyrir hádegi og fór með pabba og frændfólki inn í dal með tjalddúkinn og húsgögnin, við kláruðum að tjalda, drifum okkur heim í betri fötin og vorum mætt öll saman á setningu hátíðarinnar á slaginu 14:30. Lúðrasveitin og hátíðarræðan voru með betra móti. Söngvakeppni barnanna tók við að setningu lokinni, við fjölskyldan komum okkur vel fyrir í brekkunni og horfðum á unga eyjapeyja og eyjapæjur spreyta sig við míkrófóninn, stórgóð skemmtun. Þá var að drífa sig heim í mat, skella sér í gallann fyrir kvöldið, bjórinn settur í bakpoka og arkað af stað inn í dal.

Við komum okkur vel fyrir í brekkunni og horfðum á mjög svo fína dagsrká kvöldsins og sötruðum bjór með ættingjum og vinum. Yngsta kynslóðin í fjölskyldunni var að sjálfsögðu með í för og skemmti sér konunglega. Við horfðum saman á brennuna. Eftir hana var farið með börnin í pössun hjá ömmu og afa en foreldrarnir drifu sig aftur inn í dal. Inni í hvíta tjaldi voru gítar og söngbækur tekin upp og eyjalögin sungin í bland við rjómann af íslenskum partýlögum langt fram undir morgun. Þá var kominn tími til að drífa sig heim og leggja sig eftir frábæra nótt í dalnum.

Á laugardeginum var farið á fætur um hádegi og farið með yngstu kynslóðina inn í dal og horft á Brúðubílinn og tekið þátt í barnaballinu. Föstudagsrútínan endurtók sig um kvöldið og á sunnudeginum var dagskráin keyrð í síðasta sinn þetta árið. Allir voru í skýjunum á mánudeginum, jafnt börn sem fullorðnir, allir skemmtu sér konunglega.

Það er sjaldan fjallað um þessa gerð af þjóðhátíð sem svo margir þekkja, það er einfaldlega ekki nógu krassandi fréttaefni. Það hljóta einhverjir að hafa gist fangageymslur, var ekki örugglega allt flæðandi í dópi? Hvað er svo sem merkilegt við það að fjölskyldan hafi skemmt sér frábærlega saman á fjölskylduhátíðinni Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum?

Latest posts by Hlynur Einarsson (see all)