Glámbekkur eða ekkert?

Í umræðu um framlagningu skattskráa virðist gleymast að auðveldlega mætti standa vörð um friðhelgi einkalífsins en veita að sama skapi ópersónugreinanlegar upplýsingar um þróun launa í samfélaginu.

Eins og áður tóku skattayfirvöld sig til og framreiddu upplýsingar um skatttekjur landsmanna og þá sem hæst greiða gjöldin núna um mánaðarmótin. Frjáls verslun og Mannlíf gefa svo út sérstök tölublöð með matreiddum upplýsingum úr skattskránni, þar sem áætlaðar eru tekjur á nokkur þúsund Íslendinga.

Í leiðara á Deiglunni um daginn var fjallað um framlagningu skattskránna og því velt upp hvort ekki myndi eitthvað heyrast ef samskonar aðferðum væri beitt með heilsufarsupplýsingar landsmanna. Fylgismenn núverandi fyrirkomulags verða að átta sig á því að upplýsingar um launatekjur manna eru einmitt persónulegar upplýsingar um hvern og einn.

Þessi ótrúlega meðferð persónuupplýsinga af hálfu yfirvalda er svo varin með ýmsum rökum. Sum þeirra byggja á forneskjulegum hugmyndum um að eftirlit með skattsvikum aukist með því að láta upplýsingarnar liggja frammi. Önnur rök eru að í því felist einhvers konar réttlæti að fólk fái innsýn inn í laun annarra, sérstaklega þeirra sem hæst hafa launin.

Hvorttveggja er auðvitað fáranlegt. En það sem helst stendur eftir af er að upplýsingar um laun geta veitt ákveðnar vísbendingar um launakjör á tilteknum sviðum. Þannig er það að mörgu leyti eðlileg ósk og þarf ekki að vera til marks um hnýsni að reyna að átta sig á því hver hefðbundin launakjör í ákveðinni stétt eru. Slíkar upplýsingar geta komið að gagni í launaviðtölum og auðveldað fólki að átta sig á því hverjar sanngjarnar launakröfur eru sem og hvaða launamöguleikar eru á viðkomandi sviði.

Þessi staðreynd er aftur á móti ekki rök fyrir núverandi ástandi. Þetta er þvert á móti enn ein ástæðan til þess að hætta að gera launaupplýsingar nafngreindra aðila opinberar enda skipta einstakar persónur ekki máli í þessu sambandi heldur heildarmyndin.

Til þess að launaupplýsingar komi að einhverju gagni verður að vera búið að vinna þær. Það er ekki mikið gagn í því fyrir þann sem vill afla sér yfirsýnar um launakjör í sinni starfstétt að fá í hendurnar þykka möppu með allskonar nöfnum og tölum sem enga heildarmynd sýna. Í öðru lagi er það svo að núverandi fyrirkomulag hindrar fjölmarga í því að reyna að afla sér slíkra upplýsinga einfaldlega vegna þess að þeir kunna ekki við að fara og hnýsast í persónugreinanlegar launaupplýsingar. Í þriðja lagi má benda á að vonlaust er að átta sig á beinum launatekjum út frá þeirri framsetningu sem Frjáls verslun og Mannlíf beita enda taka blöðin heildartekjur hvers einstaklings fyrir síðasta skattár, sem geta verið tekjur vegna sölu hlutabréfa eða aðrar skattskyldar tekjur en beinar launagreiðslur, deila í með 12 og setja fram sem mánaðarlaun.

Það er því í raun tiltölulega einföld leið til þess að viðhalda upplýsingagildinu en standa í leiðinni vörð um sjónarmið um friðhelgi einkalífsins. Hún er sú að unnar séu ópersónugreinanlegar upplýsingar um launakjör á ákveðnum sviðum samfélagsins sem gefa þeim sem vilja kynna sér málið ákveðið yfirlit um launakjör og launaþróun á viðkomandi sviði. Þetta gætu t.d. verkalýðsfélög, Vinnumálastofnun eða hreinlega skattyfirvöld sjálf séð um. Þar þyrfti sá sem vildi afla sér slíkra upplýsinga ekki að lesa sér til um hvað Hreiðar Már eða náunginn á næsta borði í vinnunni þénar heldur gæti sá hinn sami fengið gagnlegar upplýsingar um tekjumöguleika á sínu starfssviði sett fram með almennum hætti.

Það er engin ástæða til að setja stöðuna upp þannig að aðeins séu tveir möguleikar í stöðunni; að þessar persónulegu upplýsingar liggi á glámbekk fyrir allra augum eða að ekki sé unnt að vita svo mikið sem meðallaun í þjóðfélaginu. Slíkur málflutningur þjónar enda helst þeim stjórnmálamönnum sem eru farnir að gerast áskrifendur að árlegri fjölmiðlaumfjöllun og athygli þegar skattaupplýsingarnar eru gerðar opinberar.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.