ESB er ekki alltaf sama tóbakið

Þegar mögulegri aðild Íslands að ESB er velt upp er því gjarnan spáð að ýmiss konar aðlaganir og undanþágur fáist fyrir okkar hönd. Það sem stundum gleymist er að sambandið er á fleygiferð í átt að auknum pólitískum samruna þar sem áhrif einstakra aðildarríkja fara þverrandi. Þessi hugsunarháttur sést ágætlega í nýlegum tillögum forystu sambandsins varðandi sölu tóbaks.

Laszlo Kovacs, sem sér um skattamál innan framkvæmdastjórnar ESB, kynnti nýlega hugmyndir stjórnarinnar um að hækka gjaldlagningu á tóbak í Evrópu. Þessar hugmyndir ganga út á að gjald, sem sambandið leggur á tóbak, verði hækkað verulega og sérstaklega fyrir þau lönd sem búa við hvað lægst verðlag.

Haft er eftir Kovacs í þessari frétt EU-Observer að tillögurnar, sem eiga að taka gildi á næstu 5-6 árum, myndu þýða að verð hækki um allt að 50% í nýju aðildarríkjum sambandsins en minna í þeim eldri. Hækkunin í Póllandi yrði t.d. um 46% en aðeins um 6% í Danmörku og Finnlandi. Í reynd myndu tillögurnar færa verðlagningu á sígarettum og tóbaki í Póllandi og austurhluta álfunnar til þess sem gengur og gerist í ríkustu aðildarríkjum sambandsins. Að vísu munu laun og kaupmáttur þeirra sem reykja í austari hluta álfunnar ekki hækka sem hluti af þessari aðgerð, en hver er að spá í smáatriðin?

Þessar tillögur fela í sér að unnið er að framgangi heilbrigðismarkmiða Evrópusambandsins, sem fela m.a. í sér baráttu gegn reykingum. Kovacs vísar í fréttinni til ráðlegginga Alþjóðabankans um að besta forvörnin gegn reykingum sé hátt verðlag. Og hann deyr ekki ráðalaus varðandi austantjaldslöndin sem þurfa að hækka sitt verð mun meira en aðrar þjóðir – gildistíma breytinganna yrði frestað í eitt, jafnvel tvö ár. Ótrúlegt örlæti!

Önnur frétt á sama vef – EU-Observer – greinir frá því að Avril Doyle, þingmaður á Evrópuþinginu, hafi lýst því yfir að hún vildi vinna að banni á sölu tóbaks í Evrópu árið 2025. Þessari hugmynd kastaði hún fram á ráðstefnu á dögunum en ráðstefnan fjallaði um hvernig mætti koma í veg fyrir að fulltrúar tóbaksfyrirtækjanna stunduðu lobbýisma gagnvart evrópskum þingmönnum. Fram kemur í fréttinni að hugmyndinni hafi verið tekið með lófataki og að í salnum hafi verið fjöldi þingmanna af Evrópuþinginu.

Doyle, sem er írsk, tilheyrir European People’s Party (EPP), sem er stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu. EPP stefnir að því að gera Evrópusambandið að sambandsríki í ætt við Bandaríkin.

Nú skal tekið fram að hugmyndir Kovacs og Doyle eru enn sem komið er tillögur og alls óvíst hvort þær taki gildi. En tillögurnar sýna fyrst og fremst þann hugsunarhátt og þá stemningu sem ríkir meðal forystunnar í Brussel og kjörinna fulltrúa þegar kemur að hlutverki sínu og umsvifum. Evrópusambandið hefur tekið upp á arma sína sífellt fleiri samfélagsleg markmið, s.s. baráttu gegn reykingum, og er óhrætt við að beita sér með reglusetningu þvert yfir álfuna.

Fólk hefur eflaust ýmsar skoðanir á því hvort og þá hvernig best sé að opinbert vald beiti sér gagnvart reykingum og sölu tóbaks. En væri ekki í öllu falli ákjósanlegt að reglur sem snerta okkur jafnmikið og mögulegt bann við sölu tóbaks yrðu settar (eða þá ekki settar) af okkar eigin kjörnu fulltrúum? Er eðlilegt að evrópskir þingmenn setji reglur sem þessar? Eru ákvörðunum um jafnhversdagslegan hlut og reykingar ekki betur komið á hendi viðkomandi stjórnvalda frekar en ókjörinna embættismanna í Brussel?

Sjónarmið um vægi aðildarríkjanna virðast ekki heyrast ýkja hátt innan veggja Brussel enda kannski ekki við öðru að búast þegar stærsti flokkurinn á Evrópuþinginu hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að skapa sambandsríkið Evrópu. Þar verður nefnilega afar takmarkað svigrúm fyrir duttlunga einstakra aðildarríkja. Í sambandsríkinu verður það Brussel sem mun knýja áfram hinar pólitísku breytingar í álfunni og það ekki bara á sviði viðskipta og verslunar heldur á nánast öllum sviðum mannlífsins.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.