Í skugga Blairs

Nú er rúmlega ár liðið frá því að Gordon Brown tók við embætti
forsætisráðherra Bretlands af Tony Blair. Miklar vonir voru bundnar við
Brown, en fyrirfram var vitað að erfitt mundi verða fyrir hann að feta í
fótspor Blairs.

Tony Blair var almennt talinn hafa staðið sig vel á þeim tíu árum sem hann
gegndi embætti forsætisráðherra og þá sérstaklega á fyrri hluta
tímabilsins. Þrátt fyrir að hann hafi verið gagnrýndur fyrir hinar ýmsu
ákvarðanir á valdaferli sínum þá verður þó ekki tekið af honum að undir
hans stjórn náðist góður árangur á mörgum sviðum í Bretlandi og þá
sérstaklega í efnahagsmálum. Einnig var árangur Blairs í friðarviðræðum á
Norður-Írlandi mjög árangursríkur og jafnan í utanríkismálum þótti Blair
standa sig vel og átti í mjög góðu sambandi við þjóðarleiðtoga stærstu
ríkja heimsins.

Gordon Brown tók við frekar góðu búi af Blair. Mikill þrýstingur hafði
reyndar verið á Blair að stíga af stóli forsætisráðherra. Hans persónulega
fylgi fór á seinni hluta valdatímabilsins að dala, bæði meðal almennings
og flokksmanna í Verkamannaflokknum. Fylgi Verkamannaflokksins var einnig
byrjað að minnka í skoðanakönnunum og því var talið gott fyrir flokkinn að
nýr maður, með ný mál og nýjar áherslur mundi taka við forystu hans og
leiða til næstu kosninga.

Byrjunin á valdaferli Gordons Browns byrjaði mjög vel en almenn ánægja
virtist ríkja í Bretlandi yfir því að nýr maður væri sestur í
forsætisráðherrastólinn. Þessi ánægja endurspeglaðist í auknu fylgi
Verkamannaflokksins í skoðanakönnunum en rúmlega mánuði eftir að Brown
varð forsætisráðherra þá mældist fylgi Verkamannaflokksins 42%, en það var
þá besta fylgismæling flokksins í rúm fimm ár. Persónulegt fylgi Browns
mældist einnig mjög hátt eða um 65%.

En svo virðist sem að allt hafi gengið á afturfótunum hjá Gordon Brown
eftir þessa veglega byrjun og hinu sönnu leiðtogahæfileikar hans komið í
ljós. Því með Brown komu engin ný mál eða nýjar áherslur eins og
almenningur vonaðist eftir. Undir hans stjórn hefur Verkamannaflokkurinn
verið eins og stefnulaust rekald. Brown virðist hafa fallið algjörlega í
skuggann á Tony Blair. Jafnvel á erfiðustu tímum Blairs í embætti virðist
sem að hann hafi verið betri leiðtogi en Brown.

Brown hefur ekki tekist að selja stefnu Verkamannaflokksins eins og Tony
Blair náði oft á tíðum að gera. Hann hefur ekki þann sjarma sem Blair
hafði og virkar þurr og leiðinlegur í viðtölum við fjölmiðla. Hann hefur
ekki heldur tærnar sem Blair hafði hælanna í ræðumennsku og svo virðist
vera að það mundi henta Brown betur að lesa inn á dáleiðsluspólur en halda
ræður á breska þinginu. Brown virkar á almenning sem litlaus, leiðinlegur
og þreyttur stjórnmálamaður.

Nýjustu skoðanakannanir benda einnig til þess að valdatímabil Gordons
Browns verði stutt. Fylgi Verkamannaflokksins er nú í sögulegu lágmarki og
er tæp 24% og hefur því minnkað um helming frá fyrstu könnun Browns. Á
meðan er fylgi Íhaldsflokksins í hámarki og var í síðustu mælingu um 49%.
Svo virðist sem að Íhaldsflokkurinn eigi sigurinn vísan í næstu
þingkosningum og að David Cameron setjist á stól forsætisráðherra. Þá
fyrst munum við byrja að sjá breytingar í breskum stjórnmálum.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)