Óli á Ól

Ólafur Ragnar Grímsson ætlar að standa uppi á palli við hliðina á kínverskum stjórnvöldum, brosa og veifa til mannfjöldans, og gerast þar með áróðurstæki kínverskra stjórnvalda. Það er vonandi að aðrir íslenskir ráðamenn hermi ekki þetta eftir forsetanum.

Ólafur Ragnar Grímsson ætlar að mæta á Ólympíuleikana í Kína. Ekki mun hann hafa náð ólympíulágmörkum í neinni keppnisgreininni en mun mæta í krafti embættis síns sem fulltrúi íslensku þjóðarinnar. Sem fulltrúi íslensku þjóðarinnar ætlar hann að fylgjast með íslensku frjálsíþrótta- og sundfólki falla úr keppni í undanriðlum og verða viðstaddur þegar handboltalandsliðið bregst vonum íslensku þjóðarinnar. En fyrst og fremst ætlar hann að standa teinréttur á palli með fulltrúum stjórnvalda í Kína þegar lokahátíðin fer fram. Þar fær hann góðan stað, við hlið annarra fyrirmenna, til þess að horfa á flugeldana (sem réttlausir verkamenn setja saman við ömurlegar aðstæður) springa fyrir ofan leikvangana (sem byggðir eru á svæðum þaðan sem fólk var flutt nauðungarflutningum til að rýma fyrir dýrðinni) og fylgjast með þúsundum listamanna dansa í dásamlegum takti (sem sýnir hversu mikilfenglegt það er þegar stór hópur einstaklinga lýtur einum vilja og valdi og hlýðir fyrirskipunum en þeir böðlast ekki hver í sínu horni við að fylgja sínum eigin fánýtu draumum með sínum eigin klunnalegu aðferðum).

Ólympíuleikarnir í Kína eru stórfenglegt áróðurstæki fyrir hin harðráðu stjórnvöld í Kína. Og til þess að tryggja að ekkert skyggi á dýrðarmyndina hafa stjórnvöld innleitt ennþá meiri höft á tjáningarfrelsi en áður og við undirbúning leikanna hefur vilji og réttur einstaklingsins verið metinn léttvægur. Mannréttindabrot hafa verið framin við undirbúning leikanna, eins og fram hefur komið í skýrslum mannréttindasamtaka.

Af þessum sökum hefur það verið talið pólitískt álitamál hvort stjórnvöld í lýðræðisríkjum eigi að senda fulltrúa sína í veislur tengdar þessum leikum. Hér á Íslandi virðist sem ómakið hafi verið tekið af stjórnvöldum. Fulltrúi Íslands hefur sjálfur ákveðið að mæta og þiggja sameiginlegt boð Hu Jintao, forseta Kína, og Íslensku ólympíunefndarinnar. Þetta er dapurleg ákvörðun og óþörf. Með henni hefur Ólafur gert sjálfan sig – og íslensku þjóðina um leið – að áróðurstæki í höndum grimmrar alræðisstjórnar.

Það er vonandi að aðrir ráðamenn hermi þetta ekki eftir forsetanum. Opinber þátttaka fulltrúa stjórnvalda á ekkert skylt við Ólympíuleikana eða íþróttir almennt. Sérstaklega á þetta við í þessu tilviki, enda ætti ofuráhersla kínverskra stjórnvalda á mætingu útlenskra ráðamanna, að vekja grunsemdir um hvað raunverulega vakir fyrir þeim.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.