Mislangur hringur

Sumarið 2007 voru kynntar mótvægisaðgerðir vegna skerðingar þorskkvóta. Hluti af þessum aðgerðum var uppbygging vegarins um Öxi sem átti að gera að heilsársvegi. Í kjölfarið var enginn maður með mönnum nema endurtaka þá merkingarlausu þulu að með þessu næðist ekki aðeins fram stytting á veginum milli Héraðs og Djúpavogs heldur einnig 60 km stytting á hringveginum Á meðan hristu kunnugir höfuðið enda veit það hver sem vilja vill að vegurinn liggur um Breiðdalsheiði en ekki Öxi og því engin stytting á hringveginum innifalin í þeirri ákvörðun að leggja uppbyggðan Axarveg.

Sumarið 2007 voru kynntar mótvægisaðgerðir vegna skerðingar þorskkvóta. Hluti af þessum aðgerðum var uppbygging vegarins um Öxi sem átti að gera að heilsársvegi. Í kjölfarið var enginn maður með mönnum nema endurtaka þá merkingarlausu þulu að með þessu næðist ekki aðeins fram stytting á veginum milli Héraðs og Djúpavogs heldur einnig 60 km stytting á hringveginum Á meðan hristu kunnugir höfuðið enda veit það hver sem vilja vill að vegurinn liggur um Breiðdalsheiði en ekki Öxi og því engin stytting á hringveginum innifalin í þeirri ákvörðun að leggja uppbyggðan Axarveg.

Umræðan um þjóðveg nr. 1 eða hringveginn eins og hann er einnig kallaður er oft á villigötum líkt og í það litla dæmi sem ég rak hér að ofan sýnir okkur. Menn virðast leggja ofurkapp á það að stytta þennan vegaspotta sem hringar sig um eyjuna okkar og gefur okkur færi á að ferðast landshluta á milli án teljandi fyrirhafnar eins og það sé það atriði sem mestu skiptir fyrir þróun og framtíð vegarins.

Mikilvægasta umræðan sem taka þarf um hringveginn snýst þó ekki að því hvort hann sé einum kílómetranum lengri eða styttri heldur um eðli hans og hlutverk.

Að mínu viti eigum við að leggja þá merkingu í hlutverk hringvegarins að hann þjóni straumi ferðamanna sem ferðast vill um landið. Í því felst að hann liggi um sem flesta þéttbýlisstaði og eftir þeirri leið sem öruggust er og auðveldust yfirferðar á hverju svæði. Lengd hans í kílómetrum séð skiptir minna máli í þessu sambandi enda er það svo að sé það vilji manna að þjóðvegur nr. 1 liggi þann hring sem styst er frá Reykjavík til Reykjavíkur má fyrirhafnarlítið breyta númerakerfi íslenskra vega með þeim hætti að Þingvallahringurinn fái fyrsta tölustafinn og vinna sig svo út frá því.

Það er staðreynd að ferðamenn fylgja oft þjóðvegi nr. 1 á ferð sinni um landið sem eðlilegt er enda staðkunnátta þeirra ekki á pari við heimamenn í flestum tilfellum. Við eigum að byggja enn frekar á þessu og taka þá meðvituðu ákvörðun að þjóðvegur nr. 1 verði ferðamannavegur fyrst og síðast og leggja þá til hliðar við hann þær fjölbreyttu leiðir sem stytta mega ferðaþreyttum leiðina kjósi þeir svo.

Til þess þarf ákvörðun meðal ráðamanna á þessu sviði en ekki síður eftirfylgni og trúfesti við þá ákvörðun. Nokkuð sem oft hefur reynst örðugt þegar kemur að samgöngumálum enda ákvarðanataka á því sviði knúin áfram í meiri mæli af þrýstihópum sem myndast um einstaka vegaspotta og kílómetratölur heldur en faglegri yfirlegu og stefnufestu.