Er stríð við Íran í nánd?

Líkurnar á því að Bandaríkjamenn eða Ísraelsmenn ráðist á kjarnorkumannvirki í Íran virðast vera að aukast hratt. Líkurnar á slíkri árás fyrir lok árs er nú 32% samkvæmt intrade.com og hafa hækkað jafnt og þétt síðustu vikur og mánuði. Fregnir herma að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi stóraukið leynilegar aðgerðir innan Íran á undanförnum mánuðum til þess að undirbúa árás. Mjög skiptar skoðanir eru hins vegar um skynsemi þess að ráðast á Íran innan stjórnkerfis Bandaríkjanna.

Líkurnar á því að Bandaríkjamenn eða Ísraelsmenn ráðist á kjarnorkumannvirki í Íran virðast vera að aukast hratt. Líkurnar á slíkri árás fyrir lok árs er nú 32% samkvæmt intrade.com og hafa hækkað jafnt og þétt síðustu vikur og mánuði. (Fyrir um tveimur mánuðum voru líkurnar taldar 20%.)

Fregnir herma að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi stóraukið leynilegar aðgerðir innan Íran á undanförnum mánuðum til þess að undirbúa árás. Mjög skiptar skoðanir eru hins vegar um skynsemi þess að ráðast á Íran innan stjórnkerfis Bandaríkjanna.

Tilgangur árásar á Íran væri að eyðileggja kjarnorkumannvirki Írana og þannig tefja fyrir því að Íranir geri komið sér upp kjarnorkuvopnum. Líklegast er að um loftáras yrði að ræða. Margir háttsettir aðilar innan stjórnkerfis Bandaríkjanna hafa hins vegar dregið skynsemi slíkrar árásar í efa.

Í grein í New Yorker tímaritinu hefur Seymour Herst það til dæmis eftir öldungardeildarþingmanni Demokrata að Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafi sagt á fundi með öldungardeildarþingmönnum að með því að ráðast á Íran myndu Bandaríkjamenn “búa til kynslóð af jihad-öfgamönnum, og barnabörn okkar munu þurfa að berjast við óvini okkar hér í Ameríku.” Herst segir einnig að yfirmenn bandaríska hersins séu að berjast af öllu afli gegn fyrirætlunum um árás á Íran og að fleiri en 10 fjögurra stjörnu herforingjar í bandaríska hernum hafi lagst gegn slíkum fyriráætlunum.

Frá sjónarhóli Bandaríkjanna eru helstu rökin gegn hernaðaraðgerðum í Íran þau að slíkar aðgerðir myndu snúa írönsku þjóðinni gegn Bandaríkjunum og þannig styrkja stöðu núverandi valdhafa í Íran. Þar að auki myndi Íran líklega bregðast við með því að auka stuðning sinn við skæruliða í Írak og ef til vill einnig í Afganistan.

En málin horfa allt öðru vísi við Ísraelsmönnum. Frá þeirra sjónarhorni er algerlega óásættanlegt að írönsk stjórnvöld—sem hvað eftir annað hafa lýst því yfir að þau stefni að því að má Ísrael af kortinu—fái kjarnorkuvopn í hendurnar. Ísraelsmenn eru einfaldlega ekki tilbúnir að taka áhættuna á því að sjá til með það hvort stjórnvöldum í Íran sé í raun alvara með það að má þá út af kortinu. Og ljái þeim hver sem vill í ljósi sögu gyðinga.

Þar að auki gera Ísraelar sér líklega grein fyrir því að Bandaríkjamenn munu að öllum líkindum þurfa að takast á við viðbrögð Írana að mestu leyti. Íranir hafa lýst því yfir að ef ráðist verður á þá munu þeir loka Hormuz sundi. En um fimmtungur af allri olíuframleiðslu heims fer um sundið. Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að þeir geti ekki sætt sig við að Hormuz sundi verði lokað. Viðbörgð Írana við árás Ísraela eru því líkleg til þess að draga Bandaríkjamenn inn í átök við Írani.

Ísraelar hafa að undanförnu staðið fyrir mjög umfangsmiklum heræfingum á austurhluta Miðjarðarhafs sem taldar eru vera æfingar fyrir hugsanlega árás á Íran. Talið er að Ísraelar muni ekki vilja gera slíka áras fyrr en eftir kosningarnar í Bandaríkjunum í byrjun nóvember þar sem þeir munu ekki vilja hafa áhrif á niðurstöður kosninganna. En margir telja hins vegar að Ísraelar muni líta á tímabilið milli nóvembers og janúars þegar nýr forseti Bandaríkjanna tekur við sem álitlegan tíma til þess að gera árás.

Það virðist vera til mikils að vinna að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn eða Ísraelar geri árás á Íran á næstu misserum. Vonandi verður unnt að snúa Írana af braut kjarnorkuvæðingar án þess að til árásar komi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.