Stjórnun er skemmtilegt sport

Líklega hafa allir einhvern tíman tekið forystu eða stjórnað hópi fólks, stórum eða smáum, einhvern tíman á lífsleiðinni. Hvort heldur sem er á vinnustað, vinahóp, félagsstarfi eða bara innan fjölskyldunnar. Óumdeilanlegt er að góður stjórnandi getur bæði haft margföldunaráhrif á hópa – en að sama skapi stundum gert meira ógagn en gagn. En hver er lykillinn að góðum stjórnanda – og er hann til?

Líklega hafa allir einhvern tíman tekið forystu eða stjórnað hópi fólks, stórum eða smáum, einhvern tíman á lífsleiðinni. Hvort heldur sem er á vinnustað, vinahóp, félagsstarfi eða bara innan fjölskyldunnar.

Við getum því ályktað sem svo að öllum hafi verið stjórnað, og allir hafi stjórnað.

Óumdeilanlegt er að góður stjórnandi getur bæði haft margföldunaráhrif á hópa – en að sama skapi stundum gert meira ógagn en gagn. En hver er lykillinn að góðum stjórnanda?

Markmið góðs stjórnanda er að stefna að því að gera ekki neitt! Kannski þó ekki alveg í bókstaflegri merkingu, en í rauninni er mjög mikið til í þessari fullyrðingu. Margir stjórnendur lenda nefnilega oft í þeirri gryfju að ætla sér að gera allt sjálfir og treysta starfsmönnum sínum ekki alveg jafn vel og sjálfum sér. Gallinn er sá, að ef stjórnendur gera allt sjálfir þá er jú ansi lítill tími eftir til að stýra og laða fram það besta í undirmönnunum. Þetta er geysilega algengt vandamál hjá millistjórnendum á Íslandi.

Svo er það þetta með traustið. Bæði traust til undirmanna en ekki síður sjálfstraust. Lykilatriði góðra stjórnenda sem eru í þeim sporum að ráða fólk, eða velja með sér í hóp, er að ráða sér hæfara fólk. Fólk sem stjórnendur treysta og geta bætt upp það sem stjórnandann vantar. Það virðast vera þó nokkuð algengt að stjórnendur lendi í þeirri gryfju lítils sjálfstrausts að þora ekki að ráða hæfara, betra og afkastameira fólk í vinnu. Skrítið – en satt. Málið er einfaldlega það að bestu stjórnendurnir eru yfirleitt þeir sem hafa bestu yfirsýnina yfir stefnu fyrirtækisins eða hópsins, geta miðlað verkefnum og laðað fram það besta í hverjum í teyminu. Það er langt frá því þannig að stjórnendur séu iðulega bestir í öllum hlutum.

Síðan er samt alveg klárt mál að enginn “rétt leið” er til í stjórnun enda hafa líklega verið skrifaðar fleiri hillukílómetrar af kenningum og stjórnunarbókum. Auk þess sem mismunandi stjórnunarstíll hentar ólíkum einstaklingum og hópum.

Ein er sú stjórnunarkenning sem náð hefur töluverðu fylgi, sem kalla mætti “sjálfsstjórnunar-leiðtogann” (e. self-management leadership). Þessi stjórnunaraðferð snýst fyrst og fremst um að leiða undirmennina í rétta átt þannig að þeir taki sjálfir ábyrgð á stjórnun verkefna og eigin framförum. Í stuttu máli byggist kenningin upp á sex þáttum:

– Hvetja til sjálfsskoðunar (e. self-observation)
– Hvetja til markmiðasetningar (e. self-goal setting)
– Hvetja til sjálfsstyrkingar (e. self-reinforcement)
– Hvetja til hárra væntinga til sjálfs síns (e. self-expectation)
– Hvetja til þjálfunar og æfinga (e. rehersal)
– Hvetja til sjálfsgagnrýni (e. self-criticism)

Hljómar ótrúlega einfalt og raunar bara sem almenn skynsemi. En hversu marga stjórnendur þekkir þú sem ná að samtvinna alla þessa þætti?

Stjórnun er mjög áhugaverð og skemmtileg stúdía – en langt frá því auðspilað sport.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)