Bráð lög

Það fór lítið fyrir nýja löggjafanum í síðustu viku. Viðskiptaráðherra gerði sér lítið fyrir og setti bráðabirgðalög til að ná utan um liðinn atburð. Hvort tveggja er gagnrýnisvert; efni laganna og það að gripið var til setningar bráðabirgðalaga.

Það fór lítið fyrir nýja löggjafanum í síðustu viku. Viðskiptaráðherra gerði sér lítið fyrir og setti bráðabirgðalög til að ná utan um liðinn atburð. Hvort tveggja er gagnrýnisvert; efni laganna og það að gripið var til setningar bráðabirgðalaga.

Það er alltaf afar umdeilt þegar framkvæmdavaldið tekur fram fyrir hendurnar á löggjafavaldinu og setur bráðabirgðalög. Enda er það svo að í stjórnarskránni er skýrt kveðið á um að einungis þegar brýna nauðsyn ber til getur forseti gefið út bráðabirgðalög þegar Alþingi er ekki að störfum. Við samlestur á 28. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. má glögglega sjá að er ráðherra sem tekur ákvörðun um setningu bráðabirgðalaga, leggur mat á brýna nauðsyn þess og færir forseta til undirritunar.

Í síðustu viku mat Björgvin G Sigurðsson, viðskiptaráðherra og jafnframt 2. þingmaður Suðurkjördæmis, það svo að bráðnauðsynlega þyrfti að gefa út bráðabirgðalög til að lækka sjálfábyrgð einstaklinga, skv. lögum um Viðlagatryggu Íslands, þegar tjón ber að höndum. Nánar tiltekið var lögunum þannig breytt að eigin áhætta einstaklinga af tjóni lausafjár var lækkaði úr 85 þúsund krónum niður í 20 þúsund krónur. Bráðabirgðalögin eru jafnframt gerð afturvirk og ná til tjóna sem verða frá 25. maí 2008.

Suðurlandsjarðskjálftinn reið yfir 29. maí sl. og er bráðabirgðalögunum gert að taka þannig til tjóna sem af þeim hörmungum hlutust. Rökstuðningurinn fyrir lögunum er sá að eigin áhætta skv. eldra lagaákvæði hefði verið óeðlilega há, eða um 85 þúsund krónur. Til að tryggja að tjónþolar á Suðurlandi fái sanngjarnar bætur sé því brýn nauðsyn til staðar að sniðganga Alþingi og breyta lögunum eftirá.

Eðlilega leggjast allir landsmenn á eitt til að koma þeim sem urðu fyrir tjóni 29. sl. til aðstoðar. Náttúruhörmungar sem þessir eru sem betur fer sjaldgæfir en þeir gera ekki boð á undan sér. Það er rétt hjá ríkisstjórninni að bregðast skjótt við og reyna eftir fremst megni að eyða óvissu sem upp getur komið í sambandi við það tjón sem fjöldi fólks hefur orðið fyrir. En það var rangt að grípa til stjórnskipulegra örþrifaráða og setja bráðabirgðalög.

Fyrir það fyrsta hefði verið lítið mál að kalla Alþingi saman. Tímarnir eru breyttir frá því ákvæði um bráðabirgðalög var fyrst sett í stjórnarskrá. Nútímatækni og gjörbreyttar samgöngur gera það að verkum að leikur einn er að kalla alþingismenn aftur til starfa með viku fyrirvara eða svo. Engin brýn nauðsyn var því til staðar sem kallaði á að ráðherra gripi þannig fram fyrir hendurnar á löggjafanum. Allt tal um að slíkt hefði verið bara vesen og kostnaðarsamt lýsa miklum hroka og ekki síður skilningsleysi á eðli og mikilvægi þess stjórnskipunarfyrirkomulags sem stjórnarskránni er ætlað að tryggja.

Í annan stað hefði verið hægt að koma til móts við tjónþolendur Suðurlandsskjálftans með öðrum hætti en að breyta lögum um Viðlagatryggingar eftirá. Ríkisstjórnin hefði getað gripið til séraðgerða til að greiða tjónþolum bætur í samræmi við þær fjár- og lagaheimildir sem ríkisstjórnin hefur til að bregðast við slíkum óvæntum atburðum. Þá hefði verið lítið mál að eyða óvissu tjónþola með sérstakri yfirlýsingu um að ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir setningu sérlaga til að minnka tjón einstaklinga þegar Alþingi kæmi saman í haust.

Þá er gagnrýnisvert hvernig ráðherra rökstyður nauðsyn þess að lækka eigin ábyrgð einstaklinga með vísan til þess að fyrri ábyrgð hafi verið óeðlilega há. Með setningu laga um Viðlagatryggingu Íslands mat löggjafinn það svo að þágildandi upphæð sjálfsábyrgðar væri eðlileg. Það liggur fyrir að enn er ekki búið að meta það tjón sem varð í kjölfar jarðskjálftans. Hvernig getur viðskiptaráðherra þá metið í fljótræði að eigin áhætta einstaklinga af tjóni sé of há og freklega þannig hunsað fyrra mat Alþingis? Er þetta kannski dæmi um nútímalega lýðræðis- og stjórnsýsluhætti ráðherrans að leggja ofuráherslu að þurfa ekki að bera þetta mál undir kjörna fullrúa almennings sem sitja á Alþingi?

Eftir stendur að framkvæmdavaldið með viðskiptaráðherra í broddi fylkingar hefur virt ákvæði stjórnarskrárinnar að vettugi og sett bráðabirgðalög án þess að fyrir því hafi verið brýn nauðsyn. Bráðabirgðalögin eru í þokkabót afar illa ígrunduð og brjóta gegn því meginskilyrði, sem lög í réttarríki verða að uppfylla, um að gilda ekki afturvirkt. Það eru því væntanlega engar líkur á því að ráðherrann fari að minnast á þessi ólög sín fyrir næstu Alþingiskosningar í Suðurkjördæmi.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.