Styrmir stígur af sviðinu

Brotthvarf Styrmis Gunnarssonar úr stól ritstjóra Morgunblaðsins markar tímamót fyrir blaðið. Bæði vegna þess að merkur fjölmiðlamaður lætur af störfum eftir langan feril en líka vegna þess að blaðið getur nú farið í nauðsynlega naflaskoðun.

Með brotthvarfi Styrmis Gunnarssonar úr stól ritstjóra Morgunblaðsins má segja að ákveðnu tímabili í fjölmiðlum á Íslandi sé að ljúka. Í það minnsta verða mikil vatnaskil hjá Morgunblaðinu og hvað sem fólki kann að finnast um þá stefnu sem Morgunblaðið hefur tekið í tíð Styrmis verður því varla á móti mælt að af sviðinu stígur maður sem hefur verið afar áhrifamikill íslenskum fjölmiðlum um áratugaskeið.

Persóna Styrmis er raunar orðið ansi samtvinnuð Morgunblaðinu. Það fer kannski vel á því fyrir mann sem hefur vanið sig á að skrifa og hugsa sem „Morgunblaðið“ jafnlengi og hann. Í þessu hafa bæði styrkleikar og veikleikar blaðsins falist því undanfarin ár hefur Morgunblaðið að miklu leyti til verið einleikur ritstjórans.

Þessi sterki svipur Styrmis á blaðið hefur útheimt miklu elju af hans hálfu og langar vaktir yfir minnstu smáatriðum á síðum blaðsins auk þess sem ætla má að hann hafi haft afar sterka stöðu gagnvart sínu samstarfsfólki. Enda hefur varla farið fram það fréttamat eða verið skrifaður sá leiðari sem gengur gegn hugsjónum hans eða baráttumálum.

Þessi mikla stýring stingur nokkuð í stúf við stíl annarra ritstjóra, þ.á m. eftirmanns Styrmis á ritstjórastóli, Ólafs Stephensen. Annars staðar er frekar farin sú leið að ritstjórar setja almennar viðmiðanir fyrir umfjöllun blaðsins en gefa svo fréttastjórum og blaðamönnunum lausan tauminn við fréttaskrif og fréttamat. Við lestur Moggans fær maður yfirleitt eitthvað allt annað á tilfinninguna – hvert orð virðist hafa verið vegið og metið út frá nokkrum hliðum og ýmis konar hagsmunum. Þetta tryggir blaðinu vissulega ákveðinn áreiðanleika og það er lítið um ævintýramennsku í fréttaflutningi Morgunblaðsins. Aftur á móti gefur þetta vinnulag blaðinu þungt yfirbragð og dregur úr snerpu og ákefð sem hin blöðin á markaðnum hafa í meira mæli. Þróunin í lesendakönnunum sýnir þetta vel en lestur Morgunblaðsins hefur dalað jafnt og þétt undanfarin ár á kostnað annarra blaða. Það er kannski skýrasta krafan um breytingar.

Ef marka má fréttir af mannabreytingum í tengslum við ritstjóraskiptin virðist nýr ritstjóri ekki ætla sér í fötin af Styrmi. Hann virðist ekki einu sinni ætla að máta þau því nú þegar hefur verið tilkynnt um breytingar á stjórn fréttadeildar blaðsins, íþróttadeildarinnar, sunnudagsblaðsins og menningarumfjöllunar auk þess sem fyrrverandi ritstjóri viðskiptablaðs Fréttablaðsins hefur verið fenginn yfir á Moggann. Það er með öðrum orðum helst Lesbókin og Bílablaðið sem haldast óbreytt í bili.

Í þessum breytingum felst að blaðamenn og fréttastjórar, sem eru í hópi þeirra reynslumestu og öflugustu í íslenskum fjölmiðlum, ýmist hætta eða eru færðir til í starfi. Svona tilfærslur eru aldrei óumdeildar en ljóst er að nýi ritstjórinn þorir að gera breytingar. Þar er af nógu að taka því ef Mogginn ætlar ekki að daga uppi sem einhvers konar stofnun á fjölmiðlamarkaðnum verður að breyta efnistökum blaðsins og tilfinningunni sem það ber með sér.

Blaðið virkar sem hluti af kerfinu. Þetta var sérstaklega áberandi í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem Mogginn var oft sem þrettándi ráðherrann. Trekk í trekk tók blaðið upp hanskann í málum sem áttu lítinn stuðning meðal almennings á sama tíma og það tók að sér að herja á og jafnvel úthúða þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Öðrum stjórnmálamönnum veitti blaðið tilmæli, ávítur eða óumbeðna leiðsögn í ákveðnum málum – eitthvað sem menn gátu fengið í andlitið ef þeir tóku ekki nógu alvarlega.

Svona vinnubrögð og aðferðafræði heyra líklega brátt sögunni til. Það hafa fæstir lesendur áhuga á dagblöðum sem gefa skipanir út í stjórnmálalífið eða reyna að stilla stjórnmálamönnum upp við vegg þótt slíkt geti auðvitað verið gaman að lesa á köflum, einkum fyrir áhugamenn um stjórnmál og Kremlarlógíuna. Blöð verða að hafa víðara sjónarhorn á samfélagið.

Miðað við fyrstu skref nýs ritstjóra mun Morgunblaðið taka hröðum stakkaskiptum á næstu mánuðum. Þar verða breyttar áherslur í einstaka stefnumálum blaðsins ekki aðalatriði, eins og sumir virðast halda, heldur ný vinnubrögð. Þeir sem óttast stefnubreytingar Morgunblaðsins í Evrópumálum ættu að anda rólega því hið nýja Morgunblað mun að öllum líkindum ekki reka sína pólitík í Evrópumálum eða öðrum málum með illkvittnum staksteinum og útreiknuðum fréttauppslátti. Blaðið mun vissulega hafa skoðanir áfram en fyrst og fremst segja fréttir. Þessi forgangsröðun hefur undanfarin ár frekar verið á hinn veginn hjá blaðinu – það hefur fyrst og fremst haft skoðanir en samhliða því sagt fréttir.

Ef breyting verður á þessu hugarfari hjá ritstjórn blaðsins er leiðin greið.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.